Óli Björn Kárason alþingismaður:
Sagan kennir að stundum næst árangur með því að endurtaka staðhæfingar aftur og aftur, líkt og um staðreyndir sé að ræða. Árangurinn ræðst ekki síst af því hversu viljugir fjölmiðlar eru til að draga hið rétta fram í dagsljósið, hvernig fræðimenn takast á við síbylju hinna sanntrúuðu og hvort stjórnmálamenn hafa burði til að spyrna við fótum.
Í október 2012 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs (hér verður tilurð þess látin liggja á milli hluta) að frumvarpi til stjórnskipunarlaga – stjórnarskrá. Samkvæmt skýrslum yfirkjörstjórna voru 236.903 kjósendur á kjörskrá og greiddu 115.980 manns atkvæði en þar af voru 1.493 atkvæði ógild. Kjörsókn var tæplega 49%. Þetta er minnsta þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslu í lýðveldissögunni. Til samanburðar var þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslu 1944 liðlega 98% og samþykktu 98,5% nýja stjórnarskrá lýðveldisins.
Í atkvæðagreiðslunni 2012 voru sex spurningar lagðar fyrir kjósendur.
Fyrsta spurningin: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“
Rétt rúmlega 62% (um 31% þeirra sem voru á kjörskrá) svöruðu játandi. Það var sem sagt ekki verið að greiða atkvæði eða taka afstöðu til „nýrrar stjórnarskrár“ sem stjórnlagaþing hafði samið, heldur leita eftir afstöðu kjósenda til þess hvort tillögurnar ættu að liggja til grundvallar þeirri vinnu, sem Alþingi ber skylda til að sinna samkvæmt stjórnarskrá, þ.e. að móta og taka afstöðu til hugsanlegra breytinga á grunnlögum landsins. Þeirri skyldu geta þingmenn ekki útvistað eða komið sér undan.
„Ný stjórnarskrá“ ekki til
„Ný stjórnarskrá“ hefur því aldrei verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún er því ekki til. Að halda því fram að þjóðin hafi „valið“ sér nýja stjórnarskrá er blekking sem vonandi á ekki rætur í öðru en misskilningi.
Leiða má rök að því að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefði orðið önnur ef spurt hefði verið: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga (stjórnarskrá) verði samþykktar?“
Hér er ekki hægt að fara ítarlega yfir það hversu illa var staðið að verki hjá ríkisstjórn sem vildi nýta efnahagslegar þrengingar í kjölfar bankahrunsins til að umbylta stjórnarskránni og ná fram pólitískum markmiðum.
„Tæpitungulaust snerist atkvæðagreiðslan því ekki um neitt,“ skrifaði Sigurður Líndal, prófessor í lögum, í Fréttablaðið tveimur dögum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hann hélt því fram að atkvæðagreiðslan hefði verið atkvæðagreiðsla um „ófullburða plagg“ sem unnið hefði verið í anda sýndarlýðræðis „sem er vísastur vegur til að rækta jarðveg fyrir pólitíska spillingu“.
