Nokkur álitamál í stjórnarskrártillögum
'}}

Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Fyr­ir stuttu fjallaði ég á þess­um vett­vangi um nýj­ar til­lög­ur um breyt­ing­ar á stjórn­ar­skrá. Ég nefndi að margt í þess­um til­lög­um væri prýðilegt en staldra þyrfti við og íhuga bet­ur ákveðin atriði, sem fela í sér efn­is­leg­ar breyt­ing­ar frá nú­ver­andi fyr­ir­komu­lagi. Ég nefndi til dæm­is um þetta ákvæði um lengd og fjölda kjör­tíma­bila for­seta, stjórn­ar­mynd­un og þingrof. Flest tengj­ast þessi mál því hvort for­seta­embættið eigi að vera póli­tískt eða ekki.

Kjör­tíma­bil for­seta

Sam­kvæmt frum­varps­drög­un­um er gert ráð fyr­ir að kjör­tíma­bil for­seta verði lengt úr 4 árum í 6 og að eng­inn geti setið leng­ur en tvö kjör­tíma­bil sam­fellt. Ekki hafa komið fram nein veiga­mik­il rök fyr­ir því að lengja kjör­tíma­bilið en hugs­an­lega má segja að breyt­ing­in sé frem­ur mein­laus. Mun meiri ástæða er til að gagn­rýna hug­mynd­ina um að tak­marka fjölda kjör­tíma­bila. Ég er í grund­vall­ar­atriðum þeirr­ar skoðunar, að al­mennt eigi ekki að setja því skorður hversu oft menn geti boðið sig fram til til­tek­inna embætta. Kjós­end­ur eigi ein­fald­lega að geta ráðið því í frjáls­um kosn­ing­um með reglu­legu milli­bili hvort þeir veiti mönn­um áfram­hald­andi umboð eða skipti hinum kjörnu full­trú­um út. Ég get þannig ekki séð að það sé á nokk­urn hátt óheil­brigt eða and­stætt lýðræðinu að for­seti geti setið í þrjú, fjög­ur eða fimm kjör­tíma­bil sam­fleytt, ef kjós­end­ur veita hon­um til þess umboð. Þau rök eru stund­um færð fram fyr­ir tak­mörk­un á fjölda kjör­tíma­bila að með því sé komið í veg fyr­ir að of mik­il völd séu fal­in ein­um manni í of lang­an tíma. Þau rök eru kannski not­hæf þegar um er að ræða afar valda­mik­il for­seta­embætti eins og við þekkj­um frá Banda­ríkj­un­um og Frakklandi, en eiga eng­an veg­inn við hér á landi.

Stjórn­ar­mynd­un

Ákvæði um stjórn­ar­mynd­un í frum­varps­drög­un­um fel­ur ekki í sér veiga­mikla breyt­ingu nema að einu leyti. Text­inn verður ekki skil­inn öðru­vísi en svo að áfram verði for­seti ekki bund­inn af öðru en dómgreind sinni og þing­ræðis­regl­unni þegar hann vel­ur hverj­um hann fel­ur stjórn­ar­mynd­un­ar­um­boð. For­seti á að veita umboðið þeim stjórn­mála­leiðtoga, sem lík­leg­ast­ur er til að geta myndað rík­is­stjórn sem nýt­ur stuðnings meiri­hluta þing­manna, eða að minnsta kosti stjórn sem var­ist gæti van­trausti á þingi.

Eina breyt­ing­in, sem felst í frum­varps­drög­un­um, er á þá leið, að for­seta sé heim­ilt und­ir ein­hverj­um kring­um­stæðum að óska fyr­ir fram eft­ir yf­ir­lýs­ingu Alþing­is um stuðning eða hlut­leysi gagn­vart mynd­un rík­is­stjórn­ar. Hér er með öðrum orðum lagt í hend­ur for­seta að meta hvort hann telji nauðsyn­legt að fá form­lega yf­ir­lýs­ingu þings­ins um þetta efni og er í grein­ar­gerð vísað til þess að það kunni einkum að koma til ef ein­hver vafi leiki á um hvort til­tekið stjórn­ar­mynst­ur njóti meiri­hlutastuðnings eða hlut­leys­is þings­ins eða ekki. Ég fær ekki bet­ur séð en hér sé um óþarfa breyt­ingu að ræða. Yf­ir­leitt á ekki að vera nein­um vafa und­ir­orpið hvort fyr­ir­huguð stjórn­ar­mynd­un styðst við meiri­hluta eða ekki. Og ef ein­hver álita­mál eru uppi um þetta er ekki við öðru að bú­ast en að látið yrði reyna á það með vans­traust­stil­lögu við fyrsta tæki­færi.

Þingrof

Hið hefðbundna viðhorf í ís­lenskri lög­fræði er á þá leið að þingrofs­rétt­ur­inn liggi í raun hjá for­sæt­is­ráðherra. Sam­kvæmt þeirri til­lögu, sem hér ligg­ur fyr­ir, er á hinn bóg­inn gert ráð fyr­ir að for­seti meti með sjálf­stæðum hætti hvort til­efni sé til að staðfesta til­lögu for­sæt­is­ráðherra um þingrof eða ekki og mælt fyr­ir um skyldu hans til sam­ráðs við for­seta þings og for­menn þing­flokka í því sam­bandi. Hér er með öðrum orðum mælt fyr­ir um skyldu for­seta til sam­ráðs við þá sem gegna til­tekn­um embætt­um í þing­inu, án þess að for­seti sé skyldaður til að taka til­lit til sjón­ar­miða þeirra. Hér þarf að mínu mati að skoða málið bet­ur. Í fyrsta lagi þarf að taka skýra af­stöðu til þess hver raun­veru­lega eigi að fara með vald til að rjúfa þing og ef vilji er til þess að fela það for­seta, þá þarf að mæla fyr­ir um það með mun skýr­ari hætti hvort hann er að því leyti bund­inn af sjón­ar­miðum ein­hverra annarra.

Fleiri atriði

Meðal annarra atriða, sem huga þarf bet­ur að í frum­varps­drög­un­um, er út­færsla ákvæðis­ins um ráðherra­ábyrgð, þar sem æski­legra væri að mínu mati að tek­in yrði skýr afstaða til þess hvort ákæru­vald gegn ráðherr­um eigi að vera í hönd­um þings­ins sjálfs eða rík­is­sak­sókn­ara. Eins mætti að mínu mati skoða bet­ur hvað fel­ist í text­an­um um sam­ræm­ing­ar­hlut­verk for­sæt­is­ráðherra og hvort ætl­un­in sé að breyta ein­hverju með því orðalagi. Loks má nefna ákvæðið sem varðar vald­heim­ild­ir starfs­stjórna, en þar hygg ég að frum­varpið feli í sér meiri breyt­ing­ar en virðist í fyrstu.

Ég hef hér fjallað um nokk­ur álita­mál í nýju frum­varps­drög­un­um. Hvað sem líður af­stöðu manna til ein­stakra atriða í þessu sam­bandi gef­ur kynn­ing á þess­um til­lög­um kær­komið tæki­færi til efn­is­legra umræðna um verk­efni for­seta­embætt­is­ins og vald­mörk þess gagn­vart öðrum hand­höf­um rík­is­valds­ins. Við þurf­um taka af­stöðu til þess hvers eðlis við vilj­um að for­seta­embættið sé. Á for­seti að vera virk­ur þátt­tak­andi í hinu póli­tíska argaþrasi eða þjóðarleiðtogi og sam­ein­ing­ar­tákn?

Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. júlí 2020.