Óli Björn Kárason alþingismaður:
Eftir því sem mikilvægi Kína í alþjóðlegu efnahagslífi eykst hefur ritskoðun kommúnistaflokksins yfir landamæri orðið auðveldari, skilvirkari og áhrifameiri. Aukin alþjóðleg áhrif Peking hafa leitt til þess að ritskoðunararmur kínverska kommúnistaflokksins hefur náð taki á útgefendum, fræðimönnum, rithöfundum, blaðamönnum og ekki síst kvikmyndaiðnaðinum, óháð ríkisborgararétti þeirra eða landamærum.
Í nýlegri skýrslu PEN America um áhrif stjórnvalda í Peking á kvikmyndaiðnaðinn er dregin upp dökk mynd. Skýrslan veitir innsýn í hvernig kínversk stjórnvöld hafa með beinni og óbeinni ritskoðun haft áhrif á Hollywood og alþjóðlegan kvikmyndaiðnað. Með skipulegum hætti hefur kínverski kommúnistaflokkurinn náð kverkataki á kvikmyndagerð. Stærstu framleiðendur heims leika eftir þeirri forskrift sem þeim er gefin. Þar með mótar Peking áhrifamesta listræna og menningarlega miðil heims – kvikmyndir – langt út fyrir eigin landamæri.
PEN America berjast fyrir frjálsri tjáningu listamanna og almennum mannréttindum og eru hluti af alþjóðlegum samtökum rithöfunda, blaðamanna og annarra fulltrúa hins skrifaða og talaða orðs. Samtökin eiga rætur í Bretlandi en tóku til starfa í Bandaríkjunum árið 1922.
Frjáls tjáning út í horn
Fyrir marga er aðgangur að kínverska markaðinum mikilvægur og þar er kvikmyndaiðnaðurinn ekki undanskilinn. Forsenda þess að geta átt viðskipti innan landamæra Kína er að viðkomandi felli sig við reglur stjórnvalda í Peking, ekki síst strangar reglur ritskoðunar. Á síðustu árum hafa forráðamenn kvikmyndaiðnaðarins lært leikreglurnar og stunda nú sjálfsritskoðun. Forstjórar kvikmyndavera aðlaga handrit bíómynda – söguþráð, samtöl og umgjörð – að því sem þeir telja vera þóknanlegt kínverska kommúnistaflokknum. Val á leikurum má heldur ekki styggja ráðamenn í Peking.
Kvikmyndaiðnaðurinn í Hollywood hefur þannig sett frjálsa tjáningu út í horn. Oft er fulltrúum kínverskra ritskoðara boðið í kvikmyndaverin til að gefa ráð um hvernig standa skuli að verki til að tryggja að bíómynd komist fyrir augu almennings í Kína.
Sjálfsritskoðun kvikmyndaiðnaðarins – flóttinn frá frjálsri tjáningu – hefur að mestu farið fram í kyrrþey. Og það er mikið í húfi fyrir bandarískan kvikmyndaiðnað.
Kínverski markaðurinn er stærsti markaður kvikmynda í heiminum. Á fyrsta ársfjórðungi 2018 fór Kína fram úr Bandaríkjunum í miðasölu kvikmyndahúsa. Í áætlun (gerð fyrir kórónuveirufaraldurinn) var því spáð að heildartekjur kvikmyndahúsa verði um 15,5 milljarðar dala árið 2023. Á sama tíma er búist við að tekjur í Bandaríkjunum verði um 11,4 milljarðar. Uppgangur í kínverskri kvikmyndagerð og auknar vinsældir hafa aukið þrýsting á Hollywood og leitt til sífellt meiri sjálfsritskoðunar og opnað greiða leið fyrir ritskoðun kínverska kommúnistaflokksins.
Kysst á vöndinn
Sá tími er liðinn þegar Hollywood skipaði sér á bekk með baráttufólki fyrir almennum mannréttindum í Kína. Draumasmiðjan framleiðir ekki lengur myndir líkt og Sjö ár í Tíbet með Brad Pitt í aðalhlutverki, Kundun leikstýrt af Martin Scorsese eða Red Corner þar sem Richard Gere fór með aðalhlutverkið. Myndirnar eru ádeila á mannréttindabrot kínverskra stjórnvalda, draga upp ógeðfellda mynd af lögregluríki og dómskerfi sem framfylgir aðeins stefnu stjórnvalda.
