Íslenskur landbúnaður árið 2040
'}}

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

Í vik­unni skipaði ég verk­efn­is­stjórn um mót­un land­búnaðar­stefnu fyr­ir Ísland. Síðastliðin tvö ár hef­ur átt sér stað metnaðarfull vinna sem hef­ur lagt grunn að þess­ari stefnu­mót­un, m.a. með sviðsmynda­grein­ingu KPMG um framtíð land­búnaðar­ins árið 2040. Af þeirri grein­ingu er ljóst að ís­lensk­ur land­búnaður stend­ur að mörgu leyti á kross­göt­um. Því er ég sann­færður um að nú sé rétti tím­inn til að fara í þessa vinnu og skapa sam­eig­in­lega sýn og áhersl­ur til framtíðar.

Um­fangs­mik­il sviðsmynda­grein­ing KPMG

Sum­arið 2018 hófst vinna KPMG við að skoða mögu­legt starfs­um­hverfi ís­lensks land­búnaðar til árs­ins 2040. Gerð sviðsmynda hófst á sum­ar­mánuðum 2018 og fól í sér breiða aðkomu aðila úr land­búnaði og frá neyt­end­um. Vinnu­ferlið fól í sér gagna­öfl­un með viðtöl­um, net­könn­un, opn­um fund­um á sex landsvæðum og grein­ingu á op­in­ber­um gögn­um. Haldn­ar voru vinnu­stof­ur þar sem grunn­gerð sviðsmynda um framtíð land­búnaðar var mótuð og í kjöl­farið hófst úr­vinnsla og sam­an­tekt niðurstaðna. Alls tóku um 400 ein­stak­ling­ar þátt í verk­efn­inu. Sviðsmynda­grein­ing KPMG var því um­fangs­mikið, opið og metnaðarfullt ferli.

Í sviðsmynda­grein­ing­unni var talið nauðsyn­legt að móta heild­stæða stefnu grein­ar­inn­ar, land­búnaðar­stefnu fyr­ir Ísland. Á þess­um trausta grunni hef­ur vinna við mót­un stefn­unn­ar verið sett form­lega af stað. Ég er af­skap­lega ánægður að hafa fengið þau Björn Bjarna­son, fyrr­ver­andi ráðherra og þing­mann, og Hlé­dísi Sveins­dótt­ur, ráðgjafa og verk­efna­stjóra, í verk­efn­is­stjórn um mót­un stefn­unn­ar.

Sam­vinnu­verk­efni

Mót­un land­búnaðar­stefnu er sam­vinnu­verk­efni stjórn­valda, bænda, neyt­enda og at­vinnu­lífs. Verk­efn­is­stjórn mun efna til funda með bænd­um og öðrum hagaðilum í því skyni að virkja þá til þátt­töku í stefnu­mót­un­inni. Jafn­framt verður sam­ráð við þing­flokka. Sam­kvæmt skip­un­ar­bréfi verk­efn­is­stjórn­ar­inn­ar skal við mót­un land­búnaðar­stefnu litið til eft­ir­far­andi meg­inþátta:

1. Með öfl­ug­um land­búnaði verði Ísland leiðandi í fram­leiðslu á heil­næm­um land­búnaðar­af­urðum – sér­stak­lega verði hugað að fæðu- og mat­væla­ör­yggi og sam­keppn­is­hæf­um rekstr­ar­skil­yrðum í sátt við um­hverfi og sam­fé­lag.

2. Tryggð verði byggðafesta með nýt­ingu tæki­færa í krafti ný­sköp­un­ar og vöruþró­un­ar sem taki mið af græn­um lausn­um, mat­ar­menn­ingu og sjálf­bærni.

3. Mennt­un, rann­sókn­ir og þróun mót­ist af hæfi­legri samþætt­ingu fræðilegra viðfangs­efna og ráðgjaf­ar í þágu þeirra sem stunda land­búnað og vinnslu land­búnaðar­af­urða.

4. Með hvöt­um og stuðningi verði dregið úr um­hverf­isáhrif­um og stuðlað að vernd­un, end­ur­heimt og nýt­ingu land­vist­kerfa í sam­ræmi við heims­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna um sjálf­bæra þróun frá ár­inu 2016.

Tíma­bær end­ur­skoðun

Við mót­un land­búnaðar­stefnu gefst tæki­færi til að tak­ast á við það verk­efni að Ísland verði leiðandi í fram­leiðslu á heil­næm­um land­búnaðar­af­urðum, en á sama tíma horfa til þess að ís­lensk­ur land­búnaður er ekki aðeins fram­leiðslu­fer­ill á mat­væl­um. Íslensk­ur land­búnaður hvíl­ir á breiðari grunni. Hann er hluti af vit­und okk­ar um nátt­úr­una, lífs­sýn bónd­ans og verðmæt­in sem fel­ast í heiðum og döl­um. Land­búnaðar­stefna fyr­ir Ísland þarf að byggj­ast á þess­ari arf­leifð en um leið verðum við að horf­ast í augu við að kröf­ur, smekk­ur, viðhorf og lífstíll breyt­ast hratt – nán­ast dag frá degi.

Ég er sann­færður um að með mót­un land­búnaðar­stefnu fyr­ir Ísland gef­ist kær­komið tæki­færi til að skapa sam­eig­in­lega sýn og skýr­ar áhersl­ur til framtíðar. Slík stefnu­mót­un get­ur orðið aflvaki nýrra hug­mynda og lausna. Sam­hliða gefst tæki­færi til að end­ur­skoða land­búnaðar­kerfið frá grunni. Við þurf­um ekki að ótt­ast end­ur­skoðun. Hún er löngu tíma­bær og ég er sann­færður um að hún er for­senda frek­ari framþró­un­ar grein­ar­inn­ar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. september 2020.