Óundirbúnar fyrirspurnir – Nýbreytni í borgarstjórn
'}}

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Um áratuga skeið voru bæjarstjórn og síðan borgarstjórn Reykjavíkur til fyrirmyndar um lýðræðislegt stjórnvald sem sýndi mikið aðhald í rekstri, lágmarkaði risnu, hélt uppi líflegum, en málefnalegum og háttvísum samræðum um málefni borgaranna, tók veigamiklar ákvarðanir og lagði sig fram um að upplýsa borgarbúa og efla áhuga þeirra á málefnum þeirra og ákvörðunum þar að lútandi.

Á flótta frá borgarbúum

Á þessu hefur orðið dapurleg breyting á síðastliðnum tveimur áratugum. Borgarfulltrúum hefur fjölgað úr 15 í 23, nefndum borgarinnar hefur fjölgað umtalsvert, skrifræði stóraukist, borgarstarfsmönnum í stjórnsýslu borgarinnar fjölgað gífurlega og rekstrarkostnaður og risna rokið upp úr öllu valdi. Pólitík núverandi meirihluta tekur sífellt meira mið af pólitísku pukri og leynimakki. Hún stefnir t.d. staðföst að markmiðum í skipulags- og samgöngumálum sem hún þorir ekki að kannast við opinberlega. Borgarstjóri og meirihluti hans eru ekki til viðtals við borgarbúa, hvorki með viðtalstímum, á fundum né í fjölmiðlum og þá sjaldan þau koma fram í fjölmiðlum gefa þau oft vísvitandi villandi eða ónógar upplýsingar um stefnu sína. Við þessar aðstæður verða borgarstjórnarfundir oft langir og þunglamalegir, fara oft í karp um endalaust skrifræði, gerilsneyddir af hreinskilni og markvísi.

Skref í rétta átt

Af þessum sökum lagði ég fram tillögu í janúar síðastliðnum í forsætisnefnd, fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna,  um óundirbúnar fyrirspurnir á borgarstjórnarfundum til borgarstjóra og borgarfulltrúa.  Henni er ætlað að losa svolítið um fyrirfram ákveðið og niður njörvað fundarform og gera borgarstjórnarfundi þar með skilvirkari, auka upplýsingaflæði til borgarfulltrúa og styrkja þannig eftirlitshlutverk þeirra, ýta undir lýðræðislega umfjöllun borgarfulltrúa og glæða áhuga almennings og fjölmiðla á borgarmálefnum.

Og viti menn: Tillagan var samþykkt í marsmánuði síðastliðnum með breytingum og nánari útfærslu. Samkvæmt tillögunni er lagt til að hálftími verði tekinn undir þennan dagskrárlið og að á hverjum fundi verði gert ráð fyrir fimm fyrirspurnum og að jafnaði verði þeim beint til borgarstjóra en heimilt verður einnig að beina fyrirspurnum til borgarfulltrúa fallist þeir á það. Um er að ræða tilraunaverkefni sem standa mun yfir frá fyrsta fundi borgarstjórnar nú eftir sumarleyfi og til ársloka 2020 en þá verður verkefnið metið af forsætisnefnd með tilliti til framtíðaráforma í þessum efnum.

Vonandi verður þessi nýbreytni liður í að gera borgarstjórnarfundina skilvirkari og sveigjanlegri, auka upplýsingaflæði, gagnsæi og efla eftirlitshlutverk okkar borgarfulltrúa. Ekki veitir af.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. september 2020.