„Þetta er því liður í að einfalda líf fólks“

„Stafræn ökuskírteini eru áþreifanlegt skref í þá átt að gera þjónustu hins opinbera stafræna og aðgengilega. Flestir eru með símann á sér öllum stundum, en margir þekkja það að plastið gleymist. Þetta er því liður í að einfalda líf fólks, en það er eitt markmiða okkar með öllum þeim breytingum sem við erum nú að gera á opinberri þjónustu gegnum Stafrænt Ísland, verkefnastofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra í tilefni af því að frá og með deginum í dag er hægt að nálgast stafræn ökuskírteini á upplýsingaveitunni island.is með því að nota rafræn skilríki.

Hann og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra voru á meðal þeirra opnuðu fyrirmlega fyrir aðgang að nýju skírteinunum.

„Tilkoma stafrænna ökuskírteina var eitt af þeim málum sem ég hafði mikinn áhuga á að koma í gagnið strax og ég mætti í ráðuneytið. Það er því afar ánægjulegt að sjá það verða að veruleika.“ sagði Áslaug Arna við tímamótin.

Innleiðingin var samstarfsverkefni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, sem ber ábyrgð á umferðarlöggjöf og reglum um ökuskírteini, og dómsmálaráðuneytis, sem fer með málefni ríkislögreglustjóra og sýslumanna. Ríkislögreglustjóri gefur út stafræn ökuskírteini en sýslumenn gefa út hefðbundin prentuð ökuskírteini í umboði ríkislögreglustjóra.

Ökuskírteini eru almennt viðurkennd gagnkvæmt milli EES ríkja en það gildir ekki um stafræn ökuskírteini, þar sem þau uppfylla ekki kröfur Evróputilskipunar um ökuskírteini. Þau verða aðeins gild á Íslandi fyrst um sinn.

Fjallað er um málið á vef Stjórnarráðsins og þar má einnig finna ítarlegar upplýsingar um hvernig hægt sé að nálgast skírteinið – sjá hér.