Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður:
Það kann að koma undarlega fyrir sjónir að ekki einn einasti kjósandi hefur komið að máli við frambjóðandann mig vegna hinnar „nýju stjórnarskrár“. Ég held líka að dómarar verði fyrst verulega hættulegir þegar dómsniðurstöður þeirra byggjast eingöngu á orðanna hljóðan þegar stjórnarskráin var rituð.
Það hefur fjöldinn allur af kjósendum komið að máli við mig vegna þeirra „fórna“ sem þeir hafa fært með því að greiða framlög í lífeyrissjóði.
Ágæt kona
Ein ágæt kona kom að máli við mig og sagðist hafa unnið frá unga aldri, ávallt greitt í lífeyrissjóði af allri sinni vinnu, sagðist í raun alls ekki sjá eftir framlaginu í sjóðina en sér þætti undarlegt að það væru allir að keppast við að komast á einhvers konar bætur. Hún greiddi skatta af lífeyristekjum sínum en aðrir þægju bætur af þeim sköttum.
Konan sagði að í raun snerist lífsbaráttan um að greiða fyrir bætur eða vera á bótum. Konunni fannst í raun að lífeyriskerfið væri hrossamarkaður sálarinnar að vinnutíma loknum.
Konan sagði að hún væri lítið betur sett, eftir mikla vinnu og framlög í lífeyrissjóði, en þeir sem hefðu greitt lítið í lífeyrissjóð og fengju bætur í formi tekjutryggingar. Þá væri nokkrum jöfnuði náð en konunni fannst réttlætið lítið.
Að hverju var stefnt í upphafi?
Kerfi almennra lífeyrissjóða á rætur að rekja til kjarasamninga árið 1969. Á þeim tíma sem liðinn er hefur verið sett almenn löggjöf um starfsemi lífeyrissjóða. Skuldbinding lífeyrissjóða er skilyrt eign sjóðfélaga að hluta og séreign sjóðfélaga að hluta. Það var stefnt að því að sjóðfélagar fengju 60% af launum við starfslok.
Að því kom að tekjufallið þótti of mikið. Því skyldi sjóðfélögum gefinn kostur á að auka framlag sitt í lífeyrissjóð, gegn mótframlagi atvinnurekanda, í séreignasjóð.
Svo geta menn deilt um hvort markmiðið hafi náðst.
Hin skilyrta eign sjóðfélaga er háð samtryggingu. Samtryggingin tekur tillit til mismunandi lífaldurs og örorku sjóðsfélaga.
Séreign og samtrygging lýtur sömu lögmálum varðandi ávöxtun eigna lífeyrissjóða og þar með getu til að standa undir lífeyri.
Ef ekki væri söfnunarkerfi í lífeyrissjóðum þyrfti að koma á gegnumstreymiskerfi. Það hefði í för með sér 25-30% tekjuskatt aukalega eða rúmlega 30% tryggingagjald.
Borgaralaun
Borgaralaun byggjast á svipuðum hugmyndum og gegnumstreymiskerfi lífeyrissjóða. Sá er þó munurinn að þar er ekki gert ráð fyrir að nokkur þurfi að vinna, nema þeir sem eru svo vitlausir að skilja ekki að þeir eru jafn settir með borgaralaun og atvinnutekjur. Hver á að borga, ef allir hafa vitglóru? Það verða bara vitleysingar sem vinna.
Píratar eru að eðlisfari latir og borgaralaun kunna að henta þeim vel. Þeir taka sófa fram yfir vinnu.
Skattlagning lífeyristekna
Fram til þessa hafa allar ráðstafanir varðandi ellilífeyri almannatrygginga byggst á því að skerða lífeyri til þeirra sem hafa tekjur af einhverju tagi. Þá er átt við atvinnutekjur, lífeyristekjur eða fjáreignatekjur! Allt er lagt að jöfnu við skerðingar, með þeim afleiðingum að frjáls sparnaður er gerður lítt eftirsóknarverður, jafnvel skaðlegur.
Þeim, er þetta ritar, finnst eðlilegt að komið sé til móts við konuna, sem fjallað er um hér að framan, með því að skattleggja lífeyristekjur með öðru og lægra skatthlutfalli en launatekjur og þá án tillits til þess hvort lífeyrisþegi hafi launatekjur. Skattlagning fjáreignatekna er annar kafli!
Hví að skattleggja sérstaklega?
Það er ýmislegt sem mælir með sértækri skattalegri meðferð á lífeyristekjum einstaklinga.
Fyrsta ástæðan er sú að lífeyristekjur eru tekjur af þvinguðum sparnaði. Það er eðlilegt að einstaklingur fái umbun fyrir þvingun.
Önnur ástæðan er sú að lífeyristekjur eiga að hluta til uppruna sinn í ávöxtun og verðbótum. Það er eðlilegt að veita umbun fyrir sparnað.
Þriðja ástæðan er sú að það er eðlilegt að þeir sem hafa greitt skilmerkilega í lífeyrissjóði alla sína starfsævi og þurfa síður eða ekki bætur frá almannatryggingum fái nokkra umbun fyrir þann sparnað, sem greiðslur þeirra í lífeyrissjóði eru fyrir almannatryggingar. Hafa má í huga að það er fólkið á vinnumarkaði sem stendur undir bótum almannatrygginga. Bætur almannatrygginga eru í raun ósjálfbært gegnumstreymiskerfi.
Fjórða ástæðan fyrir lægri skattlagningu lífeyristekna er að með því er verið að koma til móts við allar þær skerðingar sem leitt hafa til óánægju og gremju. Vera má að breytt skattlagning leiði ekki til ánægju!
Annar ábati ríkissjóðs
Það er einnig ábati fyrir ríkissjóð að efla vilja til lífeyrissparnaðar því lífeyrisþegar greiða af lífeyristekjum sínum fyrir kostnað á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Auðvitað er það mismunun til viðbótar við skerðingar á bótum almannatrygginga.
Annmarkar á tekjutryggingu
Það er eðlilegt að löggjafinn kanni leiðir til þess að komast út úr þeirri rökleysisgildru sem hugsunin að baki tekjutryggingu hefur í för með sér. Tekjutrygging getur leitt til fátæktargildru í versta falli, en að því var ekki stefnt.
Önnur leið til að losna úr rökleysugildru tekjutryggingar er að efla frjálsan sparnað með því að meðhöndla fjáreignatekjur á þann veg að einungis raunvextir leiði til skerðingar.
Sennilega er ekkert sem bætir velferð eldri borgara jafn mikið og frjáls sparnaður.
Sú góða ídea að gerast stórhuga í sparnaði gerir ekki betur en vel, og virðist oft fara illa.
Skáldið
Eins og skáldið sagði:
Tilveran er sem einn túkall,
túkall sem maður fær.
Ég fékk hann til láns af láni
hjá lítilli stúlku í gær.
Og mun ekki greiða hann að eilífu amen.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. október 2020.