Kórónuveiran og aðstoð við nemendur
'}}

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Nemendur á öllum skólastigum hafa orðið fyrir skertu skólastarfi vegna kórónuveirunnar.  Sú staðreynd bitnar ekki síst á nemendum sem eru að ljúka grunnskóla. Það er því áhyggjuefni  hvernig þeim  mun reiða af þegar þeir hefja framhaldsskólanám  í haust. Því þarf að bregðast við til að þeir  verði í betur stakk búnir til að takast á við krefjandi nám í framhaldsskólum. Þó skert  skólahald bitni á öllum nemendum hefur það komið einna mest niður á þeim nemendum  sem stóðu höllum fæti fyrir kórónufaraldurinn. Við því  þarf að bregðast með viðeigandi aðgerðum.

Því miður bólar ekkert á slíkri viðleitni. Þá hefur heldur ekkert verið hugað að því að koma til móts við þá nemendur sem eru að ljúka grunnskóla eftir örfáa daga. Til að styðja og efla þessa nemendur til að takast á við krefjandi framhaldsskólanám lagði ég fram tillögu í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar, þann  28. apríl sl., þess efnis að 10. bekkingum grunnskólans stæði til boða við skólaskilin að spreyta sig á framhaldsskólaáföngum  í fjarnámi í sumar sér að kostnaðarlausu.  Reykjavíkurborg myndi þá auk þess leita samninga við ríkið að greiða kostnað vegna þessara nemenda. Hér væri þá  enda um að ræða áfanga sem ríkið þyrfti hvort eð er að greiða þegar þessir nemendur hefja nám í framhaldsskóla. Þannig yrði þessum tíma vel varið fyrir fjölda nemenda sem hvort eð er fá ekki störf í sumar. 

Því miður er ekki að sjá að borgaryfirvöld hafi minnsta áhuga á greiða götu þessara nemenda. Það eitt að tillagan hafi ekki enn verið tekin fyrir lýsir best áhugaleysi  meirihlutans í borgarstjórn að koma til móts við nemendur í þessum efnum. Því beini ég því til mennta- og menningarmálaráðherra, að taka málið í sínar hendur og finna því farsæla lausn þar sem borgarstjórnarmeirihlutinn hefur ekki meiri áhuga á því en raun ber vitni.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 3. júní 2020.