Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Hún lætur fremur lítið yfir sér fréttin á blaðsíðu 4 hér í Mogganum í gær, þriðjudag. Fyrirsögnin er ekki sérlega grípandi og fréttin því ekki líkleg til að vekja mikla athygli: „Úthlutun til fjölmiðla útfærð“. Eitthvað segir mér að aðeins fjölmiðlungar hafi áhuga á efninu. Margir þeirra setjast niður til að átta sig á því hversu mikið komi í hlut hvers fjölmiðils. Þá kemur Excel sjálfsagt að góðum notum.
Alþingi samþykkti í maí síðastliðnum sérstakan fjárstuðning til einkarekinna fjölmiðla. Stuðningurinn er hluti af aðgerðum ríkisins til að sporna við afleiðingum Covid-19-faraldursins. Mennta- og menningarmálaráðherra var falið það erfiða og lítt öfundsverða hlutverk að útfæra reglur um úthlutun 400 milljóna til fjölmiðla sem uppfylla ákveðin skilyrði.
Tilefni fréttarinnar, sem vekur litla eftirtekt, er að reglugerð um fyrirkomulag úthlutunar hefur verið birt. Að hámarki verður stuðningurinn 25% af stuðningshæfum rekstrarkostnaði viðkomandi fjölmiðils en stuðningur til hvers og eins fjölmiðils getur aldrei orðið hærri en 25% af heildarfjárveitingunni (100 milljónir af 400). Verði samþykktar umsóknir hærri en 400 milljónir skerðist það sem kemur í hlut hvers og eins hlutfallslega.
Fjölmiðlanefnd hefur það hlutverk með höndum að leggja mat á umsóknir. Þannig nær opinber eftirlitsstofnun betri tökum á sjálfstæðum fjölmiðlum.
Ósanngjarnri samkeppni haldið við
Í fjárlögum þessa árs hafði þegar verið gert ráð fyrir 400 milljónum króna til að styðja við sjálfstæða fjölmiðla. Við afgreiðslu fjárlaga lá fyrir ríkisstjórnarfrumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Frumvarpið var umdeilt og náði ekki fram að ganga. Sá er hér skrifar var í hópi gagnrýnenda. Fjárheimildinni var breytt í einskiptisaðgerð til stuðnings einkareknum fjölmiðlum vegna kórónuveirunnar.
Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur haft alvarleg áhrif á rekstur fjölmiðla líkt og á rekstur þúsunda annarra fyrirtækja. Halda má því fram að áhrifin séu að mörgu leyti verri þar sem staða sjálfstæðra fjölmiðla hefur verið erfið í mörg ár. Og hvernig má annað vera? Löggjafinn hefur skapað og haldið við ósanngjarni samkeppni, tryggt yfirburðastöðu Ríkisútvarpsins og dregið þannig þróttinn úr sjálfstæðum fjölmiðlum sem á sama tíma hafa þurft að verjast strandhöggi erlendra miðla, ekki síst samfélagsmiðla.
Ríkisútvarpið fitnar líkt og púkinn á fjósbitanum. Engin önnur atvinnugrein hefur þurft að sæta því að eiga í samkeppni við ríkisfyrirtæki, sem fær þvinguð framlög frá skattgreiðendum en um leið frítt spil á samkeppnismarkaði. Þrátt fyrir að erfið staða sjálfstæðra fjölmiðla hafi blasað við öllum í mörg ár, hefur varðstaðan um Ríkisútvarpið aldrei rofnað. (Ekki einu sinni lögbrot hefur rofið skarð í öflugan varnarmúr). Ég hef orðað þetta svo að Ríkisútvarpið njóti þess að vera í mjúkum og hlýjum faðmi stjórnmálamanna. Meirihluti Alþingis hefur ekki áhuga á að breyta leikreglunum en virðist einhuga í að koma fremur upp flóknu styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla, sem verða um leið háðir ríkisvaldinu.
Mótsögnin um sjálfstæða fjölmiðla og ríkisstyrktan rekstur þeirra samkvæmt ákvörðunum opinberra úthlutunarnefnda og stofnana, blasir við en veldur fáum áhyggjum. Þó er fátt hættulegra fyrir frjálsa fjölmiðlun en að verða háð opinberum styrkjum og nefndum. Ríkisstyrkir verða hægt og bítandi ópíum fjölmiðlunga. Fjölmiðlun sem er háð ríkisvaldinu með beinum fjárhagslegum hætti telst varla frjáls nema í orði.
Skilvirk leið er lækkun skatta
Í desember á liðnu ári lagði ég fram frumvarp ásamt þremur öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins (Brynjari Níelssyni, Vilhjálmi Árnasyni og Jóni Gunnarssyni) um afnám tryggingagjalds á einkarekna fjölmiðla, upp að ákveðnu hámarki. Tilgangur frumvarpsins er að bæta rekstrarstöðu fyrirtækjanna og jafna stöðuna gagnvart ríkisreknum fjölmiðli með gagnsæjum hætti þar sem jafnræði skattkerfisins er tryggt. Frumvarpið náði ekki fram að ganga og komst raunar ekki á dagskrá þingsins, af ástæðum sem hljóta að vekja athygli.
Í greinargerð frumvarpsins er vitnað til skýrslu nefndar frá janúar 2018 til mennta- og menningarmálaráðherra þar sem bent var á hvaða ástæður byggju að baki erfiðu rekstrarumhverfi; samkeppni einkarekinna fjölmiðla við Ríkisútvarpið, samkeppni við erlenda fjölmiðla og flutningur auglýsinga úr hefðbundnum fjölmiðlum yfir á veraldarvefinn, svo sem Google og Facebook. Í skýrslunni er varað við því að áframhaldandi veiking fjölmiðla hafi neikvæð lýðræðisleg og menningarleg áhrif í samfélaginu.
Frumvarpið var lagt fram með þeim rökstuðningi að skilvirkasta leiðin til að styrkja rekstrarumhverfi fjölmiðla sé lækkun skatta. Í greinargerð sagði meðal annars: „Samræmdar og gegnsæjar skattaívilnanir tryggja að allir einkareknir fjölmiðlar sitji við sama borð og fái hlutfallslega sömu ívilnun. Það er gert með því að fella tryggingagjaldið niður, upp að vissu hámarki, en með því næst hlutfallslega sama lækkun á hvern fjölmiðil miðað við launakostnað og er skattaívilnunin þannig byggð á rekstri einstakra fjölmiðla.
Samkvæmt frumvarpinu verður því ekki þörf á að opinber nefnd meti hvort umsókn fjölmiðils fullnægi tilteknum skilyrðum heldur yrði skattkerfið sniðið að rekstrarformi hvers og eins fjölmiðils án þess að til kostnaðar stofnist af hálfu ríkis og fjölmiðils við úthlutun fjármuna.“
Það skal viðurkennt að sértækar skattalegar aðgerðir (ívilnun) í takt við þær sem lagðar eru til í frumvarpi okkar félaga, er ekki besta lausnin á þeim vanda sem glímt er við. Skynsamlegast er auðvitað að breyta leikreglunum á fjölmiðlamarkaði, gera samkeppnina sanngjarnari og heilbrigðari. En fyrir þeirri lausn er ekki pólitískur stuðningur.
Litla fréttin í Mogganum er áminning um alvarlega brenglun og óréttlæti á fjölmiðlamarkaði. Þess vegna er nauðsynlegt að leggja frumvarpið aftur fram á nýju þingi á komandi vetri í þeirri von að það fái efnislega umfjöllun þingsins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. júlí 2020.