Atlaga að sjálfstæði í skjóli faraldurs
'}}

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Komm­ún­ista­flokk­ur­inn í Kína hef­ur lagt til at­lögu gegn sjálf­stjórn Hong Kong. Þannig er brotið sam­komu­lag frá 1997 þegar Bret­ar af­hentu kín­versk­um stjórn­völd­um borg­ina. Sam­komu­lagið átti að tryggja sjálf­stjórn borg­ar­inn­ar – eitt land, tvö kerfi – Hong Kong réði og bæri ábyrgð á eig­in innri mál­um og ör­yggi.

Stjórn­völd í Pek­ing stefna að því að leiða í lög heim­ild til að blanda sér með bein­um hætti í sjálf­stjórn borg­ar­inn­ar. Til að standa vörð um þjóðarör­yggi verði ör­ygg­is­stofn­un­um kín­verskra stjórn­valda heim­ilað að starfa inn­an borg­ar­marka Hong Kong. Lög­gjöf­inni er ætlað að vinna gegn landráðum, aðskilnaðar­hyggju, upp­reisn­ar­áróðri, niðurrifs­starf­semi, hryðju­verk­um og af­skipt­um er­lendra afla af mál­um Hong Kong.

Á sunnu­dag hópuðust mót­mæl­end­ur út á göt­ur borg­ar­inn­ar. Þeim var mætt af hörku. Óeirðalög­regla beitti tára­gasi og vatns­byss­um gegn mót­mæl­end­um og hundruð voru hand­tek­in.

Hvað ótt­ast al­menn­ing­ur í Hong Kong?

Efna­hags­leg vel­gengni

Örygg­is­lög­in heim­ila að fólki verði refsað fyr­ir það eitt að gagn­rýna kín­versk stjórn­völd líkt og gert er á meg­in­landi Kína. Lýðræðissinn­ar ótt­ast að mál­frelsi verði skert og rétt­ur til mót­mæla einnig. Í Kína er litið á gagn­rýni, mál­frelsi og mót­mæli sem niðurrif. Ákall þeirra sem vilja verja sjálf­stjórn borg­ar­inn­ar um stuðning annarra landa verður glæp­sam­legt at­hæfi og talið landráð. Ótt­ast er að sjálf­stætt dóms­kerfi, sem bygg­ist á engilsax­nesk­um hefðum og sterk­um eign­ar­rétti heyri sög­unni til.

Opið sjálf­stætt dóms­kerfi, viðskiptafrelsi og mál­frelsi hafa verið horn­stein­ar þeirr­ar efna­hags­legu vel­gengni sem Hong Kong hef­ur notið á und­an­förn­um árum. Að mati Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins var þjóðarfram­leiðsla á mann í Hong Kong sú þrett­ánda mesta í heim­in­um á síðasta ári – langt fyr­ir ofan Kína sem var í 65. sæti. Þjóðarfram­leiðslan var nær fimm sinn­um meiri á hvern íbúa í Hong Kong en í Kína.

Fyrri til­raun­um ráðamanna í Pek­ing til að koma á sér­stakri ör­ygg­is­lög­gjöf hef­ur verið mætt af fullri hörku. Árið 2013 fóru lýðræðissinn­ar í fjölda­mót­mæli um göt­ur borg­ar­inn­ar og 2014 sam­einuðust mót­mæl­end­ur und­ir regn­hlíf­um. Nær allt síðasta ár var öll­um til­raun­um stjórn­valda í Pek­ing um að herða tök­in á Hong Kong mót­mælt. Kveikj­an að mót­mæl­un­um á síðasta ári var laga­frum­varp þar sem heim­ilað var að fram­selja grunaða saka­menn til Kína. Þrátt fyr­ir að frum­varpið væri dregið til baka héldu mót­mæl­in áfram þar sem kraf­ist var auk­ins sjálf­stæðis borg­ar­inn­ar.

