Björn Gíslason borgarfulltrúi:
Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt umhúsnæðismarkaðinn, enda þörf fyrir íbúðir vaxið meira en sem nemur fjölgun íbúða hérlendis. Þessi mikla umframeftirspurn eftir húsnæði hefur ýtt undir hærra húsnæðisverð, sem hefur gert fólki mjög erfitt fyrir að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Í þessu samhengi nægir að nefna Reykjavík, en íbúðir í byggingu sem hlutfall af heildarfjölda íbúða í lok árs 2017 voru 4% þar á sama tíma og þær voru 9% í Kópavogi, 12% í Garðabæ og 15% í Mosfellsbæ. Það er því ljóst að hækkun húsnæðisverðs að undanförnu er að mörgu leyti í boði meirihlutans í Reykjavík, enda hefur sá meirihluti staðið sig einna verst í að svara þörfinni fyrir hagkvæmt húsnæði.
Hugmyndin að baki hlutdeildarlánum
Þessi þróun hefur orðið til þess að ýmsir hópar samfélagsins hafa kallað eftir aðgerðum stjórnvalda í húsnæðismálum. Aðilar vinnumarkaðarins - sem dæmi – hafa gert kröfu um aðgerðir af hálfu stjórnvalda sem endurspeglast m.a. í lífskjarasamningunum. Til að mæta þessum kröfum hafa stjórnvöld lagt fram frumvarp um hlutdeildarlán sem ætlað er að hjálpa einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð og auðvelda þeim þannig að komast inn á markaðinn.
Hugmyndin að baki hlutdeildarlánum er sú að aðstoða fólk undir ákveðnum tekjumörkum að eignast sína fyrstu íbúð eða þá sem hafa ekki átt íbúð í fimm ár að eignast aftur húsnæði. Aðstoð ríkisins felst í því að fjármagna eiginfjárkröfu við íbúðarkaup með hlutdeildarláni.
Sótt í smiðju breska Íhaldsflokksins
Aðferðafræðin er ættuð frá Skotlandi en hún þekkist einnig vel í Bretlandi. Raunar var það ríkisstjórn Davids Camerons, forsætisráðherra Bretlands og þáverandi formanns breska Íhaldsflokksins, sem ýtti úr vör sams konar verkefni undir yfirskriftinni „Help to Buy“. Reynslan frá Bretlandi sýnir að hlutdeildarlánin sem voru lánuð voru endurgreidd fyrr en áætlað var eða í mörgum tilfellum innan fimm ára.
Í frétt Morgunblaðsins 31. ágúst sl. var greint frá því að samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga hefur landsframleiðslan dregist saman um 9,3% að raungildi á 2. ársfjórðungi þessa árs borið saman við sama tímabil í fyrra. Skv. niðurstöðum þjóðhagsreikninga er þetta mesti samdráttur sem mælst hefur síðan ársfjórðungslegar mælingar hófust hérlendis. Gera má ráð fyrir að samdrátturinn verði ennþá meiri vegna heimsfaraldursins. Við því þurfum við, sem samfélag, að bregðast.
Ýtir undir hagvöxt
Leiða má að því líkum að frumvarp um hlutdeildarlán ýti undir hagvöxt og örvi byggingarmarkaðinn á hárréttum tímapunkti. Ekki er hægt að ætla að aðgerðir þessar valdi þenslu eða bólu á húsnæðismarkaði, heldur þvert á móti virki sem kærkomin innspýting inn í efnahagslífið og verði liður í að stemma stigu við samdrættinum. Enda mun frumvarpið skapa hvata fyrir byggingaraðila til að byggja hagkvæmt íbúðarhúsnæði og örva byggingarmarkaðinn um leið.
Mikilvægt er að Reykjavíkurborg, sem stærsta sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu, fari rakleiðis að huga að því hvernig hægt sé að auðvelda byggingu hagkvæms húsnæðis samþykki Alþingi frumvarpið. Tillögur borgarstjóra í þeim efnum hafa nú þegar beðið skipbrot en verktakar sem fengu lóðir úthlutaðar fyrir hagkvæmt húsnæði enduðu með því að skila þeim aftur til borgarinnar. Ástæðurnar voru ekki síst fólgnar í innviðagjaldi og háu lóðaverði. Framboð á ódýrum lóðum án innviðagjalda er nauðsynleg forsenda þess að örva markaðinn til góðs fyrir fyrstu kaupendur.
Íbúðum þarf að fjölga um 1.830 árlega
Þá er fyrirséð að til þess að útrýma megi óuppfylltri íbúðaþörf og mæta þörfinni þarf íbúðum að meðaltali að fjölga um 1.830 árlega á tímabilinu 2019-2040 skv. íbúðaþarfagreiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem birt var á Húsnæðisþingi í lok árs 2019. Ljóst er að Reykjavíkurborg þarf að leggja meira af mörkum og sýna meiri metnað við úthlutun lóða svo unnt sé að mæta þörf markaðarins.
Niðurstöður viðhorfskönnunar meðal leigjenda sem Íbúðalánasjóður lét framkvæma árið 2019 sýndi fram á að um 85% leigjenda segjast vilja búa í eigin húsnæði. Sú staðreynd samrýmist frumvarpi þessu mjög vel, enda gerir hún leigjendum kleift að eignast sitt eigið húsnæði. Þá ýtir frumvarpið undir séreignarstefnuna sem hefur verið hér við lýði undanfarna áratugi og hefur skapað mikil lífsgæði á Íslandi í gegnum árin.
Frumvarp ríkisstjórnarinnar um hlutdeildarlán er mjög jákvætt skref, ekki síst á þeim tímum sem nú eru uppi í samfélaginu, en það er liður í að örva hagvöxt. Þá hefur frumvarpið tekið mjög jákvæðum breytingum í meðförum velferðarnefndar Alþingis en nefndinni hefur tekist að binda lausa enda. Enn fremur felur frumvarpið í sér hvata fyrir stærstu sveitarfélögin að skipuleggja íbúðabyggð á hagkvæmum lóðum, með húsnæði á viðráðanlegu verði í huga. Það er ástæða til að hvetja alla þingmenn – hvar í flokki sem þeir standa – að styðja við frumvarpið með atkvæði sínu, enda er það liður í að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. september 2020.