„Það er sannarlega rétt að það er oft og tíðum það besta sem við gerum að taka utan um fólk frekar en að refsa því. Það verður samt sem áður að vera eitthvað samhengi í okkar aðgerðum bæði í refsi- og réttarvörslukerfinu og síðan þarf það að spila saman við heilbrigðiskerfið. Það er mín skoðun,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra í Bítinu á Bylgjunni í gærmorgun um afstöðu sína til frumvarps Pírata o.fl. um afnám refsinga fyrir vörslu neysluskammta fíkniefna sem felld var á lokadegi þings fyrir sumarhlé.
Bjarni sagði tillöguna hafa mátt vera meira í samhengi við aðrar aðgerðir og að tillagan hefði þurft að koma innan úr stjórnkerfinu þar sem málið hefði verið betur undirbúið.
Hann kvaðst þó í prinsippinu sammála frumvarpinu, sem í raun ætti sér rætur í skýrslu sem Kristján Þór Júlíusson lét gera á sínum tíma sem heilbrigðisráðherra.
„Við erum komin með sannanir þess að í sumum tilvikum er okkar aðferðarfræði við að taka á svona málum ekki að skila þeim árangri sem við vorum að vonast til. Þetta eru flókin mál og þegar að menn draga úr refsingum fyrir að vera með ólögleg fíkniefni er stutt í að menn reyni að nýta sér einhverjar glufur þegar efnið verður „löglegt“ við einhverjar tilteknar aðstæður. Í lagi að vera með það á sér en bannað að selja það, bannað að flytja til landsins. Þetta eru ofboðslega viðkvæm mál en við vorum þeirrar skoðunar að það þyrfti að vanda mjög vel til verks ef menn ætluðu að hreyfa eitthvað við þessu,“ sagði Bjarni.
Hér má finna viðtalið við Bjarna í heild sinni á Bylgjunni.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinar segir: „Snúa þarf af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna en styrkja aðgerðir gegn fíkniefnasölum, innflutningi og framleiðslu fíkniefna. Tryggja þarf fíklum viðunandi meðferðarúrræði með samvinnu dóms-, félags- og heilbrigðiskerfis.”
Dómsmálaráðherra mun halda vinnunni áfram
Í atkvæðaskýringu við málið í þinginu sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra að hún væri sammála markmiðum frumvarpsins, rétt væri að hjálpa fólki úr fíkniefnaneyslu og reyna að draga úr henni með fræðslu og forvörnum.
„Ég er hjartanlega sammála flutningsmönnum frumvarpsins um að núverandi kerfi hefur gengið sér til húðar og rétt er að nálgast fíkniefnavandann fremur sem heilbrigðisvandamál,“ sagði Áslaug Arna.
Hún benti á að frumvarpið hvíldi að mestu leyti á tillögum í skýrslu Kristján Þórs Júlíussonar þáverandi heilbrigðisráðherra um afnám fangelsisrefsinga fyrir vörslu á neysluskömmtum.
„Við höfum stigið mörg skref í átt að þeirri niðurstöðu sem birtist í skýrslunni. Þar má nefna breytingar á sakavottorðum, lögfestingu heimildar til að starfrækja neyslurými, aðgengi að hreinum sprautubúnaði og eflingu rannsókna- og forvarnastarfs. Og við erum hvergi nærri hætt. Ég mun halda áfram þeirri vinnu sem snýr að mér í dómsmálaráðuneytinu,“ sagði Áslaug.
Loks sagði hún: „Ég tek undir það sem fram hefur komið hér, að umræðan hefur þroskast mjög hratt. En það er erfitt að segja að frumvarpið sjálft sé orðið fullþroskað. Svona mál krefst mikils undirbúnings og má nefna ýmis dæmi um það sem upp á vantar. Eitt er t.d. að refsiréttarnefnd var ekki gefið tækifæri til að skila inn umsögn, en hlutverk hennar er einmitt að fylgjast með þróun á sviði refsiréttar.“