Björn Bjarna­son seg­ir í ný­legri dag­bókar­færslu að mót­mæl­in hafi verið „fleinn í holdi ein­ræðis­stjórn­ar komm­ún­ista á meg­in­land­inu“ og grafið „und­an sjálfs­ör­yggi henn­ar og stuðluðu að því að hert voru tök­in á kín­versku þjóðinni með ra­f­rænu eft­ir­liti og of­stjórn“.

Vel tíma­sett at­laga

Aðför kín­verska komm­ún­ista­flokks­ins að sjálf­stjórn Hong Kong er vel tíma­sett að þessu sinni. Lýðræðissinn­ar sem höfðu uppi öfl­ug mót­mæli allt síðasta ár eiga óhægt um vik vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. Þá virðist sem löng­un annarra landa til að standa með íbú­um borg­ar­inn­ar sé í besta falli tak­mörkuð.

Auðvitað munu ein­hver lýðræðis­ríki og ein­staka áhrifa­menn mót­mæla fram­ferði alræðis­stjórn­ar­inn­ar í Pek­ing. En það verður af veik­um mætti, frek­ar á kurt­eis­um diplóma­tísk­um nót­um. Mót­mæl­in og samstaðan með lýðræðisöfl­un­um í Hong Kong verða bit­laus og án sann­fær­ing­ar. Þetta vita ráðamenn í Pek­ing.

Það eru því meiri lík­ur en minni á að enn einu sinni verði hinn frjálsi heim­ur áhrifa­laus áhorf­andi þegar alræðis­stjórn legg­ur til at­lögu við frelsi. Valda­menn kín­verska komm­ún­ista­flokks­ins hafa sýnt og sannað að þeir beita full­kom­inni hörku gagn­vart eig­in borg­ur­um, telji þeir valdi sínu ógnað. Árið sem komm­ún­ism­inn riðaði til falls í Evr­ópu, beitti kín­verska valdaklík­an full­kom­inni hörku gagn­vart al­menn­ingi og heim­ur­inn stóð á önd­inni. Á Torgi hins him­neska friðar í Pek­ing voru mót­mæli, und­ir for­ystu stúd­enta, brot­in á bak aft­ur með hervaldi árið 1989. Þúsund­ir lágu í valn­um og fjöldi var hand­tek­inn. Líkt og alltaf þegar alræðis­stjórn­ir verja völd­in var í kjöl­farið gripið til hreins­ana, emb­ætt­is­mönn­um var vikið úr starfi, er­lend­um blaðamönn­um vísað úr landi, rit­skoðun hert og ör­ygg­is­lög­regl­an styrkt.

Efna­hags­leg­ir hags­mun­ir ráða

Ekk­ert land hef­ur hernaðarburði eða póli­tísk­an vilja til að verja frelsi íbúa Hong Kong. Í efna­hags­leg­um þreng­ing­um er lít­ill vilji til að grípa til viðskiptaþving­ana gagn­vart efna­hags­legu stór­veldi. Kín­verski komm­ún­ista­flokk­ur­inn hef­ur hins veg­ar beitt efna­hags­leg­um hót­un­um til að tryggja póli­tíska og efna­hags­lega hags­muni. Evr­ópu­sam­bandið hef­ur þannig látið und­an og rit­skoðað eig­in skýrsl­ur til að styggja ekki alræðis­stjórn. Til þess er Kína of mik­il­vægt efna­hags­lega.

Sag­an geym­ir of mörg dæmi um hvernig frelsi og al­menn­um mann­rétt­ind­um er fórnað þegar efna­hags­leg­ir hags­mun­ir ráða för.

Vest­ur­lönd hafa verið ófær í 70 ár að tryggja sjálf­stæði Tíbet frá vald­höf­um í Pek­ing. Því miður bend­ir allt til þess að íbú­ar Hong Kong geti aðeins treyst á sjálfa sig, líkt og flest­ar aðrar smáþjóðir sem berj­ast gegn kúg­un alræðis­hyggj­unn­ar. Og það er barna­skap­ur að ætla að stjórn­ar­herr­arn­ir í Pek­ing láti sér nægja að koma hlekkj­um á íbúa Hong Kong.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. maí 2020.