Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Fyrir Alþingi liggur frumvarp Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um breytingar á samkeppnislögum. Frumvarpinu er ekki síst ætlað að uppfylla loforð ríkisstjórnarinnar sem gefin voru í byrjun apríl á liðnu ári í tengslum við lífskjarasamningana. Ríkisstjórnin gaf fyrirheit um 45 aðgerðir til stuðnings lífskjarasamningunum. Flest hefur þegar komið til framkvæmda eða er í undirbúningi. Umfangsmestu aðgerðirnar snúa að heimilum og launafólki; tekjuskattur hefur verið lækkaður, barnabætur hækkaðar, óverðtryggð lán orðin að raunverulegum valkosti og félagslega húsnæðiskerfið hefur verið styrkt.
Í raun var aðeins tvennt í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, sem ætlað er að létta undir með fyrirtækjum og gera þeim betur kleift að standa undir lífskjarasamningunum:
- Úttekt á regluverki ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi í þeim tilgangi að draga úr samkeppnishindrunum og reglubyrði. OECD vinnur að sérstöku samkeppnismati en m.a. er „litið til þess að einfalda framkvæmd byggingarmála með það að leiðarljósi að stytta byggingartíma, draga úr kostnaði og bæta skilyrði fyrir virka samkeppni til hagsbóta fyrir atvinnulífið og neytendur“.
- Samkeppnislögin tekin til skoðunar með það að markmiði að einfalda framkvæmd þeirra og auka skilvirkni.
Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um endurskoðun samkeppnislaga sagði:
„Meðal annars verði skoðað hvort Samkeppniseftirlitið eigi að veita sérstakar undanþágur frá bannákvæðum laganna eða fyrirtækjum falið að meta sjálf hvort slík skilyrði séu til staðar. Þá verða veltumörk tilkynningarskyldra samruna endurskoðuð og horft til þess að hækka þau og einnig verða lagðar til breytingar á málsmeðferð samrunamála sem eru til þess fallnar að einfalda hana, m.a. með því að einfalda styttri samrunatilkynningar.“
Efnahags- og viðskiptanefnd hefur lokið umfjöllun um frumvarp til breytinga á samkeppnislögum. Meirihluti nefndarinnar leggur til nokkrar breytingar og telur rétt að Samkeppniseftirlitið hafi áfram heimild til íhlutunar án brots. Að öðru leyti er frumvarpið í samræmi við fyrirheit um ofangreindar breytingar á samkeppnislögunum.
Þegar þetta er skrifað er óvíst um afdrif frumvarpsins, en hluti stjórnarandstöðunnar leggst gegn framgangi þess og vill þar með koma í veg fyrir að staðið sé við gefin fyrirheit til stuðnings lífskjarasamningunum. Möguleikar minnihluta þings til að standa í vegi fyrir að vilji þingmeirihluta nái fram að ganga, eru nýttir til hins ýtrasta í samningaviðræðum um þinglok.
Fyrirtækin beri ábyrgð
Samkvæmt gildandi lögum getur Samkeppniseftirlitið veitt fyrirtækjum undanþágu gegn bannákvæðum samkeppnislaga enda sé stuðlað að bættri framleiðslu eða dreifingu á vöru eða þjónustu eða efli tæknilegar og efnahagslegar framfarir, veiti neytendum sanngjarna hlutdeild í ávinningi sem af þeim hlýst, leggi ekki höft á hlutaðeigandi fyrirtæki sem óþörf eru til að settum markmiðum verði náð og veiti fyrirtækjunum ekki færi á að koma í veg fyrir samkeppni að því er varðar verulegan hluta framleiðsluvaranna eða þjónustunnar sem um er að ræða.
Í fyrirliggjandi frumvarpi er lögð til sú breyting að fyrirtækin meti sjálf hvort skilyrði fyrir undanþágum séu uppfyllt. Þetta er í samræmi við reglur í öðrum ríkjum EES. Með þessu þurfa fyrirtækin sjálf að bera ábyrgð á að ekki sé gengið gegn samkeppnislögum að viðlagðri refsiábyrgð. Eftir sem áður getur Samkeppniseftirlitið gripið til aðgerða sé þess þörf. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins [SA] er bent á að með þessari breytingu minnki álag á Samkeppniseftirlitið „sem eykur líkur á hraðari og betri málsmeðferð í öðrum málum. Þegar breytingin átti sér stað í Evrópu varð gjörbreyting á skilvirkni samkeppniseftirlits í flestum Evrópuríkjum.“
Skilvirkni eftirlits skiptir mestu
Veltumörk fyrir tilkynningarskylda samruna fyrirtækja hafa verið óbreytt frá árinu 2008. Það segir sig því sjálft að eðlilegt er að hækka mörkin líkt gert er í frumvarpinu. Engin skynsamleg rök standa gegn þeirri hækkun. Þvert á móti verður svigrúm Samkeppniseftirlitsins til að sinna öðrum mikilvægum málaflokkum meira, málsmeðferðarhraði eykst og skilvirkni eftirlitsins verður meiri, s.s. að vinna gegn ólögmætu samráði og samkeppnishömlum.
Það er rétt sem SA benda á í umsögn sinni: „Skilvirkni í samkeppniseftirliti er grundvallaratriði til þess að ábati samkeppninnar skili sér til neytenda.“
Samkeppnislagafrumvarpið með þeim breytingum sem lagðar hafa verið til veikja í engu Samkeppniseftirlitið. Þvert á móti gefur það stofnuninni möguleika til að sinna öðrum mikilvægum verkefnum af krafti en um leið er dregið úr kostnaði fyrirtækja – þau verða samkeppnishæfari. Til að standa undir lífskjarasamningum verður að tryggja samkeppnishæfni atvinnulífsins og þar skiptir skilvirkt stjórnkerfi hins opinbera, ekki síst eftirlitsstofnana, miklu. Að þessu leyti er frumvarpið skref í rétta átt.
Ég hef oft áður bent á að síbreytileg og flóknari lög og reglur komi í veg fyrir að framtaksmenn geti haslað sér völl á mörkuðum þar sem stórir aðilar sitja fyrir á fleti. Í sinni verstu mynd kemur eftirlitsiðnaðurinn í veg fyrir samkeppni og verndar þá stóru. Oft finnur fákeppnin kjörlendi sitt hjá öflugum eftirlitsstofnunum. Með öðrum orðum: Samkeppnishindranir leynast ekki síst í flóknu regluverki.
Undir skipulagi frjálsra viðskipta er það borgarinn – neytandinn – sem hefur síðasta orðið. Hann verðlaunar og refsar. Frjáls borgari beinir viðskiptum sínum þangað sem hann fær góða þjónustu og vöru á sanngjörnu verði. Kaupmaðurinn kappkostar að uppfylla kröfur og væntingar viðskiptavina sinna því að öðrum kosti snúa þeir sér annað. Metnaðarlaus veitingamaður getur aldrei reiknað með að gestir snúi aftur ef hann nær ekki að uppfylla væntingar og kröfur.
Á hverjum einasta degi greiða borgararnir atkvæði og með því veita þeir viðskiptalífinu nauðsynlegt aðhald. Valfrelsi er forsenda samkeppninnar sem aftur leiðir til betri þjónustu, meiri gæðavöru og hagstæðara verðs. Ekkert opinbert eftirlit, reglur og lög koma í stað þessa aðhalds.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. júní 2020.