Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Við Íslendingar höfum ýmsa fjöruna sopið í efnahagsmálum. Engu að síður hefur okkur tekist að byggja hér upp eitt mesta velferðarríki heims. Yfirleitt höfum við náð vopnum okkar fljótt aftur eftir áföll, þótt dæmi séu um að það hafi tekið lengri tíma en efni stóðu til vegna rangra aðgerða og ákvarðana stjórnvalda.
Nýtt uppgjör Hagstofunnar á þjóðhagsreikningum er ekki sérlega glæsilegt. Aldrei hefur samdráttur verið meiri en á öðrum fjórðungi ársins eða 9,3% frá sama tíma fyrir ári. Sérfræðingar Hagstofunnar benda á að takmarkanir á „ferðalögum fólks á milli landa höfðu veruleg áhrif á bæði inn- og útflutning þjónustu á tímabilinu en í niðurstöðunum gætir einnig fjölþættra áhrifa samkomubanns á eftirspurn eftir vöru og þjónustu af ýmsu tagi hér á landi“. Niðursveiflan endurspeglast meðal annars í þeirri staðreynd að heildarfjöldi vinnustunda dróst saman um 11,3% prósent.
En þrátt fyrir djúpa dýfu á öðrum fjórðungi er útlitið fyrir árið í heild sinni ekki eins svart og margir reiknuðu með nokkrum vikum eftir að faraldurinn lagðist á okkur af fullum þunga. Í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans í ágúst er gengið út frá því að landsframleiðslan dragist saman um 7% í ár og að atvinnuleysi verði um 10% í lok ársins. Þetta er nokkuð minni samdráttur en bankinn gerði ráð fyrir í maí en þar vegur þyngst kröftugri einkaneysla en búist var við. En síðari hluti ársins verður engu að síður erfiður fyrir fyrirtæki og heimili. Að öðru óbreyttu getum við gert okkur vonir um nokkuð kröftugan viðsnúning á komandi ári.
Staðan misjöfn
Í Peningamálum Seðlabankans kemur fram að áætlað sé að landsframleiðsla í helstu viðskiptalöndum okkar hafi dregist saman um tæplega 13% á öðrum fjórðungi ársins. Þetta er mesti samdráttur á einum fjórðungi frá upphafi mælinga. Vísbendingar eru um að alþjóðleg efnahagsumsvif hafi, eftir því sem leið á fjórðunginn, sótt nokkuð í sig veðrið en að horfur fyrir seinni hluta ársins hafi versnað.
Hagstofan birtir áhugaverða mynd af stöðu einstakra landa í frétt um uppgjör þjóðhagsreikninga. Þar kemur glöggt í ljós að þótt samdráttur hér á landi mælist sögulega mikill berjast mörg helstu lönd heims við enn dýpri samdrátt og erfiðleika. Í Evrópusambandinu var samdráttur landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi 11,7% frá fyrri fjórðungi. Í Bretlandi var samdrátturinn 20,4%, 18,5% á Spáni og 13,8% í Frakklandi. Áhrif kórónuveirunnar á efnahag virðast minnst í Finnlandi, Noregi og Litháen. Vert er að hafa í huga að um er að ræða bráðabirgðatölur og setur Hagstofa Íslands þær fram með fyrirvara.
Áhyggjuefni
Ekkert samfélag sækir fram án þess að fjárfesta. Þess vegna er það áhyggjuefni að fjárfesting skuli dragast saman. Í heild var samdrátturinn 18,7% á öðrum ársfjórðungi borið saman við sama tímabil á liðnu ári.
Hagstofan bendir á að þrátt fyrir myndarlegan vöxt í fjárfestingu hins opinbera á sviði vegaframkvæmda, hafi samdráttur í fjármunamyndun hins opinbera á öðrum fjórðungi verið 17,3%. Sé hins vegar litið fram hjá fjárfestingu í Herjólfi á síðasta ári jókst fjárfesting ríkisins um 15% að raungildi. Fjárfesting sveitarfélaga dróst hins vegar saman um 9% milli ára og var í heild nokkuð minni á fyrri hluta ársins en áætlanir sveitarfélaganna gerðu ráð fyrir.
