Egill Þór Jónsson borgarfulltrúi:
Um þessar mundir er hverfisskipulag Breiðholts til kynningar. Hverfaskipulagið er ígildi deiliskipulags og mun hafa í för með sér töluverðar breytingar fyrir hverfið. Breiðholtið hefur mestmegnis verið afskipt af hálfu borgaryfirvalda síðustu ár. Sumt í nýja hverfisskipulaginu verður Breiðholtinu til góðs þó annað sé gagnrýnivert og jafnvel algerlega vanhugsað. Íbúum í hverfinu hefur fækkað um þúsundir síðustu ár, innviðum hefur ekki verið haldið við og lítil sem engin uppbygging í hverfinu hefur bitnað á gæðum hverfisins. Þegar farið er í róttækar breytingar á skipulagi sem snertir þúsundir íbúa er mikilvægt að vinna málið í sátt og samlyndi við hverfið.
Samráð?
Borgin stærir sig af því að mikið samráð hafi verið haft við íbúa hverfisins við vinnu skipulagsins. Ekki í fyrsta sinn en Reykjavíkurborg hefur áður stært sig af miklu samráði við íbúa borgarinnar, stofnanir og fleiri aðila. Hins vegar hefur komið á daginn að sá ferill hefur alltaf verið einhliða af hálfu borgarinnar, þ.e.a.s. íbúar hvattir til þess að taka þátt í umræðum og segja sína skoðun. Þegar niðurstöður samráðsvettvangs eru svo birtar, hefur einhliða stefna meirihluta flokkanna í borginni verið það eina sem kynnt er og unnið eftir. Til eru ótal dæmi um þennan farsa síðustu ár. Þessi vinnubrögð hafa ekki stuðlað að sátt um breytingar á borgarskipulaginu síðustu ár.
Handbók Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 2017 er ætlað að vera leiðbeinandi plagg fyrir sveitarstjórnir í landinu svo hægt sé að bæta samráð við íbúa og auka jákvæða þátttöku þeirra í ákvörðunartöku í nærsamfélagi þeirra. Þar stendur meðal annars: „ Áður en lagt er af stað í vegferðina þarf þó að vera alveg ljóst að það sé ennþá svigrúm til að hafa áhrif á ákvörðunina og sveitarstjórn þarf að hafa raunverulegan áhuga á að hafa viðhorf íbúa til hliðsjónar. Málamyndasamráð grefur undan trausti íbúa á sveitarstjórnum og á aldrei rétt á sér. “
Þessi vinnubrögð eru ein af mögulegum ástæðum þess að borgarstjórn mælist ítrekað með minnsta traust allra stofnana samkvæmt könnunum Gallup, eða aðeins 12%.
Jákvæð uppbygging og fegrun
Uppbygging hverfiskjarnanna í Breiðholti er þörf og á flestum af þeim svæðum sem lagt er til að þétta byggð mun þéttingin hafa jákvæð áhrif á hverfið. Nýja skipulagið gerir ráð fyrir mikilli uppbyggingu lítilla íbúða. Hins vegar er skortur á íbúðum í hverfinu fyrir hjón og einstaklinga á miðjum aldri sem enn vilja búa í hverfinu en þurfa til dæmis að minnka við sig úr einbýlishúsum. Einnig er skortur á fjölskylduíbúðum fyrir ungt fólk með 2 til 4 börn. Stór hluti Breiðholts er byggður upp af litlum íbúðum og stærri einbýlishúsum, því er ekki skortur á þeim í hverfinu, frekar offramboð.
Aukinn íbúafjöldi og meiri þéttni íbúa ætti að ýta undir aukna þjónustu í hverfinu sem hefur oft á tíðum átt erfitt með að þrífast til langs tíma. Til dæmis má nefna hverfiskjarna eins og í Rangárseli, Arnarbakka og Völvufelli, auk kjarna í Iðufelli og Tindaseli. Einnig eru spennandi hugmyndir um uppbyggingu stúdentaíbúða í hverfinu. Hins vegar hafa stúdentar í gegnum tíðina sóst meira eftir búsetu í nærumhverfi háskólasamfélagsins en í útjaðri borgarinnar.
Vegna afskiptaleysis borgaryfirvalda síðustu ár er þörf á átaki í viðhaldi og fegrun hverfisins. Hverfið, eins og mörg önnur úthverfi borgarinnar, hefur verið illa hirt og viðhaldi á grunnstoðum samfélagsins verið verulega ábótavant svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Borgin gæti t.a.m. skoðað þann kost að bjóða húsfélögum og húsfélagseiningum upp á samtal og samráð um fegrun stórra svæða í umsjá húsfélagseininga. Þannig gæti borgin verið ráðgefandi aðili íbúa hverfisins í að fegra og byggja upp svæði sem lengi hafa verið látin afskipt. Samspil íbúa og borgarinnar væri því lykill í jákvæðri uppbyggingu og fegrun hverfisins.
Gagnrýnivert
Þegar farið er í uppbyggingu í grónum hverfum borgarinnar er ákveðin hætta á að gengið sé á mikilvæg svæði. Skipulagsdrögum að nýju hverfisskipulagi hlýtur að verða breytt til að halda í svæði eins og Bakkatún. Svæðið er mikilvægt í hverfinu en þar var t.d. fjölskylduhátíð haldin 17. júní síðastliðinn. Einnig ætlar borgin sér að útrýma öllum stórbílastæðum í hverfinu án nokkurrar ástæðu. Þar þarf að finna lausn hið fyrsta.
Skipulagið setur samgöngusáttmálann í hættu
Ein af áhugaverðustu hugmyndum hverfaskipulagsins er Vetrargarður við skíðabrekkuna ofan við Jafnasel. Hugmyndin er hugsuð sem skíðabrekka fyrir skólabörn og ungt fólk árið um kring. Hins vegar eru þær skipulagshugmyndir vanhugsaðar því þær stangast á við Samgöngusáttmálann sem Reykjavíkurborg undirritaði ásamt öðrum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Verði núverandi skipulag að veruleika kemur það að öllum líkindum í veg fyrir lagningu Arnarnesvegar. Það setur sáttmálann í uppnám og óljóst hvað önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ákveða að gera brjóti Reykjavíkurborg Samgöngusáttmálann. Fórnarkostnaður yrði mjög mikill verði ekki fundin lausn á málinu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. ágúst 2020.