Evrópureglur telja rafbílana ekki með
'}}

Sigríður Andersen formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Um 10% ís­lenska öku­tækja­flot­ans telj­ast nú ganga fyr­ir raf­orku eða met­ani að hluta eða öllu leyti. Miðað við þróun síðustu miss­era í inn­flutn­ingi raf­bíla mun hlut­ur þeirra áfram aukast jafnt og þétt.

Und­an­far­inn ára­tug hafa verið leidd­ar í lög hér á landi regl­ur ESB um orku­notk­un og los­un gróður­húsaloft­teg­unda vegna bílaum­ferðar.

Þess­ar regl­ur eru auðvitað fyrst og fremst mótaðar af ástand­inu í ESB þar sem hlut­ur end­ur­nýj­an­legr­ar orku er mjög lít­ill. Aðeins um 17% orku­notk­un­ar ESB-land­anna er annað með end­ur­nýj­an­legri orku og þar af er drjúg­ur hluti frá óhrein­um bruna á líf­massa eins og timbri.

Þess­ar regl­ur ESB eru því ekki hugsaðar út frá aðstæðum á Íslandi þar sem um 80% orku­notk­un­ar er mætt með end­ur­nýj­an­legri orku og raf­orka er nán­ast öll fram­leidd með end­ur­nýj­an­leg­um hætti.

Inn­leiðing án inn­stungu

Lög nr. 40/​2013 kveða á um að 5% orku­gjafa í sam­göng­um skuli vera end­ur­nýj­an­leg. Reglu­gerð 960/​2016 kveður jafn­framt á um 6% minnk­un á los­un gróður­húsaloft­teg­unda frá sam­göng­um og vinnu­vél­um. Bæði lög­in og reglu­gerðin voru sett til inn­leiðing­ar á regl­um ESB.

Þess­ar regl­ur eru þannig úr garði gerðar að raf­bíla­væðing­in hér á landi er einskis met­in. Raf­bíl­arn­ir eru hrein­lega ekki tald­ir með þótt hlut­ur þeirri mæti nú kröf­unni um 5% hlut end­ur­nýj­an­legr­ar orku og sé kom­inn vel áleiðis með að mæta kröf­unni um 6% sam­drátt í los­un gróður­húsaloft­teg­unda sem tek­ur gildi í lok þessa árs.

Ástæðan fyr­ir þessu er að ESB-regl­urn­ar taka mið af ein­stök­um selj­end­um orku á bíla en ekki ástand­inu eða þró­un­inni í heild sinni. Þær telja ekki með bíla sem hlaðnir eru orku við heima­hús eða vinnustaði. Jafn­vel þótt meiri­hluti ís­lenska bíla­flot­ans gengi fyr­ir end­ur­nýj­an­legri ís­lenskri raf­orku myndu Íslend­ing­ar ekki telj­ast bún­ir að upp­fylla kröf­ur ESB um 5% end­ur­nýj­an­lega orku­gjafa í sam­göng­um eða 6% sam­drátt gróður­húsaloft­teg­unda!

Að óbreytt­um lög­um mun engu skipta hve raf­bíl­ar verða stór hluti af bíla­flot­an­um. Íslend­ing­ar munu áfram þurfa að kaupa dýrt og orkusnautt lí­feldsneyti til íblönd­un­ar í bens­ín og dísi­lol­íu til að upp­fylla evr­ópsku regl­urn­ar sem við erum þó í raun að upp­fylla með öðrum hætti. Millj­arðar króna hafa runnið úr landi af þess­um sök­um und­an­far­in ár.

Yfir 7 millj­arða kostnaður

Í svari fjár­málaráðherra við fyr­ir­spurn minni um kostnað rík­is­sjóðs af þess­ari meðgjöf með lí­feldsneyt­inu árið 2015 kom fram að hann væri um 1,2 millj­arðar það ár. Miðað við fjórðungs aukn­ingu í eldsneyt­is­sölu frá 2015 og 15% hækk­un á krónu­tölu meðgjaf­ar má gera ráð fyr­ir að kostnaður rík­is­sjóðs á síðasta ári hafi verið um 1,7 millj­arðar króna. Alls gæti rík­is­sjóður því hafa sent er­lend­um fram­leiðend­um lí­feldsneyt­is yfir 7 millj­arða króna á síðustu fimm árum.

En ár­ang­ur­inn?

Í nýrri 170 síðna aðgerðaáætl­un Íslands í lofts­lags­mál­um er hvorki minnst á þess­ar regl­ur, hrika­leg­an kostnaðinn sem þeim fylg­ir né hver ávinn­ing­ur­inn í lofts­lags­mál­um gæti verið. Þing­menn vinstri flokk­anna sem inn­leiddu ESB-regl­urn­ar um íblönd­un­ina árið 2013 hafa hins veg­ar svarað spurn­ing­unni um ár­ang­ur­inn fyr­ir sitt leyti með ný­legri til­lögu á þingi um að íblönd­un pálma­ol­íu í eldsneyti verði bönnuð. Íblönd­un­ina telja þeir nú hafa aukið los­un gróður­húsaloft­teg­unda, valdið stór­kost­legri loft­meng­un í Asíu, auk þess að stuðla að eyðingu regn­skóga, ógna líf­fræðilegri fjöl­breytni og ýta und­ir vinnuþrælk­un og illa meðferð á kon­um og börn­um.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. júní 2020.