Fyrir þá sem gera sér grein fyrir því að atvinnulífið – fyrirtækin í landinu – skapa þau verðmæti sem okkur eru nauðsynleg til að standa undir velferðarsamfélaginu, er það sérstakt áhyggjuefni hve atvinnuvegafjárfesting hefur dregist saman. Á öðrum ársfjórðungi minnkaði hún um 17,8% og um 4,7% á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við sama tímabil 2019. Ný tækifæri og ný störf verða ekki til án fjárfestinga. Það er því eitt helsta verkefni stjórnvalda að örva atvinnuvegafjárfestingu til lengri og skemmri tíma. Á margan hátt er umhverfið hagstætt í því lágvaxtaumhverfi sem við búum við. En óvissan um þróun efnahagsmála veldur því að fjárfestar halda að sér höndum. Skattaleg umgjörð skiptir einnig miklu. Hár fjármagnstekjuskattur ýtir a.m.k. ekki undir fjárfestingu.
En tölur um fjárfestingu – ekki síst fjárfestingu hins opinbera – geta verið villandi. Aukin fjárfesting ríkis og sveitarfélaga getur aldrei verið sjálfstætt markmið. Sumar fjárfestingar eru í eðli sínu þannig að þær kalla hreinlega á aukin útgjöld á komandi árum. Aðrar fjárfestingar eru hins vegar arðsamar fyrir samfélagið í heild sinni. Bættar samgöngur eru augljóst dæmi. En arðbærar fjárfestingar þurfa ekki allar að vera í einhverju handföstu – einhverju áþreifanlegu; vegum, höfnum, byggingum. Fjárfesting í hugviti og þekkingu gefur að líkindum meira af sér en flest annað sem við getum ráðist í og fjármagnað úr sameiginlegum sjóðum. (Raunar má færa fyrir því rök að við eigum að hætta að horfa á framlög hins opinbera til menntamála, sem útgjöld, fremur sem fjárfestingu sem eðlilegt er að afskrifa á 40 árum – á starfsævi hvers einstaklings). Sama gildir um fjárfestingu í bættri heilsu landsmanna.
Hagsýni búmannsins
Jafnvel þegar glímt er við erfiðleika í efnahagslífinu má ekki leggja til hliðar kröfuna um arðsemi fjárfestinga hins opinbera. Hið sama á við um sameiginlegar eignir okkar. Í greinargerð með breytingu á fjármálastefnu kemur fram að samanlagður halli á ríkissjóði á þessu og næsta ári verði um 500 milljarðar króna. Við slíkar aðstæður horfir hagsýnn búmaður yfir efnahagsreikninginn til að átta sig á því hvort ekki leynist þar ýmislegt sem skynsamlegt sé að losa sig við í stað þess að safna skuldum, sem velt er inn í óvissa framtíð.
Umfangsmikil arðbær opinber innviðafjárfesting er hyggileg ekki síst þegar glímt er við samdrátt í efnahagslífinu. En það er jafn mikilvægt að tryggja arðbæra nýtingu þeirra eigna sem fyrir eru. Ég hef ítrekað haldið því fram að nauðsynlegt sé að fram fari umræða og athugun á því hvort og þá hvernig nýting eigna ríkisins þjónar hagsmunum landsmanna best. Almenningur gerir þá eðlilegu kröfu að dýrmætum skatttekjum sé varið af skynsemi en ætlast einnig til þess að bundnir fjármunir séu nýttir í það sem mikilvægast er. Á því er misbrestur og hundruð milljarða liggja í eignum sem hafa ekkert með grunnskyldur ríkisins að gera.
Markmiðið er að fjölga tækifærunum, bæta lífskjör allra og búa í haginn fyrir framtíðina. Rauði þráðurinn í hugmyndabaráttu okkar hægri manna er mannhelgi einstaklingsins. Við lítum svo á að andlegt og efnahagslegt frelsi sé frumréttur hvers og eins. Virðing fyrir frumréttinum tryggir betur en nokkuð annað velsæld samfélaga. Þegar stjórnvöld telja nauðsynlegt að ganga á þennan frumrétt, þó ekki sé nema í takmarkaðan tíma í nafni almannaheilla, er nauðsynlegt að byggt sé á skýrum lagalegum grunni. Almenningur verður að skilja rökin sem liggja þar að baki og fá skýrar upplýsingar um hvenær og undir hvaða skilyrðum hömlum verður aflétt. Annars missa stjórnvöld trúverðugleika, samstaða samfélagsins brestur og aðgerðir til varnar almenningi snúast upp í andhverfu sína. Í stað þess að takast á við ný verkefni situr samfélagið í heild sinni með hendur í skauti. Fjárfesting – trúin á framtíðina – gufar upp.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. september 2020.