„Gleymum því ekki að við sem þjóð höfum aldrei verið jafn vel í stakk búin til að bregðast við ytri áföllum og einmitt núna. Og þótt við séum núna kannski í öldudalnum miðjum er ég sannfærður um það er bjart framundan,“ sagði Páll Magnússon alþingismaður í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld.
„Í Reykholti í Biskupstungum, í Bláskógabyggð, er fjölskyldufyrirtæki sem heitir Friðheimar. Fyrir 15 árum eða svo þá hófu þau heilsársræktun á tómötum og vegnaði vel. Upp úr hruni, fyrir 10 árum, fóru þau að þreifa fyrir sér í ferðaþjónustu til að skjóta aukastoð undir reksturinn.
Það er skemmst frá því að segja að í öllum þeim uppgangi sem varð í ferðaþjónustunni á næstu árum snerust hlutföllin við; ferðaþjónustan varð 75% af rekstrinum en tómataræktin 25%. Um 180 þúsund gestir komu í Friðheima á síðasta ári og starfsmenn voru um 60.
Þetta eru mikil umsvif í því 300 manna samfélagi sem Reykholt er.
Í vor voru góð ráð dýr. Það stefndi í að 75% af rekstrinum hryndi til grunna. Nærtækast hefði kannski verið að skera allt niður og skrúfa reksturinn niður í 25 prósentin - en það gerði fjölskyldan í Friðheimum ekki. Þau hugsuðu sem svo að þótt ferðamennirnir kæmu ekki þetta sumarið þá myndu Íslendingar halda áfram að borða tómata.
Og þau réðust af öllu afli í það. Keyptu land og notuðu Covid-sumarið til að reisa 5.600 fermetra nýmóðins gróðurhús. Tvöfölduðu ræktunarrýmið - og munu núna byrja að planta tómötum í nýja húsinu núna í næsta mánuði. Og þau eru líka tilbúin að taka á móti ferðamönnum þegar þeir koma aftur,“ sagði Páll.
Hvora vöruna vill fólk nota?
Hann velti fyrir sér lærdóminum af þessari dæmisögu. Í því samhengi nefndi hann að 60% af tómataneyslu landsmanna væru innfluttir tómatar. Að tómatar væru 92% vatn og því væri í raun verið að flytja inn vatn frá útlöndum.
„Á Íslandi eru tómatar ræktaðir með tæru lindarvatni; endurnýjanlegri raforku og jarðhita. Ef vörunni er ekið í verslanir með rafmagnsbílum þá yrði ekkert kolefnisspor í öllu ferlinu. Í útlöndum eru tómatar gjarnan framleiddir með afgangsvatni sem oft er ekki verið að nota í fyrsta sinn; orku úr jarðefnaeldsneyti og síðan fluttir hingað með olíudrifnum skipum og flugvélum til landsins,“ sagði Páll og spurði hvora vöruna fólk vildi nota.
„Í öðru lagi, og það er nú kannski aðalástæðan fyrir dæmisögunni, sjáum við hvernig dugmiklir einstaklingar bregðast við ytri áföllum með hugvitssemi, framtakssemi og kjarki til að snúa aðstæðum sér í vil.
Ég geri mér grein fyrir því að ekki hafa allir - hvorki fólk né fyrirtæki - aðstæður til að bregðast eins við Covid-áföllum með sama uppbyggjandi hætti og fólkið í sögunni. Margir eiga um sárt að binda og þar verðum við að hlaupa undir bagga,“ sagði Páll.
Ræðu Páls í heild sinni má finna hér á vef Alþingis.