Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:
Húsnæðisskortur eru helstu búsifjar ungs fólks í Reykjavík. Húsnæðisskortur hækkar verð á húsnæði en sl. 5-7 ár hefur hækkun á íbúðaverði og húsaleigu í Reykjavík verið meiri en um getur í marga áratugi. Hana ber að rekja til Aðalskipulags Reykjavíkur sem samþykkt var árið 2013. Þar var þétting byggðar aukin úr 75% í ríflega 95%. Þar með var hætt að byggja á ódýru landsvæði borgarinnar. Farið var að skipuleggja allar nýbyggingar á dýrum lóðum í einkaeign eða eigu banka og sjóða. Þetta stöðvaði alla húsnæðisuppbyggingu í nokkur ár.
Byggingakranar og íbúðaverð
Þegar loks risu byggingakranar í Reykjavík, reis íbúðaverðið í sömu hæðir: Lóðaverð margfaldaðist sem hlutfall af íbúðaverði og tífaldaðist sums staðar. Samt þótti ekki nóg að gert. Nú er lagður nýr skattur á íbúðirnar í boði borgarstjórnar, svokallað innviðagjald, til að standa straum af því að eyðileggja samgönguæðar höfuðborgarsvæðisins. Þessi skattur hækkar íbúðaverð enn frekar.
Íbúðabyggð og flugvöllur
Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir að í borginni þurfi að byggja 1.000 nýjar íbúðir á ári hverju til 2040. Ef svo er, á húsnæðisskortur eftir að stóraukast á allra næstu árum ef ekkert verður að gert. Vinstri meirihlutinn gengur enn út frá þeirri forsendu að byggðar verði 4.000 íbúðir á allra næstu árum þar sem flugvélar eru nú að hefja sig til flugs og lenda í Vatnsmýrinni. Ekkert bendir til þess að þar rísi íbúðabyggð á næstu 10-15 árum þar sem ekkert bólar á nýju flugvallarstæði. Bygging nýs flugvallar er feikilega fjárfrek og tröllaukin framkvæmd. Það er vægast sagt hæpið að ráðist verði í slíka framkvæmd á næstu árum eða áratug, þó ekki sé nema vegna þeirra þrenginga sem kórónuveiran á eftir að valda, hér á landi og um allan heim og sem ekki sér fyrir endann á.
Tillaga sjálfstæðismanna
Af þessum sökum höfum við sjálfstæðismenn í borgarstjórn ákveðið að bera þar fram eftirfarandi tillögu: Borgarstjórn samþykkir að gera breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem heimilar íbúðabyggð í Keldnalandinu annars vegar, og í Örfirisey hins vegar. Samhliða þessu verði farið í að skipuleggja atvinnulóðir á Keldum. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að skila nánari útfærslu til skipulags- og samgönguráðs í síðasta lagi í lok október.
Uppbygging íbúðarhúsnæðis á þessum svæðum er nærtæk og skynsamleg. Geta má þess að ein forsenda samgöngusáttmálans er skipulagning Keldnalandsins. Auk þess er Keldnalandið haft í huga í lífskjarasamningunum og tillögu ríkisins um húsnæðisuppbyggingu fyrir alla.
Íbúðauppbygging í Örfirisey er í fullu samræmi við þéttingu byggðar og myndi draga úr bílaumferð vegna nálægðar við verslun og þjónustu. Atvinnulóðir við Keldur munu hins vegar koma á jafnvægi í borginni og minnka umferðarálagið til vesturs yfir daginn.
Húsnæðisskortur er samfélagsböl
Sú var tíð á síðustu öld að húsnæðisskortur átti sinn þátt í ungbarnadauða, lungnabólgu og mikilli útbreiðslu berkla hér á landi. Sífellt fleiri fluttu af landsbyggðinni til Reykjavíkur, en heimskreppan og innflutningshöft komu í veg fyrir að Reykjavík gæti séð þessu aðkomufólki fyrir sómasamlegu húsnæði. Í lok síðari heimsstyrjaldar bjuggu þúsundir Reykvíkinga í kofum og hermannabröggum. Af þeim sökum tóku ríki, borg og verkalýðssamtök á þessum vanda með góðum árangri.
Nú lifum við sem betur fer á öðrum og betri tímum hvað þetta varðar. Það breytir samt ekki þeirri staðreynd að yfirvöld eiga aldrei að skapa, heldur leysa húsnæðisskort, því hann er ætíð alvarlegt samfélagsböl.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. september 2020.