Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður:
Umræðan í þingsal um mikilvægi álframleiðslu fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf hefur verið mjög takmörkuð og endurspeglast oft á tíðum af ósanngirni. Það er þó staðreynd, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að stóriðjan á Íslandi og raforkuframleiðsla hefur byggt mikilvægan grunn undir íslenskt efnahagslíf. Sem dæmi má nefna mikilvægi álframleiðslunnar í framhaldi af bankahruninu þar sem gjaldeyristekjur af álframleiðslu ásamt vexti í ferðaþjónustu kom okkur Íslendingum á undraskömmum tíma út úr erfiðri kreppu.
Afurðir fyrir 214 milljarða króna
Heildargjaldeyristekjur vegna vöru- og þjónustuviðskipta voru um 1.344 milljarðar á síðasta ári. Á síðasta ári fluttu íslensku álverin út afurðir fyrir 214 milljarða kr. og stærsti markaður álveranna er Evrópa. Innflutningurinn á Evrópumarkað frá löndum utan markaðarins er tollskyldur upp að 4-7% en sökum aðildar Íslands að EES-svæðinu er Ísland fyrir innan tollamúrana. Á síðasta ári var ársframleiðslan í heiminum rétt yfir 70 milljónir tonna. Yfir helmingur allrar álframleiðslu í heiminum í dag fer fram í Kína. Kínverjar framleiddu rétt rúmlega 35 milljónir tonna árið 2019 eða um 50% heimsframleiðslunnar. Í því samhengi er rétt að benda á að um aldamótin síðustu var hlutdeild Kína ekki í neinni líkingu við það sem við sjáum í dag. Álframleiðslan á Íslandi er í dag um 16% af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar, eins og við þekkjum síðustu árin, og kostnaður álvera á Íslandi í fyrra nam um 91 milljarði innan lands. Það eru beinharðar gjaldeyristekjur fyrir íslenskt þjóðarbú. Samkeppnishæfni íslenskrar álframleiðslu snýr því einna helst að tveimur þáttum, annars vegar að því að Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og hins vegar að aðgengi að grænni raforku á hagstæðum kjörum.
Framleiðsla í erfiðleikum sem öllum er sama um?
Í umræðunni, eins og vill oft gerast þegar um orkusækinn iðnað er að ræða, gleymist að huga að því að á bak við framleiðsluna er fólk sem dregur lífsviðurværi sitt af því að starfa þar. Árið 2019 voru tæplega 1.500 manns sem störfuðu í álverum. Þá voru stöðugildi verktaka innan álvera 435 og starfsmenn í stóriðjuskóla 105. Framleiðsla á áli á þó undir högg að sækja um þessar mundir og íslenskur áliðnaður hefur sjaldan staðið frammi fyrir jafn krefjandi markaðsaðstæðum. Má það rekja m.a. til kórónuveirufaraldursins sem endurspeglast í minnkandi eftirspurn og uppsöfnun mikilla birgða. Það er auðvitað ljóst að Ísland verður af miklum gjaldeyristekjum þegar PCC hefur tímabundið hætt starfsemi og stóriðjufyrirtæki eins og ISAL starfar ekki á fullum afköstum. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir hlýtur þar af leiðandi að felast í því að treysta samkeppnisstöðu íslensks áliðnaðar. Ég vil því taka undir orð fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, um að það er orðið löngu tímabært að fara fram á það í þeirri Evrópusamvinnu sem Ísland er þátttakandi í að staðinn verði vörður um iðnaðarvöru innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem augljóslega fer fram með mun umhverfisvænni hætti en sú framleiðsla sem seld er inn á svæðið. Okkar verkefni er að tryggja orkusæknum iðnaði hér á landi sjálfbærar rekstrarforsendur. Ég mun því á nýju löggjafarþingi þegar það kemur saman 1. október nk. leggja fram skýrslubeiðni til utanríkisráðherra þar sem óskað verður umfjöllunar um stöðu íslenskrar álframleiðslu á Íslandi gagnvart EES-samningnum, auk umfjöllunar um framleiðslu og sölu á umhverfisvænni iðnaðarvörum innan evrópska efnahagssvæðisins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. september 2020.