Krafa um skýrar hugmyndir
'}}

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Víðtæk­ar aðgerðir stjórn­valda til að draga úr efna­hags­leg­um áhrif­um kór­ónu­veirunn­ar á heim­ili og fyr­ir­tæki hafa verið mögu­leg­ar vegna sterkr­ar stöðu rík­is­sjóðs. Þrátt fyr­ir stór­auk­in út­gjöld rík­is­ins á síðustu árum tókst að lækka skuld­ir sem eru og verða með því lægsta sem þekk­ist meðal ríkja OECD. Skyn­sam­leg stefna í rík­is­fjár­mál­um skilaði ár­angri.

Seðlabank­inn dreg­ur upp ágæta mynd af um­fangi aðgerðanna sem ætlað er að styðja við fyr­ir­tæki og launa­fólk, örva efna­hags­lífið um leið og skotið er nýj­um stoðum und­ir at­vinnu­lífið. Með skatta­leg­um aðgerðum, bein­um fjár­stuðningi, aukn­um fjár­fest­ing­um, um­fangs­mikl­um end­ur­greiðslum vegna rann­sókna og þró­un­ar til að efla ný­sköp­un, er um­fang ráðstaf­ana í rík­is­fjár­mál­um talið yfir 350 millj­arðar króna. Í Pen­inga­mál­um bank­ans kem­ur fram að þetta sam­svari 11,9% af vergri lands­fram­leiðslu síðasta árs. Sé aðeins horft til aðgerða sem fela í sér bein áhrif á af­komu rík­is­sjóðs er um­fangið um 4,2% af lands­fram­leiðslu sem er svipað og stjórn­völd í Nor­egi og Dan­mörku hafa kynnt.

500 millj­arða halli

Seðlabank­inn reikn­ar með að sam­drátt­ur efna­hags­lífs­ins á þessu ári geti orðið um 8%. Ræt­ist spá­in er efna­hags­sam­drátt­ur­inn sá mesti hér á landi frá ár­inu 1920. Af­leiðing­ar far­sótt­ar­inn­ar hefðu orðið mun al­var­legri fyr­ir heim­ili og fyr­ir­tæki ef ekki hefðu komið til um­fangs­mikl­ar aðgerðir á sviði rík­is­fjár­mála og pen­inga­mála en Seðlabank­inn hef­ur gripið til rót­tækra aðgerða á því sviði og aldrei hafa vext­ir bank­ans verið lægri.

Ekk­ert er án kostnaðar og lík­legt er að hall­inn á rík­is­sjóði verði yfir 300 millj­arðar króna á þessu ári. Á kom­andi ári má bú­ast við halla­rekstri, þótt efna­hags­lífið taki von­andi hressi­lega við sér líkt og flest­ir hag­fræðing­ar eru sam­mála um. Sam­an­lagður halli rík­is­sjóðs á þessu og næsta ári verður varla und­ir 500 millj­örðum króna, að óbreyttu.

Eins og við var að bú­ast eru marg­ir með ein­fald­ar lausn­ir á vand­an­um. Það á að fjölga rík­is­starfs­mönn­um og hækka skatta á ein­stak­linga og fyr­ir­tæki. Með öðrum orðum; auka á um­svif rík­is­ins og leggja þyngri byrðar á launa­fólk og fyr­ir­tæki. Vinnu­markaðsrann­sókn Hag­stof­unn­ar, sem birt var í síðustu viku, breyt­ir engu í hug­um þeirra sem berj­ast fyr­ir auk­inni rík­i­s­væðingu og telja að ríkið sé upp­spretta og end­ir allra verðmæta.

109 þúsund manns

Niður­stöður Hag­stof­unn­ar sýna hve al­var­leg áhrif kór­ónu­veir­an hef­ur haft á ís­lenskt at­vinnu­líf. Í apríl síðastliðnum voru rúm­lega 22 þúsund færri starf­andi á vinnu­markaði en í sama mánuði fyr­ir ári. Liðlega fimm þúsund fleiri voru án at­vinnu og þeim sem eru utan vinnu­markaðar fjölgaði um 17.500. Alls voru rúm­lega 62 þúsund utan vinnu­markaðar í apríl og nær 14 þúsund at­vinnu­laus­ir. Alls tæp­lega 76 þúsund manns.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um Vinnu­mála­stofn­un­ar voru í apríl um 33 þúsund í skertu starfs­hlut­falli í hluta­bóta­úr­ræðum. Þetta þýðir að um 109 þúsund manns voru ým­ist utan vinnu­markaðar, at­vinnu­laus­ir eða í hluta­bót­a­starfi. Þetta er um 42% af áætluðum mann­fjölda 17-74 ára. Til lengd­ar stend­ur eng­in þjóð und­ir því að vinnu­afl sé vannýtt með þess­um hætti.

