Ríkisfjármálum verður áfram beitt af fullum þunga til að verja störf og skapa viðspyrnu, en gert er ráð fyrir að áhrif heimsfaraldurs kórónuveirunnar á ríkissjóð verði neikvæð um 192 milljarða króna á næsta ári. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 sem lagt er fram á Alþingi við upphaf nýs þings, samhliða fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025. Skattar verða alls um 52 ma.kr. lægri á komandi ári en þeir hefðu orðið án ákvarðana ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu. Þetta kemur fram í frétt á vef fjármálaráðuneytisins.
Markvisst unnið gegn samdrætti
Meginmarkmiðið verður áfram að verja lífskjör og veita viðspyrnu fyrir nýtt hagvaxtarskeið. Sökum þess hve góð staða ríkissjóðs var í upphafi farsóttarinnar hafa stjórnvöld haft tækifæri til að bregðast kröftuglega við afleiðingum hennar með stuðningi við fólk og fyrirtæki í vanda. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs birtist áfram þessi stefna stjórnvalda að vinna bug á erfiðum aðstæðum og beita ríkisfjármálunum af fullum þunga.
Afkoma ríkissjóðs versnar á næsta ári um 192 milljarða króna vegna beinna efnahagslegra áhrifa faraldursins og ákvarðana til að sporna við afleiðingum hans. Þyngst vegur samdráttur skatttekna vegna minni umsvifa en hann nemur um 89 ma.kr. Einnig minnka tekjur ríkissjóðs vegna aðgerða til að bregðast við heimsfaraldrinum, m.a. með því að endurgreiða virðisaukaskatt vegna vinnu, flýtingu á lækkun bankaskatts og niðurfellingu gistináttaskatts en samtals kosta þessar aðgerðir ríkissjóð um 17 ma.kr. Þá er gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur hækki um 23 ma.kr. Útgjöld vegna ýmissa mótvægisaðgerða eru áætluð um 35 ma.kr. en þar má nefna fjárfestingar- og uppbyggingarátak, eflingu háskóla- og framhaldsskólastigs til að bregðast við atvinnuleysi og auknar endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunar. Þá er gert ráð fyrir að arðgreiðslur lækki um 27 ma.kr.