Frelsið í lífi og dauða
'}}

Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:

Dán­araðstoð er kannski ekki al­geng­asta umræðuefnið á kaffi­stof­um eða í heita pott­in­um en þó er þetta mik­il­vægt mál sem öðru hverju kem­ur upp í sam­fé­lagsum­ræðunni.

Dán­araðstoð er þýðing á gríska orðinu evþan­asía, sem þýðir „góður dauði“ eða „að deyja með reisn“. Eig­in­leg merk­ing er að binda enda á líf af ásetn­ingi til þess að leysa hinn sjúka und­an óbæri­leg­um þján­ing­um.

Ég bíð nú eft­ir skýrslu ráðherra um dán­araðstoð eft­ir að þingið samþykkti skýrslu­beiðni mína og fleiri þing­manna. Í skýrslu­beiðninni er óskað eft­ir sam­an­tekt um lög­gjöf þeirra landa sem heim­ila dán­araðstoð og veitt­ar upp­lýs­ing­ar um tíðni, ástæður og skil­yrði fyr­ir veit­ingu dán­araðstoðar. Jafn­framt óskaði ég eft­ir því að gerð yrði könn­un meðal heil­brigðis­starfs­manna um viðhorf þeirra til dán­araðstoðar. Í al­menn­um viðhorfs­könn­un­um hef­ur komið fram að allt að 77% al­menn­ings styðja dán­araðstoð við ákveðnar aðstæður. Kann­an­ir um hug heil­brigðis­starfs­manna sem ég hef kom­ist yfir eru frá 1997 og 2010 sýna að stuðning­ur þess­ara stétta er mun minni en al­menn­ings, en jókst þó tölu­vert milli kann­ana. Stuðning­ur heil­brigðis­starfs­fólks fór þannig úr 5% í 18% hjá lækn­um en úr 9 í 20% hjá hjúkr­un­ar­fræðing­um. Mun færri svara því þó til að vera til­bú­in að veita slíka þjón­ustu.

Í Hollandi, sem hef­ur verið í far­ar­broddi í laga­setn­ingu um þessi mál, eru það jafn­an heim­il­is­lækn­ar sem veita aðstoðina eft­ir að um­sókn dauðvona sjúk­lings hef­ur farið í gegn­um ít­ar­legt ferli og tveir lækn­ar hafa skrifað upp á hana. Dán­araðstoð er veitt þegar lækn­ar geta ekki linað þján­ing­ar viðkom­andi né gefið von um lækn­ingu. Afstaða heil­brigðis­starfs­fólks sem vænt­an­lega myndi veita þjón­ust­una er því lyk­il­atriði. Ekki ætti að skylda nokk­urn til að veita þjón­ustu sem hann ekki vill veita í þessu efni. Al­mennt hafa lækn­ar verið á móti dán­araðstoð en þó bend­ir ým­is­legt til þess að ein­hver breyt­ing kunni að vera á af­stöðu heil­brigðis­starfs­manna til slíkr­ar aðstoðar og með þroskaðri umræðu kann að verða fram­hald á því.

Ég vænti þess að skýrsla heil­brigðisráðuneyt­is­ins verði nýr grund­völl­ur til upp­lýstr­ar og for­dóma­lausr­ar umræðu um dán­araðstoð bæði inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins og meðal al­menn­ings en líka inn­an þings.

Ég hef djúp­an skiln­ing á því að dauðvona og sárþjáðir sjúk­ling­ar vilji hafa þann val­kost að geta kvatt lífið og losnað und­an þján­ing­um. Í því ljósi er dán­araðstoð vald­efl­ing hinna deyj­andi. Það breyt­ir ekki því að siðferðileg­ar spurn­ing­ar í tengsl­um við dán­araðstoð eru marg­ar og þeirra þarf að spyrja.

Sjálf vona ég í nafni mannúðar að við sjá­um á næstu árum skýr­an og vel skil­greind­an ís­lensk­an lag­aramma um dán­araðstoð verða að veru­leika. Í mín­um huga snýst þetta um frelsi ein­stak­lings­ins til að ráða því hvenær hann kveður þenn­an heim og með hvaða hætti þegar öll sund eru lokuð vegna al­var­legra veik­inda.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. júlí 2020.