Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Fyrir nokkru birtust á samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi þar sem lagðar eru til ýmsar breytingar, sem einkum varða II. kafla stjórnarskrárinnar, forsetaembættið, ríkisstjórn, verkefni framkvæmdarvaldsins o.fl.
Birting frumvarpsdraganna er liður í þeirri vinnu sem núverandi ríkisstjórn kom af stað vegna endurskoðunar stjórnarskrárinnar og byggir í grundvallaratriðum á tveimur meginforsendum; annars vegar á því að leita sem víðtækastrar samstöðu og hins vegar að endurskoðunarvinnunni sé skipt upp í afmarkaða verkþætti og tilteknir kaflar stjórnarskrárinnar teknir fyrir í hverjum áfanga. Eru þetta fjórðu frumvarpsdrögin sem birt eru í samráðsgátt, en áður hafa verið birt drög að nýjum ákvæðum um náttúru og umhverfi, auðlindir landsins og íslenska tungu. Drögin eru samin af sérfræðingum í kjölfar vinnu sem átt hefur sér stað í nefnd á vegum forsætisráðherra sem skipuð er formönnum allra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi. Tekið er fram að birting á samráðsgátt feli ekki á þessu stigi í sér skuldbindingu af hálfu formannanna um að þeir muni flytja eða styðja framlagningu sambærilegs frumvarps á Alþingi.
Margt er prýðilegt í þeim frumvarpsdrögum sem nú hafa verið birt á samráðsgáttinni en annað vekur óneitanlega spurningar. Margir, þar á meðal sá sem þetta skrifar, hafa verið þeirrar skoðunar að meginmarkmið breytinga á þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar sem varða forsetaembættið hljóti að vera að færa orðalag ákvæðanna nær raunveruleikanum; nær þeirri framkvæmd sem við þekkjum frá undanförnum áratugum og byggir annars vegar á hefðbundinni túlkun viðkomandi ákvæða og hins vegar á stjórnskipunarvenjum. Ljóst er að í þessum drögum er gengið talsvert lengra og gert ráð fyrir breytingum sem eru efnislegar en varða ekki bara form og framsetningu. Mikilvægt er að einstakar tillögur af því tagi fái góða umfjöllun bæði meðal almennings og fræðimanna áður en lengra er haldið. Meðal þeirra atriða sem þarf þannig að ræða eru ákvæði frumvarpsins um lengd og fjölda kjörtímabila forseta, auk aðkomu forseta að stjórnarmyndun og þingrofi, svo nokkur dæmi séu nefnd. Ákvæðið um þingrof gefur sérstaklega tilefni til meiri umfjöllunar.
Þá þarf þessu til viðbótar að skoða nánar hvort ekki megi ganga lengra en frumvarpið gerir ráð fyrir í þá átt að fella á brott ákvæði sem gera ráð fyrir formlegri aðkomu forseta að ákvörðunum sem í raun eru alfarið teknar af ráðherrum og á þeirra ábyrgð. Slíkar breytingar myndu fyrirbyggja margháttaðan misskilning. Loks má nefna að ástæða er til umræðu um hina sérstöku reglu í 26. gr. um synjunarvald forseta gagnvart lögum frá Alþingi. Þar er ekki gert ráð fyrir efnislegri breytingu í frumvarpsdrögunum en engu að síður er tilefni til umfjöllunar um þetta fyrirkomulag.
Þá er jafnframt mikilvægt samhliða þessu að frekari umræður fari fram almennt um eðli og inntak forsetaembættisins, hvort forseti eigi að vera afskiptasamari en verið hefur um ákvarðanir sem að jafnaði hafa verið á verksviði ríkisstjórnar og Alþingis og þannig virkari þátttakandi í stjórnmálabaráttu líðandi stundar. Sá sem þetta ritar hefur verið þeirrar skoðunar að forseti eigi fyrst og fremst að gegna formlegum skyldum sem þjóðhöfðingi og koma fram sem ákveðið sameiningartákn. Forseti geti því til viðbótar haft mikil áhrif með orðum sínum og gerðum en bein völd og ákvarðanataka á sviði framkvæmdarvalds og löggjafarvalds eigi að vera í höndum ríkisstjórnar og Alþingis. Menn geta vissulega verið annarrar skoðunar og talið að forseti eigi að gegna veigameira hlutverki varðandi stjórnmálalegar ákvarðanir. Ef vilji er til að ganga lengra í þeim efnum er hins vegar eðlilegt og nauðsynlegt að slík stefna verði mörkuð með meðvituðum hætti í kjölfar ítarlegra umræðna. Aðalatriðið er að niðurstaða vinnunnar verði skýr stjórnarskrárákvæði um völd og verksvið forseta.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. júlí 2020.