Bjargráðasjóði tryggt fjármagn
'}}

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lagt til að Bjargráðasjóði verði tryggt aukið fjármagni á þessu ári vegna óvenju mikilla kal- og girðingatjóna veturinn 2019-2020. Ríkisstjórnin samþykkti að tillögu ráðherra að vísa málefnum sjóðsins til vinnslu frumvarps til fjáraukalaga 2020.

Síðastliðinn vetur varð óvenju mikið girðingatjón vegna óveðurs í desember 2019 og almennrar vetrarhörku. Sjóðnum hafa að auki borist fjölmargar tilkynningar um verulegt kaltjón, einkum á Norður- og Austurlandi. Ásókn í sjóðinn er því mikil en endanleg fjárhæð tjónsins liggur ekki fyrir þar sem unnið er að því að meta umsóknir sem eru á þriðja hundrað. Þó er ljóst að það er talsvert umfram núverandi úthlutunar getu sjóðsins.

Bjargráðasjóður starfar samkvæmt lögum nr. 49/2009 og er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Hlutverk sjóðsins er að veita einstaklingum og félögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiriháttar beint tjón af völdum náttúruhamfara, m.a. vegna tjóns á girðingum og vegna uppskerubrests af völdum óvenjulegra kulda, þurrka og kals. Fjárhagsaðstoð sjóðsins felst í veitingu styrkja sem stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni í samræmi við fjárhag og stöðu sjóðsins.