Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður.
Það er erfitt að ímynda sér Alþýðulýðveldið Kína sem heimsveldi. Vissulega er Alþýðulýðveldið Kína fjölmennasta þjóðríki veraldar og landsframleiðsla þess er nú um fimmtungi meiri en landsframleiðsla Bandaríkjanna, sé leiðrétt fyrir verðlagi. Landið er „alþýðulýðveldi“ en jafnframt eitt áhrifamesta ríki í heimsviðskiptunum. Meginmótaðili í þeim viðskiptum eru Bandaríkin. 11 af 40 stærstu bönkum veraldar eru í Alþýðulýðveldinu Kína, þar af eru fjórir stærstu bankar veraldar kínverskir. Þar við bætist „China Investment Corporation“, sem annast vörslu og ávöxtun kínverska gjaldeyrisvarasjóðsins. Eignir sjóðsins eru meiri en mannlegt fólk skilur. Það er hvorki þrot né endir á!
Hvernig verður gjaldeyrisvarasjóður til?
Í heimsviðskiptum, þar sem jafnvægi væri í viðskiptum milli þjóða, yrði ekki til gjaldeyrisvarasjóður hjá neinu landi. Slíkt jafnvægi er ekki í heimsviðskiptum. Ein þjóð sker sig úr með viðskiptahalla. Það eru Bandaríkin, sem hafa verið rekin með miklum halla á utanríkisviðskiptum í áratugi. Gjaldmiðill Bandaríkjanna, Bandaríkjadollar, er almennt viðurkenndur sem gjaldmiðill í heimsviðskiptum og því telja aðrar þjóðir sér henta að eiga gjaldeyrisvaraforða sinn í þeirri mynt. En ekki aðeins í þeirri mynt heldur einnig í bandarískum ríkisskuldabréfum, sem gefin hafa verið út til að fjármagna fjárlagahalla Bandaríkjanna, sumpart vegna stríðsrekstrar í Afganistan og Írak.
Umskipti frá Marshall-aðstoðinni
Það eru töluverð umskipti í heiminum frá því eftir síðari heimsstyrjöld þar sem Bandaríkin voru aflögufær með tæki og búnað til að byggja upp Evrópu eftir síðari heimsstyrjöldina.
Í ræðu sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna, George C. Marshall, hélt í Harvard-háskóla árið 1947, sagði ráðherrann meðal annars, í þýðingu minni: „Sannleikurinn er sá að lönd Evrópu eru í mikilli þörf fyrir matvæli og aðrar nauðsynjar frá Bandaríkjunum, mun meiri en löndin hafa getu til að greiða fyrir. Löndin hafa mikla þörf fyrir aðstoð, en að öðrum kosti að standa andspænis mikilli og alvarlegri efnahagslegri, félagslegri og stjórnmálalegri hnignun. Framleiðendur og bændur verða að geta og vilja eiga viðskipti gegn gjaldmiðli, sem heldur verðgildi sínu.“
Það var mat herforingjans fyrrverandi og þá utanríkisráðherra, að þessir erfiðleikar myndu skapa jarðveg fyrir kommúnisma og nasisma og aðrar öfgahneigðir í löndum Evrópu og Bandaríkin yrðu að koma í veg fyrir það, með því að byggja upp framleiðslugetu og kaupmátt í Evrópu.
Á eftir fylgdi Marshall-áætlun til endurreisnar Evrópu. Sennilega hefur ástandið verið svipað í Japan eftir eyðileggingar í kjölfar kjarnorkusprenginga. Japan var vissulega hersetið af Bandaríkjamönnum á eftirstríðárunum.
Yfirburðir Bandaríkjanna sem heimsveldis í dag eru langan veg frá því sem þeir voru eftir síðari heimsstyrjöld.
Við vitum hvernig Bandaríkjamenn vildu hafa Ísland á sínu áhrifasvæði. Það var reynt að koma í veg fyrir að kommúnistar næðu yfirráðum á menningarsviðinu, til dæmis með því að hingað voru sendir bandarískir hljómsveitarstjórar til að stjórna Sinfóníuhljómsveit Íslands. Íslenskir bændur voru gerðir hamingjusamir með landbúnaðartækjum. Rafvæðing gekk hratt fyrir sig með framlagi og lánsfé úr Marshall-aðstoðinni.
