Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Fyrir stuttu fjallaði ég á þessum vettvangi um nýjar tillögur um breytingar á stjórnarskrá. Ég nefndi að margt í þessum tillögum væri prýðilegt en staldra þyrfti við og íhuga betur ákveðin atriði, sem fela í sér efnislegar breytingar frá núverandi fyrirkomulagi. Ég nefndi til dæmis um þetta ákvæði um lengd og fjölda kjörtímabila forseta, stjórnarmyndun og þingrof. Flest tengjast þessi mál því hvort forsetaembættið eigi að vera pólitískt eða ekki.
Kjörtímabil forseta
Samkvæmt frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir að kjörtímabil forseta verði lengt úr 4 árum í 6 og að enginn geti setið lengur en tvö kjörtímabil samfellt. Ekki hafa komið fram nein veigamikil rök fyrir því að lengja kjörtímabilið en hugsanlega má segja að breytingin sé fremur meinlaus. Mun meiri ástæða er til að gagnrýna hugmyndina um að takmarka fjölda kjörtímabila. Ég er í grundvallaratriðum þeirrar skoðunar, að almennt eigi ekki að setja því skorður hversu oft menn geti boðið sig fram til tiltekinna embætta. Kjósendur eigi einfaldlega að geta ráðið því í frjálsum kosningum með reglulegu millibili hvort þeir veiti mönnum áframhaldandi umboð eða skipti hinum kjörnu fulltrúum út. Ég get þannig ekki séð að það sé á nokkurn hátt óheilbrigt eða andstætt lýðræðinu að forseti geti setið í þrjú, fjögur eða fimm kjörtímabil samfleytt, ef kjósendur veita honum til þess umboð. Þau rök eru stundum færð fram fyrir takmörkun á fjölda kjörtímabila að með því sé komið í veg fyrir að of mikil völd séu falin einum manni í of langan tíma. Þau rök eru kannski nothæf þegar um er að ræða afar valdamikil forsetaembætti eins og við þekkjum frá Bandaríkjunum og Frakklandi, en eiga engan veginn við hér á landi.
Stjórnarmyndun
Ákvæði um stjórnarmyndun í frumvarpsdrögunum felur ekki í sér veigamikla breytingu nema að einu leyti. Textinn verður ekki skilinn öðruvísi en svo að áfram verði forseti ekki bundinn af öðru en dómgreind sinni og þingræðisreglunni þegar hann velur hverjum hann felur stjórnarmyndunarumboð. Forseti á að veita umboðið þeim stjórnmálaleiðtoga, sem líklegastur er til að geta myndað ríkisstjórn sem nýtur stuðnings meirihluta þingmanna, eða að minnsta kosti stjórn sem varist gæti vantrausti á þingi.
Eina breytingin, sem felst í frumvarpsdrögunum, er á þá leið, að forseta sé heimilt undir einhverjum kringumstæðum að óska fyrir fram eftir yfirlýsingu Alþingis um stuðning eða hlutleysi gagnvart myndun ríkisstjórnar. Hér er með öðrum orðum lagt í hendur forseta að meta hvort hann telji nauðsynlegt að fá formlega yfirlýsingu þingsins um þetta efni og er í greinargerð vísað til þess að það kunni einkum að koma til ef einhver vafi leiki á um hvort tiltekið stjórnarmynstur njóti meirihlutastuðnings eða hlutleysis þingsins eða ekki. Ég fær ekki betur séð en hér sé um óþarfa breytingu að ræða. Yfirleitt á ekki að vera neinum vafa undirorpið hvort fyrirhuguð stjórnarmyndun styðst við meirihluta eða ekki. Og ef einhver álitamál eru uppi um þetta er ekki við öðru að búast en að látið yrði reyna á það með vanstrauststillögu við fyrsta tækifæri.
Þingrof
Hið hefðbundna viðhorf í íslenskri lögfræði er á þá leið að þingrofsrétturinn liggi í raun hjá forsætisráðherra. Samkvæmt þeirri tillögu, sem hér liggur fyrir, er á hinn bóginn gert ráð fyrir að forseti meti með sjálfstæðum hætti hvort tilefni sé til að staðfesta tillögu forsætisráðherra um þingrof eða ekki og mælt fyrir um skyldu hans til samráðs við forseta þings og formenn þingflokka í því sambandi. Hér er með öðrum orðum mælt fyrir um skyldu forseta til samráðs við þá sem gegna tilteknum embættum í þinginu, án þess að forseti sé skyldaður til að taka tillit til sjónarmiða þeirra. Hér þarf að mínu mati að skoða málið betur. Í fyrsta lagi þarf að taka skýra afstöðu til þess hver raunverulega eigi að fara með vald til að rjúfa þing og ef vilji er til þess að fela það forseta, þá þarf að mæla fyrir um það með mun skýrari hætti hvort hann er að því leyti bundinn af sjónarmiðum einhverra annarra.
Fleiri atriði
Meðal annarra atriða, sem huga þarf betur að í frumvarpsdrögunum, er útfærsla ákvæðisins um ráðherraábyrgð, þar sem æskilegra væri að mínu mati að tekin yrði skýr afstaða til þess hvort ákæruvald gegn ráðherrum eigi að vera í höndum þingsins sjálfs eða ríkissaksóknara. Eins mætti að mínu mati skoða betur hvað felist í textanum um samræmingarhlutverk forsætisráðherra og hvort ætlunin sé að breyta einhverju með því orðalagi. Loks má nefna ákvæðið sem varðar valdheimildir starfsstjórna, en þar hygg ég að frumvarpið feli í sér meiri breytingar en virðist í fyrstu.
Ég hef hér fjallað um nokkur álitamál í nýju frumvarpsdrögunum. Hvað sem líður afstöðu manna til einstakra atriða í þessu sambandi gefur kynning á þessum tillögum kærkomið tækifæri til efnislegra umræðna um verkefni forsetaembættisins og valdmörk þess gagnvart öðrum handhöfum ríkisvaldsins. Við þurfum taka afstöðu til þess hvers eðlis við viljum að forsetaembættið sé. Á forseti að vera virkur þátttakandi í hinu pólitíska argaþrasi eða þjóðarleiðtogi og sameiningartákn?
Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. júlí 2020.