Þráhyggja og samsæri
'}}

Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður:

Fátt er jafn óhollt nokkru samfélagi og það að ráðamenn verði haldnir þráhyggju og stjórn samfélagsins grundvallist á samsæriskenningum. Algengustu samsæriskenningar íslenskra ráðamanna og jafnframt um íslenska ráðamenn eru um landráð og að ætla ráðamönnum að þeir muni framselja íslenska hagsmuni til útlendinga, eftir atvikum erlendra ríkja, ríkjasambanda eða erlendra fyrirtækja. 

Þráhyggjumenn

Þannig segja þráhyggjumenn að aðild Íslands að alþjóðastofnunum sé framsal á íslenskum hagsmunum undir »yfirþjóðlegt« vald. Þá eru viðskiptasamningar, sem íslensk ríkisfyrirtæki og eftir atvikum Landsvirkjun gera, svik við íslenska hagsmuni þar sem gagnaðilinn kann að hagnast á samningunum og „hagnaðurinn“ af framleiðslunni endi í „útlöndum“. Einu gildir þótt hagnaður Landsvirkjunar sé ásættanlegur, að teknu tilliti til áhættu, sem er eins vel afmörkuð og hugsanlegt er í samningum. Sú hagfræði brjóstvitsins er býsna algeng að ef einn hagnast í viðskiptum þá hljóti annar að tapa.

Öll viðskipti grundvallast á gagnkvæmum hagnaði, nema viðskipti í neyð. Neyð er enginn kaupmaður. Sama á við um alþjóðasamninga, þar er markmið samningsaðila að undirgangast skyldur til þess að öðlast ábata. Ábatinn er meiri en kostnaðurinn af skyldunum. Til þess að svo megi verða þarf samningurinn að virka án yfirgangs eins eða samningsaðila. Úrlausn ágreiningsefna hlýtur ávallt að verða fyrir sameiginlegum dómstól, sem hefur það að markmiði að viðkomandi alþjóðasamningur virki eins og honum er ætlað. 

Samsæri Alþingis

Alla síðustu öld voru brigsl um að Alþingi og ráðamenn sætu á svikráðum við þjóðina. Þannig voru fyrstu 20 ár síðustu aldar eilíf brigsl um svik og undanlátsemi við Dani og danskan kóng. Hver var staða ráðherra Íslands gagnvart danska ríkisráðinu og konungsvaldinu? Síðasti ráðherra Íslands sagði þessa deilu vera »formfræðilega«, hvað sem það þýðir nú, öld síðar.

Öll stjórnmál frá heimastjórn til fullveldis eru mér óskiljanleg, nú öld síðar. Ég hef leitað eftir því á hvern veg ráðamenn hugðu að heimastjórn og á hvern veg fullveldi ætti að virka í atvinnulegu tilliti. Á hverju átti þessi deilugjarna þjóð að lifa að fengnu „sjálfstæði“? Sjálfsánægja einstakra ráðmanna var á kostnað þeirra er veittu þeim umboð. Sjálfstæði er að sjálfsögðu innantómt hjal þegar atvinnulíf virkar ekki til að gera þegnana fjárhagslega sjálfstæða. 

Forsetakosningar og málskotsréttur

Í forsetakosningum eru frambjóðendur spurðir rækilega um afstöðu þeirra til málskotsréttar forseta samkvæmt íslensku stjórnarskránni. Ummæli einstakra frambjóðenda verða gjarnan yfirboð á umælum annarra frambjóðenda, án þess þó að fyrirspyrjandi, eftir atvikum fréttamaður, átti sig á þeirri atburðarás, sem upp kann að koma ef svör frambjóðandans ganga eftir.

Svör einstakra frambjóðenda verða helst túlkuð á þann veg að í landinu eigi að verða tvær ríkisstjórnir, önnur fjölskipuð í skjóli einhvers meirihluta 63 kjörinna þingmanna, og hin sem skipuð er einum forseta sem kann að sitja með vald 63 alþingismanna á einni hendi. Það þarf ekki einu sinn atbeina forseta til að mynda ríkisstjórn. Forystumenn stjórnmálaflokka geta leyst vandamál stjórnarmyndunar sín á milli, að teknu tilliti til þingræðisreglu. Og tilkynnt forseta niðurstöðu sína.

