Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
Í vikunni skipaði ég verkefnisstjórn um mótun landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Síðastliðin tvö ár hefur átt sér stað metnaðarfull vinna sem hefur lagt grunn að þessari stefnumótun, m.a. með sviðsmyndagreiningu KPMG um framtíð landbúnaðarins árið 2040. Af þeirri greiningu er ljóst að íslenskur landbúnaður stendur að mörgu leyti á krossgötum. Því er ég sannfærður um að nú sé rétti tíminn til að fara í þessa vinnu og skapa sameiginlega sýn og áherslur til framtíðar.
Umfangsmikil sviðsmyndagreining KPMG
Sumarið 2018 hófst vinna KPMG við að skoða mögulegt starfsumhverfi íslensks landbúnaðar til ársins 2040. Gerð sviðsmynda hófst á sumarmánuðum 2018 og fól í sér breiða aðkomu aðila úr landbúnaði og frá neytendum. Vinnuferlið fól í sér gagnaöflun með viðtölum, netkönnun, opnum fundum á sex landsvæðum og greiningu á opinberum gögnum. Haldnar voru vinnustofur þar sem grunngerð sviðsmynda um framtíð landbúnaðar var mótuð og í kjölfarið hófst úrvinnsla og samantekt niðurstaðna. Alls tóku um 400 einstaklingar þátt í verkefninu. Sviðsmyndagreining KPMG var því umfangsmikið, opið og metnaðarfullt ferli.
Í sviðsmyndagreiningunni var talið nauðsynlegt að móta heildstæða stefnu greinarinnar, landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Á þessum trausta grunni hefur vinna við mótun stefnunnar verið sett formlega af stað. Ég er afskaplega ánægður að hafa fengið þau Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og þingmann, og Hlédísi Sveinsdóttur, ráðgjafa og verkefnastjóra, í verkefnisstjórn um mótun stefnunnar.
Samvinnuverkefni
Mótun landbúnaðarstefnu er samvinnuverkefni stjórnvalda, bænda, neytenda og atvinnulífs. Verkefnisstjórn mun efna til funda með bændum og öðrum hagaðilum í því skyni að virkja þá til þátttöku í stefnumótuninni. Jafnframt verður samráð við þingflokka. Samkvæmt skipunarbréfi verkefnisstjórnarinnar skal við mótun landbúnaðarstefnu litið til eftirfarandi meginþátta:
1. Með öflugum landbúnaði verði Ísland leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum – sérstaklega verði hugað að fæðu- og matvælaöryggi og samkeppnishæfum rekstrarskilyrðum í sátt við umhverfi og samfélag.
2. Tryggð verði byggðafesta með nýtingu tækifæra í krafti nýsköpunar og vöruþróunar sem taki mið af grænum lausnum, matarmenningu og sjálfbærni.
3. Menntun, rannsóknir og þróun mótist af hæfilegri samþættingu fræðilegra viðfangsefna og ráðgjafar í þágu þeirra sem stunda landbúnað og vinnslu landbúnaðarafurða.
4. Með hvötum og stuðningi verði dregið úr umhverfisáhrifum og stuðlað að verndun, endurheimt og nýtingu landvistkerfa í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun frá árinu 2016.
Tímabær endurskoðun
Við mótun landbúnaðarstefnu gefst tækifæri til að takast á við það verkefni að Ísland verði leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum, en á sama tíma horfa til þess að íslenskur landbúnaður er ekki aðeins framleiðsluferill á matvælum. Íslenskur landbúnaður hvílir á breiðari grunni. Hann er hluti af vitund okkar um náttúruna, lífssýn bóndans og verðmætin sem felast í heiðum og dölum. Landbúnaðarstefna fyrir Ísland þarf að byggjast á þessari arfleifð en um leið verðum við að horfast í augu við að kröfur, smekkur, viðhorf og lífstíll breytast hratt – nánast dag frá degi.
Ég er sannfærður um að með mótun landbúnaðarstefnu fyrir Ísland gefist kærkomið tækifæri til að skapa sameiginlega sýn og skýrar áherslur til framtíðar. Slík stefnumótun getur orðið aflvaki nýrra hugmynda og lausna. Samhliða gefst tækifæri til að endurskoða landbúnaðarkerfið frá grunni. Við þurfum ekki að óttast endurskoðun. Hún er löngu tímabær og ég er sannfærður um að hún er forsenda frekari framþróunar greinarinnar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. september 2020.