Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:
Dánaraðstoð er kannski ekki algengasta umræðuefnið á kaffistofum eða í heita pottinum en þó er þetta mikilvægt mál sem öðru hverju kemur upp í samfélagsumræðunni.
Dánaraðstoð er þýðing á gríska orðinu evþanasía, sem þýðir „góður dauði“ eða „að deyja með reisn“. Eiginleg merking er að binda enda á líf af ásetningi til þess að leysa hinn sjúka undan óbærilegum þjáningum.
Ég bíð nú eftir skýrslu ráðherra um dánaraðstoð eftir að þingið samþykkti skýrslubeiðni mína og fleiri þingmanna. Í skýrslubeiðninni er óskað eftir samantekt um löggjöf þeirra landa sem heimila dánaraðstoð og veittar upplýsingar um tíðni, ástæður og skilyrði fyrir veitingu dánaraðstoðar. Jafnframt óskaði ég eftir því að gerð yrði könnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um viðhorf þeirra til dánaraðstoðar. Í almennum viðhorfskönnunum hefur komið fram að allt að 77% almennings styðja dánaraðstoð við ákveðnar aðstæður. Kannanir um hug heilbrigðisstarfsmanna sem ég hef komist yfir eru frá 1997 og 2010 sýna að stuðningur þessara stétta er mun minni en almennings, en jókst þó töluvert milli kannana. Stuðningur heilbrigðisstarfsfólks fór þannig úr 5% í 18% hjá læknum en úr 9 í 20% hjá hjúkrunarfræðingum. Mun færri svara því þó til að vera tilbúin að veita slíka þjónustu.
Í Hollandi, sem hefur verið í fararbroddi í lagasetningu um þessi mál, eru það jafnan heimilislæknar sem veita aðstoðina eftir að umsókn dauðvona sjúklings hefur farið í gegnum ítarlegt ferli og tveir læknar hafa skrifað upp á hana. Dánaraðstoð er veitt þegar læknar geta ekki linað þjáningar viðkomandi né gefið von um lækningu. Afstaða heilbrigðisstarfsfólks sem væntanlega myndi veita þjónustuna er því lykilatriði. Ekki ætti að skylda nokkurn til að veita þjónustu sem hann ekki vill veita í þessu efni. Almennt hafa læknar verið á móti dánaraðstoð en þó bendir ýmislegt til þess að einhver breyting kunni að vera á afstöðu heilbrigðisstarfsmanna til slíkrar aðstoðar og með þroskaðri umræðu kann að verða framhald á því.
Ég vænti þess að skýrsla heilbrigðisráðuneytisins verði nýr grundvöllur til upplýstrar og fordómalausrar umræðu um dánaraðstoð bæði innan heilbrigðiskerfisins og meðal almennings en líka innan þings.
Ég hef djúpan skilning á því að dauðvona og sárþjáðir sjúklingar vilji hafa þann valkost að geta kvatt lífið og losnað undan þjáningum. Í því ljósi er dánaraðstoð valdefling hinna deyjandi. Það breytir ekki því að siðferðilegar spurningar í tengslum við dánaraðstoð eru margar og þeirra þarf að spyrja.
Sjálf vona ég í nafni mannúðar að við sjáum á næstu árum skýran og vel skilgreindan íslenskan lagaramma um dánaraðstoð verða að veruleika. Í mínum huga snýst þetta um frelsi einstaklingsins til að ráða því hvenær hann kveður þennan heim og með hvaða hætti þegar öll sund eru lokuð vegna alvarlegra veikinda.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. júlí 2020.