Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Kannski er það ósanngjarnt að halda því fram að umræða um stefnuræðu forsætisráðherra í liðinni viku hafi verið leiðinleg. Vonandi höfðu einhverjir nokkra skemmtun af henni. En hafi einhverjir beðið spenntir eftir að fá skýra sýn á stefnu stjórnarandstöðunnar, ekki síst í glímunni við efnahagslegar þrengingar vegna kórónuveirunnar, hefur sá hinn sami orðið fyrir vonbrigðum. Ekkert nýtt, aðeins gömul uppfærð handrit og innihaldslaus slagorð. Leikurinn var endurtekinn síðasta mánudag þegar fyrsta umræða um fjárlög komandi árs fór fram.
Þegar staðið er frammi fyrir miklum samdrætti – þar sem verðmæti þjóðarframleiðslunnar dregst verulega saman – reynir á ríkisstjórn, stjórnarflokka og stjórnarandstöðu. Ríkisstjórn undir forystu Samfylkingarinnar valdi leið niðurskurðar og hærri skatta þegar tekist var á við djúpstæða kreppu í kjölfar falls bankanna. Allir þekkja hvaða afleiðingar sú stefna hafði. Eldri borgarar og öryrkjar, heilbrigðiskerfið og menntakerfið fundu mest fyrir hníf niðurskurðar. Fjárfestingar voru frystar. Það var í raun skrúfað fyrir súrefni efnahagslífsins.
Tekið utan um samfélagið
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tekst á við erfiðleikana með allt öðrum hætti. Þrátt fyrir samdrátt aukast útgjöld á komandi ári, fjárfestingar eru stórauknar og skattar lækkaðir. Sem sagt: Í stað þess að minnka súrefnið er það aukið hressilega. Þannig er viðnámsþróttur heimila og fyrirtækja aukinn.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var skýr í þessum efnum í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Loforð ríkisstjórnarinnar sé að gera meira en minna:
„Það er mikilvægt að taka þannig utan um samfélagið, bæði fólk og fyrirtæki, að þau komist hratt á fæturna aftur þegar glaðnar til. Að við töpum ekki verðmætum að óþörfu, að hjarta lífvænlegrar starfsemi geti haldið áfram að slá. Án atvinnulífsins verður engin viðspyrna. Án atvinnulífsins eru engin störf, hvorki núna né til að snúa aftur í. Þess vegna er mikilvægt að við gerum núna það sem hægt er að gera til að milda áfallið og stytta atrennuna að næsta hagvaxtarskeiði. Það er okkur öllum því lífsnauðsynlegt að atvinnustarfsemin taki aftur við sér. Þeir sem gera lítið úr vanda atvinnulífsins eða telja rangt af stjórnvöldum að standa með fyrirtækjum skilja einfaldlega ekki þetta mikilvæga samband milli þess að sköpuð séu verðmæti í einkageiranum og lífskjara okkar allra.“
Fjárlög og stefna í ríkisfjármálum er töluverð jafnvægislist, ekki síst í samsteypustjórn þriggja ólíkra flokka. Auðvitað er margt sem sá er hér ritar hefði viljað sjá með öðrum hætti, ekki síst þegar kemur að tekjuöflunarkerfi ríkisins og skipulagi ríkisrekstrar. En heildarmyndin er skýr. Góð staða ríkissjóðs er nýtt til að bregðast kröftuglega við samdrætti efnahagslífsins vegna kórónuveirunnar.
34 milljörðum lægri skattar
Þeim sem eru óþolinmóðir finnst oft ganga hægt að létta skattbyrði launafólks og fyrirtækja. Oft er varnarbaráttan erfið. Ríkisstjórnin hefur hins vegar fylgt þeirri skýru stefnu að auka ráðstöfunartekjur almennings (ekki síst þeirra lægst launuðu) og styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Þannig lækka álögur varanlega á komandi ári um 34 milljarða króna. Hlutfall skatttekna og tryggingagjalds af vergri landsframleiðslu hefur lækkað hressilega á kjörtímabilinu eins og sést á meðfylgjandi mynd.
Mest munar um þær skattkerfisbreytingar sem gerðar hafa verið á tekjuskattskerfi einstaklinga sem kemur að fullu til framkvæmda í byrjun komandi árs. Breytingarnar tryggja 21 milljarðs króna lækkun tekjuskatts á ári auk tveggja milljarða sérstakrar hækkunar persónuafsláttar á síðasta ári. Lækkunin kemur fyrst og fremst þeim tekjulægri til góða og munu ráðstöfunartekjur þeirra aukast um rúmlega 120 þúsund krónur á ári.