Á sama hátt kannar forseti hvort lagasetning hafi verið rétt, að stjórnskipulegum hætti. Forseti kann að staldra við, ef hann telur að efni laga sé »svívirðilegt að almannaáliti«, svo sem lögleiðing dauðarefsinga.

Nú er það auðvitað svo að í landi hér situr ein ríkisstjórn í umboði meirihluta kjörinna alþingismanna. Það heitir þingræðisregla en hún er hvergi skráð. En þingræðisreglan skal virt, enda er hún að eðli í samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins. 

Fiskveiðar og orka

Útfærsla fiskveiðalögsögunnar úr þremur sjómílum í 200 sjómílur endaði með úthlutun aflaheimilda á grundvelli manntals árið 1984. Þeir, sem stunduðu fiskveiðar í sínu nafni á því ári, fengu rétt til fiskveiða á komandi árum og gátu framselt þann rétt. Vilji Alþingis á hverjum tíma getur breytt þessari úthlutun. Þar var úthlutunin innanlands og því ekki um föðurlandssvik að ræða.

Langavitleysa síðasta árs á Alþingi fjallaði um orkumál. Umræða um orkumál fór langt umfram það sem nokkur maður skyldi. Einföld atriði, eins og það að Orkustofnun voru færðar valdheimildir til neytendaverndar, urðu að föðurlandssvikum og að „kröfu um að Landsvirkjun“  yrði seld, og að hugsanlegur kaupandi yrði fjármálaráðherra eða skyldmenni hans.

Og svo „vofir yfir“ „fjórði orkupakkinn“. Efni hans fjallar um:

  1. Orkunýtingu
  2. Að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í raforkuframleiðslu og raforkunotkun.
  3. Samræmdar aðgerðir milli aðildarríkja til að ná markmiðum Parísarsáttmálans.
  4. Aukin réttindi raforkunotenda t.d. við eigin raforkuframleiðslu og aukið gegnsæi við innheimtu vegna raforkunotkunar.
  5. Notkun snjalllausna á raforkumarkaði til að auka öryggi raforkuafhendingar.

Hvar er voveiflegt ágreiningsefni í þessum þáttum? Hver eru landráðin? Hví á forsetaefni og síðar forseti ef forsetaefnið hlýtur kjör, að leggja til að innleiðing þessara þátta í íslenska löggjöf verði tilefni til þjóðaratkvæðagreiðslu?

Alþingismenn, aular og vanþekking

Með svona rugli verða þjóðaratkvæðagreiðslur marklausar. Jafnframt er verið að gefa í skyn að alþingismenn séu aular. Kann að vera að einhverjir séu það en alls ekki í sama mæli og forsetaframbjóðendur, sem tjá sig um skapandi stjórnskipunarrétt.

Það kann að vera að umræða um orkumál grundvallist á vanþekkingu og að ákveðnir stjórnmálamenn vilji viðhalda vanþekkingu. Vanþekking eykur alls ekki hagsæld.

Fullyrðingar forsetaframbjóðanda um að laun kjörinna fulltrúa og dómara hafi hækkað úr hófi fram eru rangar. Launabreytingar eru í fullu samræmi við aðrar launabreytingar í landinu. Röngum fullyrðingum og falsfréttum er ætlað að auka trúverðugleika samsæriskenninga.

Samsæri og úrslit

Úrslit forsetakosninga urðu í öfugu hlutfalli við umræðuefni. 90% af umræðu í aðdraganda kosninga fóru í málskotsrétt og ímyndað neitunarvald. Yfir 90% þeirra sem greiddu atkvæði og tóku afstöðu höfnuðu ruglinu.

Oft er reynt að sanna orð umboðsmanns biskups; „Við íslendingar erum períferískir menn og sjáum aldrei það sem er sentralt í hlutum“. Þráhyggju tókst það ekki í þessum forsetakosningum. Það er ekkert samsæri til að berjast gegn.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. júlí 2020.