Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:
Ástandið í Hvíta-Rússlandi er eldfimt eftir forsetakosningar þar sem öllum er orðið ljóst að svindlað var. Evrópusambandið viðurkennir ekki úrslit forsetakosninganna þar í landi og þegnar Hvíta-Rússlands segja hingað og ekki lengra.
Það bara stenst ekki að Lukasjenko hafi fengið um 80% atkvæða. Það veit hann sjálfur og það veit keppinautur hans Svyatlana Tsikhanouskaya og það veit þjóðin öll. Þrátt fyrir aðgerðir forsetans til að koma í veg fyrir frjálsa fjölmiðla og að fréttir af ástandinu í landinu kæmust í heimsmiðlana þá er heimsbyggðinni það ljóst sem aldrei fyrr að ástandið í Hvíta-Rússlandi er hættulegt og óásættanlegt.
Eftir að hafa sinnt kosningaeftirliti í Hvíta-Rússlandi við þingkosningarnar í fyrra, á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), og orðið vitni að kosningasvindli hef ég fylgst af meiri áhuga með fréttum frá landinu. Ég óttast um þjóðina sem núna hefur sameinast í mótmælum gegn forseta landsins. Mótmælendur hafa verið beittir ofbeldi og harðræði af hálfu lögreglu og ástandið er vægast sagt eldfimt. Ég vona að það þurfi ekki að koma til blóðugrar byltingar en of margir hafa nú þegar látið lífið í mótmælum.
Við kosningaeftirlitið í fyrra var ljóst að svindlað var, sá fjöldi sem opinberar tölur gáfu upp um þann fjölda sem kosið hafði utan kjörfundar stemmdi ekki við undirskriftir á kjörskrá. Fjölmiðlafrelsi er afar takmarkað í landinu og fjölmiðlamenn hafa unnvörpum hrökklast úr landi. Hluti þeirra frambjóðenda sem vildu bjóða sig fram fékk það, á meðan öðrum var einfaldlega meinað að bjóða sig fram til kjörs. Allt er þetta nóg til að gera kosningarnar ólýðræðislegar og ómarktækar, en það keyrði um þverbak að vera viðstödd talningu atkvæða þar sem augljóslega var búið að ákveða úrslitin fyrir fram og talningin því bara illa sviðsett leikrit fyrir okkur eftirlitsmennina.
Það kemur mér því ekkert á óvart að sama hafi verið uppi nú við forsetakosningarnar.
Mótframbjóðandi Lúkasjenkós, Tsikanouskaya, sem tók í raun við framboði eiginmanns síns eftir að hann var handtekinn og meinað að gefa kost á sér, naut töluverðrar hylli almennings þótt ógjörningur sé að segja til um hvað hún hafi raunverulega borið úr býtum í kosningunum. Engar marktækar skoðanakannanir eru til svo vonlaust er að vita hver raunverulegur hugur kjósenda var. En það er öllum ljóst að hún átti mun meira inni en þau rúmlega 10% sem opinberar tölur gefa til kynna.
Ef til vill hefði Lúkasjenkó komist hjá þeirri heimsathygli sem nú blasir við Hvíta-Rússlandi ef hann hefði verið öllu hógværari. En sitjandi valdhafi gat ekki látið það spyrjast út að hann hefði rétt marið kosningarnar og því var ákveðið að 80% atkvæða teldist hæfilegt til að tryggja sitjandi forseta sigur. En þar hafði hann rangt fyrir sér og líklegt er að gerviatkvæðagræðgi sé það sem verði honum að falli. Nú er spurning hvernig nágranni hans og vinur Pútín bregst við hrakförum bandamanns síns.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. ágúst 2020.