Alls nemur lækkun tryggingagjalds um átta milljörðum á ári en stefnt er að enn frekari lækkun (tímabundinni) til að mæta áhrifum samningsbundinna launahækkana á almennum vinnumarkaði. Lækkun er áætluð um fjórir milljarðar sem þýðir að tryggingagjald á komandi ári verður um 12 milljörðum lægra en það hefði orðið að óbreyttu.
Áhrif sjálfvirkrar sveiflujöfnunar á tekjur ríkisins eru mikil en auk þess hafa stjórnvöld lækkað álögur um rúma 17 milljarða með beinum aðgerðum. Þar vegur full endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu við íbúðarhúsnæði þungt.
Gleði hinna óþolinmóðu
Það er sérstaklega ánægjulegt að stefnt er að því að stíga fyrsta skref í að lækka erfðafjárskatt með því að hækka frítekjumark úr 1,5 milljónum í fimm milljónir króna. Þessi lækkun gagnast hlutfallslega best eignaminni búum. Lækkun er í anda frumvarps þingmanna Sjálfstæðisflokksins um lækkun þessa óréttláta skatts, ekki síst á eignir launafólks. Fjármálaráðherra hefur einnig boðað um tveggja milljarða lækkun á fjármagnstekjuskatti með endurskoðun á skattstofni. Útfærslan liggur ekki fyrir, en hún skiptir miklu.
Með því að auka skattalega hvata fyrirtækja og einstaklinga verður styrkari stoðum rennt undir starfsemi almannaheillafélaga. Þannig styttist í að gamall draumur þess er hér skrifar og margra annarra rætist. Gert er ráð fyrir að vegna þessa verði „tekjutap“ ríkissjóðs á næsta ári um 2,1 milljarður.
Og við þessi óþolinmóðu getum ekki annað en glaðst yfir að ríkisstjórnin stefni að því að innleiða skattalega hvata til að örva þátttöku almennings í atvinnulífinu með kaupum á hlutabréfum. Þetta er í samræmi við frumvarp sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu fram á síðasta ári um skattafrádrátt vegna hlutabréfakaupa. Auknar ívilnanir (hvatar) vegna rannsóknar og þróunar eru af sama meiði en gert er ráð fyrir að þær hækki í sjö milljarða á komandi ári. Áætluð framlög til nýsköpunarmála eru 25 milljarðar sem er um fimm milljarða hækkun milli ára.
Súrefnið er ekki aðeins aukið með lægri álögum heldur verður fjárfesting ríkisins á komandi ári í sögulegu hámarki eða um 111 milljarðar króna. Stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið er bygging nýs Landspítala. Í greinargerð fjárlagafrumvarpsins er bent á að framlög til ýmissa fjárfestinga aukist um ríflega 36 milljarða frá fjárlögum yfirstandandi árs. „Aukningin á milli ára skýrist að miklu leyti af mótvægisráðstöfunum ríkisstjórnarinnar og þeirri stefnumörkun stjórnvalda að styðja við hagkerfið þar til atvinnulífið hefur tekið við sér, m.a. með sérstöku fjárfestingaátaki í innviðum, hugviti og þekkingu.“
Stundum þakkar maður fyrir
Um 60% af útgjöldum ríkissjóðs er varið til velferðar-, heilbrigðis- og menntamála. Á nær öllum sviðum verða útgjöld aukin, þrátt fyrir erfiða stöðu. Þannig hækka framlög til heilbrigðismála á næsta ári um ríflega 15 milljarða að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum. Um 10,5 milljarða hækkun verður á framlagi til málefna aldraðra og öryrkja samkvæmt fjárlagafrumvarpinu og gert er ráð fyrir að útgjöld vegna mennta- og menningarmála hækki um tæpa sex milljarða.
Ríkisstjórnin er sem sagt að beita ríkisfjármálunum og auðvelda heimilum og fyrirtækjum að veita viðspyrnu á erfiðum tímum og gera þeim kleift að grípa tækifærin til uppbyggingar á náinni framtíð. Sundruð stjórnarandstaða leggur lítið til annað en uppboðsmarkað loforða þar sem lykilorðin eru: aukin útgjöld, hærri skattar og fjölgun opinberra starfa.
Oft þakkar maður fyrir hverjir sitja ekki við stýrið.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. október 2020.