Eyþór Arnalds oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur:
Ætla mætti að stærsta sveitarfélagið væri hagkvæmasta rekstrareiningin. Gæti gert meira fyrir minna. Stærðarhagkvæmni sveitarfélaga á að skila sér í minni kostnaði á hvern íbúa. Um það er ekki deilt. Það skýtur því skökku við að meðalkostnaður borgarinnar er ekki lægri en nágrannasveitarfélaganna sem þó eru talsvert minni rekstrareiningar. Þvert á móti er launakostnaður borgarinnar 16% hærri en meðaltal stærstu nágranna hennar; Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar fyrir síðasta ár. Ef launakostnaður á íbúa væri sá sami í Reykjavík væri hann níu milljörðum lægri. Það gerir 287 þúsund krónur fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu á ári hverju. Munar um minna. Þessi kostnaður er skerðing á ráðstöfunartekjum heimilanna í borginni enda rukkar Reykjavík hærra útsvar af launum þeirra sem búa í borginni en nágrannasveitarfélögin. Tekur mun meira af laununum en sjálft ríkið. Fasteignaskattar hafa líka hækkað langt umfram verðlag. Það bitnar á fólki og fyrirtækjum. Í stað þess að nútímavæða rekstur borgarinnar hefur yfirbyggingin verið stækkuð. Ánægja með þjónustu borgarinnar er minni en meðal íbúa nágrannasveitarfélaganna í samræmdum viðhorfskönnunum. Kostnaðurinn skilar sér þannig í hærri sköttum en ekki í aukinni ánægju. Þeir sem vilja fara vel með skattfé og áhugamenn um bættan rekstur ættu að skoða hvernig á þessu stendur. Hér mætti bjóða út meira. Og betur. Hér mætti hagræða. Nýta tæknina betur. Minnka báknið. Á öllum tímum munar heimilin um 287 þúsund krónur. Á erfiðum tímum eins og nú eru munar það miklu. Mjög miklu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. ágúst 2020.