Þarf fleiri ástæður?
'}}

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:

Í upphafi árs kynnti meirihluti borgarstjórnar áform um skertan opnunartíma leikskóla. Ákvörðunin mætti andstöðu fjölbreyttra hópa sem töldu breytinguna geta dregið úr framgangi á vinnumarkaði, ógnað starfsöryggi og valdið ófyrirséðum tekjumissi. Fjölmargir óttuðust neikvæð áhrif á stöðu vinnandi kvenna – því þrátt fyrir gríðarlegan árangur í jafnréttisbaráttunni taka konur enn stærsta ábyrgð á umönnun barna.

Nú liggur fyrir jafnréttismat á skertum opnunartíma leikskólanna. Matið sýnir glöggt þau neikvæðu áhrif sem breytingin mun hafa á jafnrétti kynjanna - það rímar við fjölmargar rannsóknir sem allar bera að sama brunni - konur eru líklegri en karlar til að minnka starfshlutfall svo koma megi til móts við þarfir fjölskyldunnar. Barneignir hafa jákvæð áhrif á launaþróun karla en neikvæð áhrif á launaþróun kvenna. Konur eru líklegri til að taka á sig aukna umönnunarbyrði heimilanna og mæta breyttum þörfum fjölskyldunnar. Minni atvinnuþátttaka kvenna á vinnumarkaði hefur svo aftur áhrif á tekjuöflun þeirra, framgang í starfi og lífeyriskjör.

Skertur opnunartími mun ekki síður koma niður á foreldrum með takmarkaðan sveigjanleika í starfi. Hér mætti nefna fólk af erlendum uppruna, fólk í vaktavinnu og lágtekjuhópa. Jafnframt reynist skertur opnunartími erfiður þeim sem búa í efri byggðum og ferðast langan veg til vinnu. Þjónustuskerðingin skapar aukið álag á foreldra sem margir hverjir horfa nú fram á kvöld- og helgarvinnu svo uppfylla megi vinnuskyldu. Allt framangreint staðfestir jafnréttismatið.

Þrátt fyrir niðurstöðuna hefur meirihluti borgarstjórnar nú takmarkað opnunartíma leikskólanna um nokkurt skeið, og mun áfram gera næstu misserin. Þau segja ástæðuna vera sóttvarnir – jafnvel þó fjölmargar aðrar leiðir séu færar í sóttvörnum, án þess að opnunartími verði skertur og komið niður á viðkvæmum hópum á vinnumarkaði. Hér skortir vilja til verksins.

Niðurstöður jafnréttismats eru skýrar. Fjölskyldur hafa gagn af sveigjanlegum opnunartíma. Hvers kyns takmarkanir geta unnið gegn framgangi kvenna á vinnumarkaði, ógnað starfsöryggi fólks af erlendum uppruna og komið illa niður á lágtekjuhópum. Þarf virkilega fleiri ástæður til að hverfa frá þessari illa ígrunduðu ákvörðun?

Greinin birtistí Fréttablaðinu 10. september 2020.