Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Hafi einhvern tíma verið þörf fyrir öflugt einkaframtak, – snjalla frumkvöðla, útsjónarsama sjálfstæða atvinnurekendur, einstaklinga sem eru tilbúnir til að setja allt sitt undir í atvinnurekstri til að skapa verðmæti og störf – þá er það núna og á komandi árum. Líkt og áður verður það einkaframtakið – viðskiptahagkerfið – sem leggur þyngstu lóðin á vogarskálar verðmætasköpunar. Án öflugs einkaframtaks tekst okkur ekki að komast út úr erfiðum efnahagsþrengingum, tryggja öflugt velferðarkerfi og góð lífskjör.
Þessi einföldu sannindi vefjast fyrir mörgum, ekki síst þeim stjórnmálamönnum sem telja það sér til framdráttar að ala á öfund og fjandskap í garð einkaframtaksins. Ónýtt tækifæri til að leggja steina í götu atvinnurekenda eru í hugum þeirra, sem líta árangur í rekstri hornauga, glötuð tækifæri.
Oft hefur andað köldu í garð atvinnurekenda frá ríkisvaldinu en líklega næðir hvergi meira um sjálfstæða atvinnurekandann en í höfuðborginni.
Varnarstríð
Kaupmenn hafa verið í stöðugu varnarstríði við borgaryfirvöld. Engu er líkara en að meirihluti borgarstjórnar leggi sérstakan metnað í að flæma alla verslun úr miðbænum. Skipulega hefur verið dregið úr umferð með þrengingum, lokunum og fækkun bílastæða. Aðgengi hefur verið heft og það kemur illa niður á viðskiptum í verslun og þjónustu. Léleg lýsing og umhirða gera ástandið verra. Sjónarmið kaupmanna eru hundsuð, lítið gert úr athugasemdum og ábendingum um hvað mætti betur fara til að styrkja verslun og þjónustu í miðbænum – gera hann líflegri og skemmtilegri.
Fyrir liðlega sex árum komu borgaryfirvöld í veg fyrir að einkafyrirtæki fengi leyfi til að safna lífrænum úrgangi frá heimilum. Engu skipti þótt Reykjavík sinnti ekki þessari „grunnþjónustu“ við borgarbúa og geri raunar ekki enn. (Hér verður harmsaga gas- og jarðgerðarstöðvar Sorpu ekki rakin). Íbúar Akureyrar og Dalvíkur hafa í mörg ár flokkað lífrænt sorp sem nýtt er til moltugerðar. Þá þjónustu veitir Gámaþjónustan í samstarfi við sveitarfélögin. Borgarráð hefur komið í veg fyrir að sama fyrirtæki geti boðið sína þjónustu í Reykjavík.
Nokkrum árum áður lagði Reykjavík til atlögu við Gámaþjónustuna, sem hafði boðið borgarbúum upp á Endurvinnslutunnuna.
Hernaður borgaryfirvalda gagnvart Fluggörðum á Reykjavíkurflugvelli hófst fyrir nokkrum árum og stendur enn. Flugskólar, flugklúbbar, fyrirtæki og einstaklingar eru innan Fluggarðanna sem eru hluti af þekkingarþorpi flugsins á Íslandi. Flugfélagið Ernir hefur átt í vök að verjast og nýlega var ráðist að fyrirtækinu þar sem henda átti eignarréttindum út í hafsauga. Sú tilraun mistókst – að minnsta kosti í bili.
Er furða þótt komist sé að þeirri niðurstöðu að einkaframtakið sé eins og fleinn í holdi meirihluta borgarstjórnar?
Forréttindi ríkisfyrirtækja
Því miður er ríkisvaldið oft mótdrægt einkarekstri, þó það sé ekki alltaf með sama skipulega hættinum og gerist í höfuðborginni. En dæmin eru fyrir hendi – sum verri en önnur. (Að þessu sinni eru ekki tök á því að fjalla um hvernig flóknar reglugerðir og íþyngjandi lagafyrirmæli gera fyrirtækjum erfitt fyrir ekki síst þeim sem minni eru. Hið sama á við um skatta- og gjaldumhverfið).
Ríkið hefur tryggt sér forréttindi á sviði smásöluverslunar. Með skatta- og tollleysi hafa yfirburðir Fríhafnarinnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar verið tryggðir, á kostnað kaupmanna og innlendra birgja (innflytjenda). Markaðsráðandi staða Fríhafnarinnar í snyrtivörum er ekki vegna þess að starfsmenn ríkisfyrirtækisins séu snjallari og betri kaupmenn en aðrir.
Í þessu sambandi er ágætt að halda til haga hvernig opinbera hlutafélagið Isavia kom fram við Kaffitár þegar því að bolað út úr Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þá opinberaðist vel sú leyndarhyggja sem hefur grafið um sig í opinberum hlutafélögum, sem eru í samkeppnisrekstri við einkaaðila. Annað ríkisfyrirtæki missteig sig alvarlega þegar það ruddist inn á prentmarkaðinn.
Opinber hlutafélög hafa jafnvel reynst opinberum eftirlitsaðilum erfið. Það tók Ríkisendurskoðun mörg ár að fá stjórnendur Ríkisútvarpsins ohf. til að fara eftir ákvæðum laga um fjárreiður ríkisins. Í tvö ár virti ríkisfyrirtækið skýr lagafyrirmæli um stofnun dótturfélags vegna samkeppnisrekstrar að vettugi.
Ekki má gleyma því hvernig ríkið hefur ákveðið að koma í veg fyrir eðlilega og sanngjarna samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Með skattheimtu á einkarekna fjölmiðla og milljarða forgjöf frá skattgreiðendum, er yfirburðastaða Ríkisútvarpsins geirnegld. Það sem meira er; Ríkisútvarpið nýtur einhverrar sérstakrar friðhelgi umfram allar aðrar ríkisstofnanir. Sjálfstæðum fjölmiðlum blæðir út og hugmyndin um að setja einkarekna fjölmiðla á ríkisstyrk fær byr undir báða vængi, enda segjast allir vilja veg frjálsrar fjölmiðlunar sem mestan.
Ronald Reagan, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hitti naglann á höfuðið þegar hann lýsti hugmyndum ríkisafskiptasinna:
„Ef það hreyfist, skattleggðu það. Ef það heldur áfram að hreyfast, settu lög. Ef það stoppar, settu það á ríkisstyrk.“
Velferðarsamfélag góðra lífskjara verður ekki byggt upp með slíkri hugmyndafræði. En það skiptir þá engu sem í hjarta sínu telja einkarekstur af hinu vonda.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. júní 2020.