Sigurður var á því að um væri að ræða tilraun til að draga athyglina frá raunverulegum vandamálum enda stutt til kosninga:
„Forsætisráðherra lýsti því í Silfri Egils í gær að afgreiðsla endurskoðaðs stjórnarskrárfrumvarps yrði látin hafa algeran forgang á Alþingi og önnur mál látin bíða ef tími reynist ónógur. Þeirri hugsun verður nú varla varizt að með þessu sé verið að draga athyglina frá raunverulegum vandamálum, einkum atvinnumálum og skuldamálum heimila og fyrirtækja, enda skammt til kosninga. Og þá er spurningin hvort Alþingi standi í hlýðni við forsætisráðherra eða taki sjálft frumkvæði að því að taka á þeim vanda sem helzt brennur á þjóðinni.“
Dæmi um misnotkun
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, var þungorður á fundi 9. nóvember 2012 í Háskóla Íslands um stöðuna í stjórnarskrárvinnunni:
„Þjóðaratkvæðagreiðslan, í þessu tilviki, er að mínu viti gott dæmi um misnotkun á þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þú heldur þjóðaratkvæðagreiðslu áður en hin efnislega umræða hefur farið fram og reynir síðan að nota niðurstöðurnar til að þagga niður umræðuna.“
Í erindi sínu hélt Gunnar Helgi því fram að vel unnin skoðanakönnun hefði getað reynst gagnlegri en þjóðaratkvæðagreiðslan:
„Ef það sem menn vildu fá fram voru skýrar upplýsingar um hvað kjósendur væru að hugsa þá hefði í báðum þessum tilvikum góð og vönduð skoðanakönnun verið mun árangursríkari aðferð til þess að afla þeirra upplýsinga.“
Á sama fundi var Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við lagadeild Háskóla Íslands, skýr:
„Það er ekki búið að fara efnislega yfir tillögurnar hjá löggjafanum og þingmenn hafa þá skyldu samkvæmt stjórnarskrá að ræða þær efnislega. Síðan er rétti stjórnskipulegi farvegurinn að bera þetta undir þjóðina þegar búið er að vinna málið á þinginu.“
Tilraunastarfsemi með stjórnarskrá
Viku eftir fundinn í Háskóla Íslands lagði meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fram frumvarp stjórnlagaráðs með nokkrum breytingum. Atli Gíslason, hæstaréttarlögmaður og þá þingmaður sem hafði sagt skilið við ríkisstjórnina, gaf frumvarpinu falleinkunn í nefndaráliti. Frumvarpið væri „ófullburða plagg sem er langt frá því að vera tækt til 2. umræðu á Alþingi“. Ekki væri tekið tillit til „varnaðarorða sérfræðinga á sviði stjórnskipunarréttar“ og ekkert heildarmat hefði farið fram „þótt ítrekað hafi verið eftir því kallað af hálfu minni hluta nefndarinnar og fjölda sérfræðinga sem um málið hafa fjallað, bæði á nefndarfundum og úti í samfélaginu“. Atli benti á að fjöldamörg „stór álitamál“ blöstu við og hefðu síst skýrst í vinnu nefndarinnar. Hann hafnaði „algjörlega þessum vinnubrögðum meiri hlutans“ og sagði „löngu tímabært að látið verði af þessari tilraunastarfsemi með stjórnarskrá lýðveldisins“.
Dómur Atla líkt og margra annarra var skýr en þungur. Frumvarpið strandaði og kom ekki til atkvæðagreiðslu við 2. umræðu.
Breytingar í sátt
Formenn þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi hafa átt fundi frá upphafi árs 2018 um hugsanlegar stjórnarskrárbreytingar. Verkstjórnin er í höndum forsætisráðherra sem í lok júní sl. birti í samráðsgátt drög að frumvarpi. Alls bárust 215 umsagnir um frumvarpsdrögin en tekið er fram að formennirnir hafi ekki undirgengist skuldbindingu í þessum efnum.
Með þessu vinnulagi hefur forsætisráðherra lagt drög að því að tryggja að breið sátt náist um breytingar á æðstu réttarheimild þjóðarinnar sem er yfir önnur lög hafin. Þannig er viðurkennt hve nauðsynlegt það er að umgangast stjórnarskrá af virðingu, vinna að nauðsynlegum breytingum af yfirvegun og tryggja almennan stuðning. Með slíkum vinnubrögðum hefur stjórnarskrá lýðveldisins fengið að þróast, ekki í takt við dægurflugur einstakra hagsmunahópa eða stjórnmálaflokka, heldur eftir yfirlegu og ítarlegar umræður. Af 79 efnisgreinum stjórnarskrárinnar hefur 45 verið breytt eða þeim bætt við. Og stjórnarskráin hefur lagt traustan grunn undir ríkisstjórn laga en ekki manna, þar sem grunngildi mannréttinda og einstaklingsfrelsis eru tryggð.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. september 2020.