Egill Þór Jónsson borgarfulltrúi:
Fyrir ári lagði undirritaður fram tillögu í aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks í Reykjavík þess efnis að mótuð yrði umgjörð um skráningar undanþágubeiðna og veittar undanþágur vegna aðgengis fatlaðs fólks. Þannig væri hægt hafa betri yfirsýn yfir þau húsakynni sem eru óaðgengileg fyrir hreyfihamlaða. Tillagan hlaut einróma samþykki í nefndinni.
Í gegnum tíðina hefur verið ómögulegt að sækja upplýsingar um skráðar undanþágur sem borgin hefur veitt, á hvaða forsendum þær eru gefnar út og hvaða vinnureglur gilda um störf byggingarfulltrúa sem fer með þessi mál. Því var fyrirspurn lögð fram til byggingarfulltrúans í Reykjavík. Svörin sem fengust gáfu til kynna að ekkert eftirlit væri haft með veitingu undanþága en í svarinu stóð orðrétt: „Vegna alls þessa fjölda mála yrði það mjög tímafrek vinna að fara í gegnum öll skjöl og finna út úr því sérstaklega hvar gefin hefur verið undanþága, en erindi og samþykktir þar sem þannig háttar eru ekki skráð sérstaklega í gagnagrunn embættis byggingarfulltrúa.“ Svörin við fyrirspurninni gáfu því fullt tilefni til þess að setja málið á dagskrá.
Hvað svo?
Þrátt fyrir einróma samþykki tillögunnar fyrir ári hefur engin breyting orðið á skráningu undanþága hjá borginni, hvorki á undanþágubeiðnum né undanþáguveitingum. Eðlilegt er að velta því fyrir sér hver sé raunverulega ástæðan fyrir því. Er áhugi borgaryfirvalda ekki nægilega mikill til þess að bæta utanumhald og skráningar? Þurfa málefni fatlaðs fólks alltaf að mæta afgangi?
Sjálfsögð mannréttindi
Án tölulegra upplýsinga er ekki hægt að fá heildarsýn yfir þann fjölda undanþága sem veittur er. Á meðan ekki er haldið utan um fjölda undanþáguveitinga vegna aðgengismála er staðan því óljós. Aðgengi fatlaðra eru sjálfsögð mannréttindi en án eftirlits er vel hægt að spyrja sig hvort verið sé að gefa afslátt af mannréttindum fatlaðs fólks.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks tók gildi á Íslandi í september 2016. Þar er kveðið á um aðgengismál og segir meðal annars í 9. grein samningsins að gera þurfi „...viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang, til jafns við aðra, að hinu efnislega umhverfi...“
Mælanleg markmið
Sveitarfélögin fara með skipulagsvaldið í landinu. Þannig eru aðgengismál nær alltaf á ábyrgð þeirra. Mikilvægt er að halda vel utan um alla málaflokka sem tengjast réttindabaráttu fatlaðs fólks. Hlutverk aðgengisnefndarinnar er meðal annars að fara með stefnumarkandi hlutverk fyrir önnur fagráð borgarinnar í tengslum við aðgengismál og málaflokk fatlaðs fólks. Ásamt því að fara með eftirlit með aðgengismálum í borgarlandinu.
Það er með öllu ólíðandi að ekki sé haldið utan um þessi gögn hjá borginni. Áríðandi er að setja fram mælanleg markmið sem færa okkur nær því að þróa Reykjavíkurborg í átt til betri vegar í aðgengismálum. Við verðum að gera betur og bæta verklag.
Reykjavíkurborg biður Alþingi að skerða rétt fatlaðra
Þrátt fyrir áralanga baráttu fyrir bættri umgjörð utan um aðgengismál vill Reykjavíkurborg banna akstur P-merktra bíla á göngugötum. Áralöng barátta fatlaðs fólks fyrir því að geta keyrt P-merkta bíla skilaði loks árangri þegar nýju umferðarlögin tóku gildi í byrjun árs 2020. Þar segir: „Umferð vélknúinna ökutækja um göngugötu er óheimil. Þó er umferð vélknúinna ökutækja akstursþjónustu fatlaðra, handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða ... heimil...“ Á fundi skipulags- og samgönguráðs hinn 3. júní 2020 var hins vegar lagt fram minnisblað Reykjavíkurborgar vegna umferðarlaganna þar sem Reykjavíkurborg óskar eftir því að það verði í höndum sveitarfélagsins hvort undanþágur verði veittar frá banni við að aka vélknúnum ökutækjum á göngugötu. Ef Alþingi verður við óskum Reykjavíkurborgar yrði strax í kjölfar skammvinns sigurs tekið skref aftur á bak í áralangri baráttu fatlaðs fólks fyrir bættu aðgengi.
Verði öll áform meirihluta borgarstjórnar um göngugötur að veruleika verður vegarkaflinn frá Hlemmi niður á Lækjartorg lokaður og gatan þar með gerð að einni lengstu göngugötu í Evrópu. Auðsýnt er að hætta á að aðgengi hreyfihamlaðra verður verulega skert í miðborg Reykjavíkur.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. júní 2020.