Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Kórónuveiran hefur haft alvarleg áhrif á flestar þjóðir, ekki síst í Evrópu. Áhrifin eru misjafnlega alvarleg. Þótt sum lönd hafi mátt þola hærri dánartíðni vegna veirunnar en önnur hefur ekkert land sloppið við efnahagsleg áföll vegna lokana fyrirtækja og annarra ráðstafana sem stjórnvöld hafa talið sig þurfa að grípa til í baráttunni við að koma böndum á skæðan faraldur.
Mörgu er ósvarað um Covid-19 og faraldurinn og vísindamenn keppast við að finna bóluefni gegn veirunni. En eitt er víst: Efnahagslegu áhrifin eru hrikaleg, en leggjast líkt og veiran með misjöfnum þunga á þjóðir Evrópu. Og annað er líklegt: Efnahagsbatinn verður ójafn eftir löndum, ekki síst meðal evruríkja. Á meðan eitt ríki mun endurheimta efnahagslegan styrk á tiltölulega skömmum tíma mun annað ríki þurfa að glíma við stöðnun eða jafnvel samdrátt í mörg ár.
Evrulöndin glímdu við erfiðleika áður en faraldurinn skall á. Á fjórða ársfjórðungi liðins árs stóð efnahagslífið í stað – hagvöxtur 0,1% og því dróst landsframleiðsla á mann saman. Fyrsti fjórðungur þessa árs, áður en efnahagskreppan skall á af fullum þunga, var enn verri. Landsframleiðsla minnkaði um 3,8% í evrulöndum.
Ólíkur efnahagslegur veruleiki
Þær þrengingar sem riðið hafa yfir í kjölfar kórónufaraldursins hafa afhjúpað með skýrum hætti hve efnahagsleg staða evrulandanna er misjöfn. Í einfaldleika sínum má segja að löndin í norðri njóti velmegunar umfram þau í suðri.
Í norðri stendur atvinnulífið á fjölbreyttum stoðum, menntakerfið er sterkt, ríkisfjármál í föstum skorðum, skuldir viðráðanlegar og atvinnustig hátt. Í suðri er þessu öfugt farið. Skuldir ríkissjóða eru ósjálfbærar, atvinnuleysi (ekki síst meðal ungs fólks) landlægt og vöxtur landsframleiðslu lítill sem enginn.
Ójafnvægið milli evrulanda er efnahagslegt og pólitískt áhyggjuefni. Þau lönd sem verst stóðu fyrir faraldurinn eiga erfiðara með að ná sér aftur á strik; Ítalía og Spánn sérstaklega. Miklar skuldir hins opinbera draga úr möguleikum stjórnvalda til að grípa til aðgerða til að örva efnahaginn. Löndin ráða ekki yfir verkfærum á sviði peningamála – ríkisfjármálin eru í spennitreyju.
Staða Þjóðverja er allt önnur. Skuldir hins opinbera eru 60% af landsframleiðslu og ríkissjóður hefur verið rekinn með afgangi. Bolmagn þýska ríkisins til að grípa til örvunar efnahagslífsins er allt annað og meira en þjóða Suður-Evrópu, raunar flestra annarra þjóða innan evrulands.
Reglum pakkað ofan í skúffu
Líkt og í fjármálakreppunni fyrir liðlega áratug reynir mjög á samstarfið innan Evrópusambandsins. Ströngum reglum um ríkisstyrki hefur verið pakkað ofan í skúffu og aðildarríkin dæla út peningum til að styðja við fyrirtæki og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot. Samkvæmt The Economist hafa ríkissjóðir evruríkjanna pumpað um tveimur trilljónum evra til fyrirtækja. Þýski ríkissjóðurinn er með yfir helming fjárhæðarinnar. Vefritið Politico bendir á að hlutdeild Þýskalands í hagkerfi evrulanda sé um 28%. Ríki í suðurhluta Evrópu hafa ekki sömu burði til að styðja við atvinnulífið og þannig hefur gjáin breikkað milli norðurs og suðurs. Viðspyrnan í Þýskalandi er öflug, ólíkt því sem gerist í suðurhluta evrulands.
Afleiðingin er sú að bilið milli Norður- og Suður-Evrópu breikkar. Efnahagslegt ójafnvægi, sem var innan evrusvæðisins fyrir kórónuveiruna, er að aukast. Pólitískar og félagslegar afleiðingar eru ófyrirséðar.
Klofningur eykst
Skortur á samhæfðum viðbrögðum Evrópusambandsins við efnahagslegum hörmungum veirufaraldursins er líklegur til að auka klofning meðal evrulandanna. Fram til þessa hefur hvert land glímt við kreppuna í gegnum eigin ríkisfjármál en Seðlabanki Evrópu hefur reynt að koma til aðstoðar með kaupum á ríkisskuldabréfum. Þýski stjórnlagadómstóllinn hefur hins vegar gert alvarlegar athugasemdir við stórfelld kaup bankans. Um leið bannaði dómstóllinn seðlabanka Þýskalands að taka þátt í kaupum ríkisskuldabréfa evrulanda nema lagðar væru fram sönnur fyrir því að meðalhófs væri gætt við kaupin.
Evrópudómstóllinn telur úrskurð stjórnlagadómstólsins marklausan og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, er á sama máli. Þannig dýpkar pólitísk og stjórnlagaleg kreppa Evrópusambandsins, á sama tíma og glímt er við alvarlegar efnahagslegar afleiðingar veirufaraldursins. Aðildarríkin virðast ófær um að sameinast um hvað þurfi að gera.
Evrulöndin eru ekki ein um að glíma við alvarlegan efnahagssamdrátt og hækkandi skuldir. Fá lönd sleppa við efnahagslegar afleiðingar faraldursins. En sameiginlegur gjaldmiðill – evran – án sameiginlegra ríkisfjármála er orðinn líkt og myllusteinn um háls þeirra þjóða sem verst hafa orðið úti í efnahagsþrengingum. Myntbandalagið stefnir í aðra skuldakreppu ríkissjóða aðildarríkjanna. Engin pólitísk samstaða hefur náðst um um að „dreifa“ byrðunum á milli norður- og suðurhluta.
Fyrir okkur Íslendinga er það ekki gleðiefni að horfa upp á gjána milli norðurs og suðurs breikka. Pólitísk og stjórnskipuleg kreppa Evrópusambandsins og efnahagslegt misgengi í evrulandi getur haft neikvæðar afleiðingar fyrir íslenskan efnahag.
Við Íslendingar, líkt og aðrar þjóðir, eigum eftir að draga lærdóm af baráttunni við skæða veiru og með hvaða hætti skynsamlegt er að bregðast við efnahagslegum áföllum vegna veirufaraldurs sem lamar daglegt líf. Sumt vitum við þegar. Öflugt og skilvirkt heilbrigðiskerfi er forsenda þess að hægt sé að bregðast við heilbrigðisvá. Við höfum fengið staðfestingu á því hversu mikilvægt það er að fylgja aðhaldssamri stefnu í opinberum fjármálum á tímum góðæris, þannig að ríki og sveitarfélög séu í stakk búin til að takast á við efnahagslegan erfiðleika. Og við höfum enn einu sinni verið áminnt um hversu dýrmælt fullveldi í peningamálum er.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. maí 2020.