Auðlegð, völd og áhrif í alþýðulýðveldi
'}}

Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður.

Það er erfitt að ímynda sér Alþýðulýðveldið Kína sem heimsveldi. Vissu­lega er Alþýðulýðveldið Kína fjöl­menn­asta þjóðríki ver­ald­ar og lands­fram­leiðsla þess er nú um fimmt­ungi meiri en lands­fram­leiðsla Banda­ríkj­anna, sé leiðrétt fyr­ir verðlagi. Landið er „alþýðulýðveldi“ en jafn­framt eitt áhrifa­mesta ríki í heimsviðskipt­un­um. Meg­in­mótaðili í þeim viðskipt­um eru Banda­rík­in. 11 af 40 stærstu bönk­um ver­ald­ar eru í Alþýðulýðveld­inu Kína, þar af eru fjór­ir stærstu bank­ar ver­ald­ar kín­versk­ir. Þar við bæt­ist „China In­vest­ment Corporati­on“, sem ann­ast vörslu og ávöxt­un kín­verska gjald­eyr­is­vara­sjóðsins. Eign­ir sjóðsins eru meiri en mann­legt fólk skil­ur. Það er hvorki þrot né end­ir á!

Hvernig verður gjald­eyr­is­vara­sjóður til?

Í heimsviðskipt­um, þar sem jafn­vægi væri í viðskipt­um milli þjóða, yrði ekki til gjald­eyr­is­vara­sjóður hjá neinu landi. Slíkt jafn­vægi er ekki í heimsviðskipt­um. Ein þjóð sker sig úr með viðskipta­halla. Það eru Banda­rík­in, sem hafa verið rek­in með mikl­um halla á ut­an­rík­is­viðskipt­um í ára­tugi. Gjald­miðill Banda­ríkj­anna, Banda­ríkja­doll­ar, er al­mennt viður­kennd­ur sem gjald­miðill í heimsviðskipt­um og því telja aðrar þjóðir sér henta að eiga gjald­eyr­is­vara­forða sinn í þeirri mynt. En ekki aðeins í þeirri mynt held­ur einnig í banda­rísk­um rík­is­skulda­bréf­um, sem gef­in hafa verið út til að fjár­magna fjár­laga­halla Banda­ríkj­anna, sumpart vegna stríðsrekstr­ar í Af­gan­ist­an og Írak.

Um­skipti frá Mars­hall-aðstoðinni

Það eru tölu­verð um­skipti í heim­in­um frá því eft­ir síðari heims­styrj­öld þar sem Banda­rík­in voru af­lögu­fær með tæki og búnað til að byggja upp Evr­ópu eft­ir síðari heims­styrj­öld­ina.

Í ræðu sem ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna, Geor­ge C. Mars­hall, hélt í Har­vard-há­skóla árið 1947, sagði ráðherr­ann meðal ann­ars, í þýðingu minni: „Sann­leik­ur­inn er sá að lönd Evr­ópu eru í mik­illi þörf fyr­ir mat­væli og aðrar nauðsynj­ar frá Banda­ríkj­un­um, mun meiri en lönd­in hafa getu til að greiða fyr­ir. Lönd­in hafa mikla þörf fyr­ir aðstoð, en að öðrum kosti að standa and­spæn­is mik­illi og al­var­legri efna­hags­legri, fé­lags­legri og stjórn­mála­legri hnign­un. Fram­leiðend­ur og bænd­ur verða að geta og vilja eiga viðskipti gegn gjald­miðli, sem held­ur verðgildi sínu.“

Það var mat her­for­ingj­ans fyrr­ver­andi og þá ut­an­rík­is­ráðherra, að þess­ir erfiðleik­ar myndu skapa jarðveg fyr­ir komm­ún­isma og nas­isma og aðrar öfga­hneigðir í lönd­um Evr­ópu og Banda­rík­in yrðu að koma í veg fyr­ir það, með því að byggja upp fram­leiðslu­getu og kaup­mátt í Evr­ópu.

Á eft­ir fylgdi Mars­hall-áætl­un til end­ur­reisn­ar Evr­ópu. Senni­lega hef­ur ástandið verið svipað í Jap­an eft­ir eyðilegg­ing­ar í kjöl­far kjarn­orku­spreng­inga. Jap­an var vissu­lega her­setið af Banda­ríkja­mönn­um á eft­ir­stríðár­un­um.

Yf­ir­burðir Banda­ríkj­anna sem heimsveld­is í dag eru lang­an veg frá því sem þeir voru eft­ir síðari heims­styrj­öld.

Við vit­um hvernig Banda­ríkja­menn vildu hafa Ísland á sínu áhrifa­svæði. Það var reynt að koma í veg fyr­ir að komm­ún­ist­ar næðu yf­ir­ráðum á menn­ing­ar­sviðinu, til dæm­is með því að hingað voru send­ir banda­rísk­ir hljóm­sveit­ar­stjór­ar til að stjórna Sin­fón­íu­hljóm­sveit Íslands. Íslensk­ir bænd­ur voru gerðir ham­ingju­sam­ir með land­búnaðar­tækj­um. Raf­væðing gekk hratt fyr­ir sig með fram­lagi og láns­fé úr Mars­hall-aðstoðinni.