Verk­efnið er því skýrt. Við þurf­um að fjölga störf­um – tryggja vinnu­fús­um hönd­um arðbær verk­efni. Þau verk­efni eru fyrst og síðast í viðskipta­hag­kerf­inu en ekki inn­an veggja rík­is­ins.

Á kom­andi mánuðum, miss­er­um og árum mark­ast átakalín­ur stjórn­mál­anna ekki síst af viðhorfi til frjáls viðskipta­lífs ann­ars veg­ar og auk­inn­ar rík­i­s­væðing­ar hins veg­ar. Al­veg með sama hætti og tek­ist verður á um hækk­un eða lækk­un skatta, auk­in rík­is­út­gjöld eða hagræðingu í rík­is­rekstri.

Það mun reyna á okk­ur sem höf­um staðið vörð um frjálsa sam­keppni, sjálf­stæða at­vinnu­rek­and­ann og frum­kvöðul­inn sem sæk­ir fram í krafti nýrra hug­mynda. Skipu­lega hef­ur verið grafið und­an viðskipta­líf­inu með því að tor­tryggja allt og alla – ala á öf­und í garð þeirra sem af dugnaði hafa byggt upp glæsi­leg fyr­ir­tæki. Í framtíðinni verður varðstaða okk­ar að verða harðari, skipu­lagðari og mark­viss­ari en nokkru sinni áður. Í ein­fald­leika sín­um eig­um við að taka okk­ur stöðu með verðmæta­sköp­un, fjölg­un starfa og bætt­um lífs­kjör­um.

Sér­stakt fagnaðarefni

Með sama hætti verðum við að hafa póli­tískt þrek til að standa gegn hug­mynd­um um auk­in rík­is­út­gjöld og hafa burði til að berj­ast fyr­ir hag­kvæm­ari nýt­ingu sam­eig­in­legra fjár­muna og eigna. Það verður fyrst og síðast gert með ný­sköp­un og nýrri hugs­un í op­in­ber­um rekstri, út­vist­un verk­efna og auknu sam­starfi hins op­in­bera og einkaaðila.

Þessu tengt. Skiln­ing­ur á nauðsyn þess að gæta hóf­semd­ar í álög­um á fyr­ir­tæki og ein­stak­linga er tak­markaður. Við sem telj­um nauðsyn­legt að koma bönd­um á skattagleði hins op­in­bera þurf­um auðvitað að draga fram staðreynd­ir. Halda því til haga að skatt­byrði á Íslandi, sem hlut­fall af vergri lands­fram­leiðslu, er sú þriðja þyngsta í Evr­ópu að teknu til­liti til líf­eyr­is- og al­manna­trygg­inga. En staðreynd­ir duga ekki, það þarf að setja þær í sam­hengi við lífs­kjör al­menn­ings. Við verðum að læra að setja skatt­heimtu og reglu­byrði í sam­hengi við sam­keppn­is­hæfni at­vinnu­lífs­ins, fjölda starfa og mögu­leika fyr­ir­tækja til að standa und­ir góðum laun­um og bætt­um lífs­kjör­um.

Í þeim efna­hags­legu þreng­ing­um sem við Íslend­ing­ar glím­um við, líkt og aðrar þjóðir, er fátt til að gleðjast yfir. En í erfiðleik­um leyn­ast oft tæki­færi eins og stjórn­völd hafa skynjað og því lagt aukna áherslu á stuðning við ný­sköp­un og fjöl­breytt­ara at­vinnu­líf. Áskor­an­ir kom­andi ára leiða einnig til þess að skarp­ari skil verða í stjórn­mál­um – krafa um skýr­ar hug­mynd­ir verður meiri. Fyr­ir tals­menn at­vinnu­lífs­ins, hóf­semd­ar í skatt­heimtu og tak­markaðra rík­is­af­skipta er það sér­stakt fagnaðarefni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. júní 2020.