Engin þessara kvikmynda var sýnd í Kína en á þeim tíma skipti það litlu. Árið 1997 var kínverski markaðurinn svipaður og í Perú – hafði lítil áhrif á afkomu kvikmyndaveranna.
En fljótt skipast veður í lofti. Ári eftir að Kundun var frumsýnd átti Michael Eisner, forstjóri Disney sem framleiddi myndina, fund með Zhu Rongji, þáverandi forsætisráðherra Kína, til að ræða stækkunaráform fyrirtækisins. Af því tilefni sagði Eisner um Kundun: „Slæmu fréttirnar eru þær að myndin var framleidd, góðu fréttirnar eru þær að enginn horfði á hana.“ Og forstjóri Disney lét ekki þar við sitja enda mikið undir, m.a. undirbúningur að Disney World í Shanghai. Hann bað kínversk stjórnvöld afsökunar og lofaði að fyrirtækið myndi ekkert gera í framtíðinni „sem móðgar vini okkar“.
Þrælslund Hollywood gagnvart kínverska kommúnistaflokknum birtist skýrlega í yfirlýsingu Jean-Jacques Annaud, leikstjóra Sjö ára í Tíbet, um að hann hefði aldrei stutt sjálfstæðisbaráttu Tíbeta og aldrei átt samskipti við Dalai Lama. Leikstjórinn lýsti því hátíðlega yfir að útilokað væri að hann yrði vinur sjálfstæðishetju og trúarleiðtoga Tíbeta. Allt er gert til að forðast „svartan lista“ yfir óæskilega listamenn með sjálfstæðar skoðanir.
Í kreditlista Mulan, nýrrar kvikmyndar Disney-samsteypunnar (endurgerð samnefndrar teiknimyndar frá 1998), þakkar framleiðandinn kínverska áróðursráðuneytinu og öryggislögreglunni í Xinjiang-héraði, þar sem myndin var tekin upp að hluta, sérstaklega fyrir veitta aðstoð. Í héraðinu hefur yfir ein milljón Úigúra verið send í fangabúðir, sem stjórnvöld kalla aðlögunarbúðir, og tugir þúsunda hafa verið sendir brott til að vinna í verksmiðjum víða í Kína. Ofsóknir gagnvart Úigúrum – minnihlutahópi múslima – hafa staðið áratugum saman þar sem markvisst er stefnt að því að brjóta niður siði og venjur minnihlutahóps. Fangabúðir og nauðungarvinna – þrælkun – eru léttvæg í hugum þeirra sem stýra áhrifamestu listgrein heims.
Sálin framseld
Eisner og Annaud eru ekki þeir einu í draumaborginni sem kyssa ritskoðunarvönd kínverska kommúnistaflokksins. Það gera flestir en á því eru sem betur fer undantekningar. Quentin Tarantino lét ekki beygja sig. Richard Gere er á svörtum lista og bannfærður í Kína – stuðningur við sjálfstæðisbaráttu Tíbeta er ein stærsta synd sem nokkur listamaður getur drýgt í augum ráðamanna í Peking.
Áhrif Peking-stjórnarinnar á kvikmyndagerð í Hollywood eru ekki einkamál forstjóra kvikmyndavera, leikstjóra, leikara og handritshöfunda. Með sköpun sinni hefur kvikmyndaborgin haft gríðarleg áhrif á menningu og samfélög um allan heim. Í þeim efnum þekkir listin engin landamæri. Hollywood nær til milljarða manna sem standa í þeirri trú að í draumaborginni ráði frjáls tjáning för. Hafi draumaborgin Hollywood einhvern tíma átt sál, þá er hún búin að framselja hana til kínverskra stjórnvalda í skiptum fyrir aðgang að stærsta markaði heims.
Og með þessa staðreynd í huga verðum við sem elskum kvikmyndir að fara í bíó.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. september 2020.