Nú er annað heimsveldi

Nú er Alþýðulýðveldið Kína komið í svipuð spor og Banda­rík­in eft­ir síðari heims­styrj­öld. Landið hef­ur gíf­ur­lega fram­leiðslu­getu, ekki aðeins í þungaiðnaði held­ur einnig í há­tækni, svo sem í fjar­skipta­kerf­um. Þessi upp­bygg­ing hef­ur átt sér stað á 40 árum, frá því Deng Xia­op­ing tók við völd­um að Mao látn­um.

Efna­hags­leg­um styrk­leika Kína hef­ur verið lýst fyrr í grein­inni. Alþýðulýðveldið hef­ur ekki þróað stjórn­ar­far sitt í átt að hátt­um vest­ræns lýðræðis.

Það er erfitt að greina á milli rík­is og flokks. Í Alþýðulýðveld­inu hef­ur orðið til mjög fá­menn stétt auðugs fólks, sem virðist njóta vernd­ar Flokks­ins, sem öllu ræður. Þessi auður hef­ur orðið til í há­tækniiðnaði og fast­eigna­upp­bygg­ingu.

Auðlegð þess­ara efnuðu ein­stak­linga er meiri en við dauðlegt fólk á Íslandi skilj­um. Fyr­ir­tæki þess­ara auðjöfra hafa að sjálf­sögðu skyld­ur við þann flokk, sem skóp þau. Fyr­ir­tæki og Flokk­ur? Hvar skil­ur á milli?

Huawei

Huawei Technologies er stofnað af fyrr­ver­andi hers­höfðingja í kín­verska frels­is­hern­um. Skammt á milli fyr­ir­tæk­is, hers og flokks! Fyr­ir­tækið hef­ur tekið fram úr L M Eric­son í fram­leiðslu sím­kerfa og einnig tekið fram úr APPLE í fram­leiðslu snjallsíma, en hef­ur enn ekki náð SAM­SUNG í þeim efn­um.

Alþýðulýðveldið Kína er ekki leng­ur aðeins fram­leiðandi, held­ur leiðandi í hönn­un há­tækni.

Með hárri sparnaðar­hneigð verður til fjár­mála­veldi. Eitt­hvað ætl­ar Flokk­ur­inn sér með það.

Belti og braut

Það er ekki víst að Flokk­ur­inn ætli sér aðeins að bæta mann­líf með öðrum þjóðum með „Belti og braut“-verk­efn­inu, án þess að fá þar ein­hver áhrif. Ríkið og Flokk­ur­inn þurfa ekki að svara fyr­ir gerðir sín­ar í kosn­ing­um. Gjald­eyr­is­vara­sjóður Alþýðulýðveld­is­ins er að stór­um hluta upp­safnaður viðskipta­halli Banda­ríkj­anna, sem end­ur­spegl­ar fjár­laga­halla lands­ins. Stjórn­ar­herr­arn­ir gera sér grein fyr­ir því að sjóður­inn er senni­lega bet­ur kom­inn með því að kaupa sér völd og áhrif í öðrum lönd­um, en að bíða þess að verða greidd með nýj­um banda­rísk­um rík­is­skulda­bréf­um.

Í þessu ljósi verður að skoða hug­mynd­ina um „Belti og braut“. Að end­ingu borga Banda­rík­in.

Á það skal enn minnt hvað gamli ís­lenski komm­ún­ist­inn sagði þegar banda­rískri her­stöð var lokað á Miðnes­heiði, „Ert þú ekki ánægður með að banda­rískri her­stöð hef­ur verið lokað? Nei, það eru Kín­verj­arn­ir! Ég ótt­ast upp­gang og áhrif Kín­verja hér á landi.“

Það kann að vera að upp­gangi og áhrif­um Kín­verja hér á landi verði aðeins mætt með því að borg­ur­un­um verði gert mögu­legt að eiga spari­fé í banka eins og kín­verskri alþýðu. Ísland verður alltént ekki efna­hags­legt stór­veldi ef frjáls sparnaður er skattlagður út af borðinu!

Hvað seg­ir land­nem­inn?

„Annarra manna brauð er það versta eit­ur sem frjáls og sjálf­stæður maður get­ur étið, annarra manna brauð er það eina sem get­ur rænt hann sjálf­stæðinu og því sanna frelsi.“

Spek­úl­er­ing­ar í ann­ars manns land hafa ætíð und­ir sér fram­andi til­gang.

Mun­um ávallt; „Maður fer á mis við lífið þángaðtil maður er orðinn sjálf­stæður. Fólk sem ekki er sjálf­stæðis­fólk, það er ekki fólk.“

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. ágúst 2020.