Til lengri tíma
'}}

Sigríður Á. Andersen formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Það er erfitt að halda því fram að kórónufaraldurinn hafi haft eitthvað gott í för með í með sér. Ótímabær dauðdagi manna um allan heim, efnahagsþrengingar sem ekki sér fyrir endann á og almennt alþjóðlegt öngþveiti einkenna þennan faraldur í meira mæli en aðra smitsjúkdóma sem við kunnum betur á. Þó er það svo að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.

Mismikil örvinglan

Um allan heim hefur kastljósið verið á heilbrigðiskerfum landanna. Ekkert ríki var undir það búið að eftirspurn eftir gjörgæslu myndi margfaldast á nokkrum dögum.  Frá fyrstu fréttum frá Kína höfum við fylgst með í beinni útsendingu hvernig heilu spítalarnir hafa sums staðar verið reistir á nokkrum dögum. Hvernig örvinglaðir starfsmenn á spítölum annars staðar lýstu því hvernig þeir gerðu upp á milli fólks þegar kæmi að því að veita örlagaríkar meðferðir sem voru af skornum skammti. Sum lönd voru fullkomlega vanbúin í upphafi faraldursins ekki síst fyrir þá sök að spítalarnir þar voru þegar yfirfullir þegar innlagnir vegna veirunnar hófust. Ítalía lítur út fyrir að vera dæmi um þetta. Fróðlegur er samanburðu milli landa á fjölda gjörgæslurýma. Bandaríkin með langflest rými á hverja 100 þúsund íbúa og mun fleiri en Evrópuríkin almennt. Ísland virðist vera nálægt meðaltali Evrópuríkjanna. Eðlilegt er að umfang gjörgæsludeilda taki mið af heilsufari þjóðar almennt en ekki þegar óvæntur faraldur ríður yfir. Þá skiptir hins vegar máli að kerfið sem slíkt sé sveigjanlegt og geti tekið breytingum á skömmum tíma. Þar getur skilið á milli feigs og ófeigs.

Svíþjóð hafði þannig í upphafi faraldursins nokkuð færri rými en mörg Evrópuríki en engum sögum fer þó af sama öngþveiti í Svíþjóð á gjörgæsludeildum og varð í sumum öðrum ríkjum. Einkareknar heilbrigðisstofnanir þar, m.a. einkareknir spítalar, kunna að hafa skipt sköpum. Í Þýskalandi skiptu einkareknar rannsóknastofur miklu máli í viðbrögðum við veirunni sem og alls kyns stofnanir sem milljóna þjóðir geta haldið úti. Á sama tíma og Ísland hefur sitthvað fram að færa eftir hálfs árs baráttu við veiruna þá getum við tvímælalaust lært eitthvað af öðrum löndum, af því sem vel var gert og illa.

Fletjum kúrfuna

Margir frasarnir féllu í umræðunni á fyrstu vikum faraldursins sem var jú „fordæmalausir tímar“. Mönnum varð fljótt ljóst að fyrsta skref og það mikilvægasta var að „fletja kúrfuna“. Stöðugt  var því beint til almennings að taka þátt í því að „fletja út kúrfuna“ með því að halda sig helst heima við og í öllu falli að stunda ekki áhættuhegðun. Kúrfan í þessu sambandi var línurit yfir fjölda smitaða á dag. Mikilvægt var að fjöldinn yrði ekki slíkur að spítalinn okkar gæti ekki sinnt hlutverki sínu. Við vildum ekki lenda í sömu sporum og Ítalir að þessu leyti. Og okkur tókst ljómandi vel til. Spítalinn fékk andrými, fékk tíma til að stemma af birgðasafn sitt og tíma til að viða að sér mikilvægum lækningatækjum. Nýtt álag vegna veirunnar var vissulega á spítalanum í byrjun en fljótlega náði spítalinn áttum. Það var trúlega ekki átakalaust en hefur örugglega kennt mönnum margt.

Einkaaðilar og ríkið

Því verður vart trúað að enn séu til þeir sem eftir þennan faraldur sjá ekki hversu mikilvægt framtak einkaaðila er í heilbrigðismálum og nauðsynlegt. Þátttaka Íslenskrar erfðagreiningar við veiruskimun, nokkuð sem fyrirtækið hefur þó ekki sérhæft sig í, hefur verið grundvöllur sóttvarnarákvarðana. Ég er að vísu ekki sammála öllum þeim ályktunum sem dregnar hafa verið af þeim skimunum en það breytir því ekki að rannsóknir fyrirtækisins veita mikilsverða innsýn í  vandamálið sem við stöndum frammi fyrir. Íslenska ríkið tók ákvörðun seint og síðar meir að kaupa rannsóknartæki í þessum tilgangi og efla þannig rannsóknargetu spítalans. Það er góðra gjalda vert en fullkomlega óraunhæft ganga út frá því að spítali í jafn fámennu landi geti ávallt verið viðbúinn nýjum sjúkdómum og búinn nýjustu tækni í þeim tilgangi.

Landspítalinn tók ákvörðun um að fresta „valkvæðum“ aðgerðum til þess að vera í stakk búinn til að takast á við holskeflu innlagna vegna veirunnar. Spítalinn undirbjó þó þessa frestun með því að keyra skurðstofur á fullt stím, með tilheyrandi álagi á starfsfólk, og freista þess þannig að vinna niður biðlista. Á sama tíma standa fullkomnar skurðstofur úti í bæ sem hefði mátt semja við um að halda áfram að vinna verkin sem spítalinn sá sér ekki fært að vinna. Það má heita með ólíkindum að menn hafi ekki leitað eftir samstarfi á þessu sviði eins og var gert með rannsóknarstarfsemina.

Sjaldan er ein báran stök

Covid19 veiran mun fjara út á endanum. Við getum hins vegar verið viss um að heilbrigðisvá af svipuðum toga knýr aftur dyra með einum eða öðrum hætti. Ég hef ekki trú á því að ríki grípi aftur til svo afdrifaríkra sóttvarnaaðgerða eins og við höfum horft upp á og nú með geigvænlegum afleiðingum fyrir efnahag sumra ríkja og þar með velferð. Að „fletja kúrfuna“ leiddi því miður til þess að flest annað hefur verið flatt um leið. Heilbrigðiskerfið mun ekki fara varhluta af því.

Við höfum langa og góða reynslu af frumkvæði og þátttöku einkaaðila á heilbrigðismálum. Í þessum faraldri hefur sú reynsla verið áréttuð. Til langs tíma þurfum við að ganga fleiri skref í sömu átt.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 3. september 2020.