Nú er annað heimsveldi
Nú er Alþýðulýðveldið Kína komið í svipuð spor og Bandaríkin eftir síðari heimsstyrjöld. Landið hefur gífurlega framleiðslugetu, ekki aðeins í þungaiðnaði heldur einnig í hátækni, svo sem í fjarskiptakerfum. Þessi uppbygging hefur átt sér stað á 40 árum, frá því Deng Xiaoping tók við völdum að Mao látnum.
Efnahagslegum styrkleika Kína hefur verið lýst fyrr í greininni. Alþýðulýðveldið hefur ekki þróað stjórnarfar sitt í átt að háttum vestræns lýðræðis.
Það er erfitt að greina á milli ríkis og flokks. Í Alþýðulýðveldinu hefur orðið til mjög fámenn stétt auðugs fólks, sem virðist njóta verndar Flokksins, sem öllu ræður. Þessi auður hefur orðið til í hátækniiðnaði og fasteignauppbyggingu.
Auðlegð þessara efnuðu einstaklinga er meiri en við dauðlegt fólk á Íslandi skiljum. Fyrirtæki þessara auðjöfra hafa að sjálfsögðu skyldur við þann flokk, sem skóp þau. Fyrirtæki og Flokkur? Hvar skilur á milli?
Huawei
Huawei Technologies er stofnað af fyrrverandi hershöfðingja í kínverska frelsishernum. Skammt á milli fyrirtækis, hers og flokks! Fyrirtækið hefur tekið fram úr L M Ericson í framleiðslu símkerfa og einnig tekið fram úr APPLE í framleiðslu snjallsíma, en hefur enn ekki náð SAMSUNG í þeim efnum.
Alþýðulýðveldið Kína er ekki lengur aðeins framleiðandi, heldur leiðandi í hönnun hátækni.
Með hárri sparnaðarhneigð verður til fjármálaveldi. Eitthvað ætlar Flokkurinn sér með það.
Belti og braut
Það er ekki víst að Flokkurinn ætli sér aðeins að bæta mannlíf með öðrum þjóðum með „Belti og braut“-verkefninu, án þess að fá þar einhver áhrif. Ríkið og Flokkurinn þurfa ekki að svara fyrir gerðir sínar í kosningum. Gjaldeyrisvarasjóður Alþýðulýðveldisins er að stórum hluta uppsafnaður viðskiptahalli Bandaríkjanna, sem endurspeglar fjárlagahalla landsins. Stjórnarherrarnir gera sér grein fyrir því að sjóðurinn er sennilega betur kominn með því að kaupa sér völd og áhrif í öðrum löndum, en að bíða þess að verða greidd með nýjum bandarískum ríkisskuldabréfum.
Í þessu ljósi verður að skoða hugmyndina um „Belti og braut“. Að endingu borga Bandaríkin.
Á það skal enn minnt hvað gamli íslenski kommúnistinn sagði þegar bandarískri herstöð var lokað á Miðnesheiði, „Ert þú ekki ánægður með að bandarískri herstöð hefur verið lokað? Nei, það eru Kínverjarnir! Ég óttast uppgang og áhrif Kínverja hér á landi.“
Það kann að vera að uppgangi og áhrifum Kínverja hér á landi verði aðeins mætt með því að borgurunum verði gert mögulegt að eiga sparifé í banka eins og kínverskri alþýðu. Ísland verður alltént ekki efnahagslegt stórveldi ef frjáls sparnaður er skattlagður út af borðinu!
Hvað segir landneminn?
„Annarra manna brauð er það versta eitur sem frjáls og sjálfstæður maður getur étið, annarra manna brauð er það eina sem getur rænt hann sjálfstæðinu og því sanna frelsi.“
Spekúleringar í annars manns land hafa ætíð undir sér framandi tilgang.
Munum ávallt; „Maður fer á mis við lífið þángaðtil maður er orðinn sjálfstæður. Fólk sem ekki er sjálfstæðisfólk, það er ekki fólk.“
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. ágúst 2020.