Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:
Margt má læra af undanliðnum misserum. Samfélagið hefur óhjákvæmilega tekið breytingum. Áföllin krefjast viðbragða en tækifærin ekki síður. Á botni djúprar efnahagslægðar verða framfarir að eiga öfluga viðspyrnu – og framfaramál að eiga örugga áheyrn.
Árið 2019 má ætla að tæplega níu milljónum klukkustunda hafi verið sóað í umferðartafir innan höfuðborgarinnar. Umferðartafir á annatíma höfðu aukist um nærri 50% á örfáum árum. Þetta sýndu niðurstöður umferðarlíkans VSÓ og mælingar Vegagerðarinnar. Tafirnar samsvöruðu um 40 klukkustundum – eða heilli vinnuviku - á hvern höfuðborgarbúa árlega. Þennan vanda þarf að leysa.
Á tímum samkomubanns dró verulega úr umferðartöfum í Reykjavík. Vinnustaðir buðu sveigjanlegri vinnutíma, skólastofnanir hófu fjarkennslu og möguleikum til fjarvinnu fjölgaði. Mörgum urðu ljós þau gífurlegu tækifæri sem felast í auknum sveigjanleika fyrir fólk og fyrirtæki – ekki síst svo draga megi úr umferðarálagi.
Á sama tíma fylltust göngu- og hjólastígar borgarinnar af lífi. Talningar sýndu glöggt hve mjög vegfarendum fjölgaði milli ára. Hjólabúðir borgarinnar stóðu tómar, biðraðir náðu langt út úr dyrum og eftirspurn hafði aldrei verið meiri. Sannarlega jákvæð þróun.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ákvað nýverið að verja tveimur milljörðum sterlingspunda til uppbyggingar hjóla- og göngustíga í þéttbýliskjörnum. Eru áformin þungamiðjan í samgönguaðgerðum ráðherrans vegna COVID-19. Þannig hyggst ráðherrann draga úr umferðartöfum, stuðla að bættri lýðheilsu og tryggja viðeigandi fjarlægðarmörk milli fólks.
Undanliðin misseri hafa fært okkur augljósar lausnir á fjölþættum samgönguvanda. Nú er lag að hefja viðræður við stærstu vinnustaði borgarinnar um sveigjanlegri vinnutíma. Síðustu mánuðir hafa sýnt hve sveigjanleikinn getur létt á umferðarálagi. Aðgerðin er einföld og krefst einskis af skattgreiðendum í borginni. Jafnframt þarf að styðja áfram við gangandi og hjólandi í Reykjavík. Borgin þarf að efla stígakerfið og ráðast í stórsókn við uppbyggingu upphitaðra stíga. Það er hvoru tveggja hagkvæm og arðbær samgönguframkvæmd.
Það er mikilvægt að tryggja greiðar samgöngur fyrir alla – og frelsi og val um ólíka samgöngukosti. Einungis þannig náum við árangri.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. maí 2020.