Evruland í tilvistarkreppu
'}}

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Kór­ónu­veir­an hef­ur haft al­var­leg áhrif á flest­ar þjóðir, ekki síst í Evr­ópu. Áhrif­in eru mis­jafn­lega al­var­leg. Þótt sum lönd hafi mátt þola hærri dán­artíðni vegna veirunn­ar en önn­ur hef­ur ekk­ert land sloppið við efna­hags­leg áföll vegna lok­ana fyr­ir­tækja og annarra ráðstaf­ana sem stjórn­völd hafa talið sig þurfa að grípa til í bar­átt­unni við að koma bönd­um á skæðan far­ald­ur.

Mörgu er ósvarað um Covid-19 og far­ald­ur­inn og vís­inda­menn kepp­ast við að finna bólu­efni gegn veirunni. En eitt er víst: Efna­hags­legu áhrif­in eru hrika­leg, en leggj­ast líkt og veir­an með mis­jöfn­um þunga á þjóðir Evr­ópu. Og annað er lík­legt: Efna­hags­bat­inn verður ójafn eft­ir lönd­um, ekki síst meðal evru­ríkja. Á meðan eitt ríki mun end­ur­heimta efna­hags­leg­an styrk á til­tölu­lega skömm­um tíma mun annað ríki þurfa að glíma við stöðnun eða jafn­vel sam­drátt í mörg ár.

Evru­lönd­in glímdu við erfiðleika áður en far­ald­ur­inn skall á. Á fjórða árs­fjórðungi liðins árs stóð efna­hags­lífið í stað – hag­vöxt­ur 0,1% og því dróst lands­fram­leiðsla á mann sam­an. Fyrsti fjórðung­ur þessa árs, áður en efna­hagskrepp­an skall á af full­um þunga, var enn verri. Lands­fram­leiðsla minnkaði um 3,8% í evru­lönd­um.

Ólík­ur efna­hags­leg­ur veru­leiki

Þær þreng­ing­ar sem riðið hafa yfir í kjöl­far kór­ónufar­ald­urs­ins hafa af­hjúpað með skýr­um hætti hve efna­hags­leg staða evruland­anna er mis­jöfn. Í ein­fald­leika sín­um má segja að lönd­in í norðri njóti vel­meg­un­ar um­fram þau í suðri.

Í norðri stend­ur at­vinnu­lífið á fjöl­breytt­um stoðum, mennta­kerfið er sterkt, rík­is­fjár­mál í föst­um skorðum, skuld­ir viðráðan­leg­ar og at­vinnu­stig hátt. Í suðri er þessu öf­ugt farið. Skuld­ir rík­is­sjóða eru ósjálf­bær­ar, at­vinnu­leysi (ekki síst meðal ungs fólks) land­lægt og vöxt­ur lands­fram­leiðslu lít­ill sem eng­inn.

Ójafn­vægið milli evrulanda er efna­hags­legt og póli­tískt áhyggju­efni. Þau lönd sem verst stóðu fyr­ir far­ald­ur­inn eiga erfiðara með að ná sér aft­ur á strik; Ítal­ía og Spánn sér­stak­lega. Mikl­ar skuld­ir hins op­in­bera draga úr mögu­leik­um stjórn­valda til að grípa til aðgerða til að örva efna­hag­inn. Lönd­in ráða ekki yfir verk­fær­um á sviði pen­inga­mála – rík­is­fjár­mál­in eru í spennitreyju.

Staða Þjóðverja er allt önn­ur. Skuld­ir hins op­in­bera eru 60% af lands­fram­leiðslu og rík­is­sjóður hef­ur verið rek­inn með af­gangi. Bol­magn þýska rík­is­ins til að grípa til örvun­ar efna­hags­lífs­ins er allt annað og meira en þjóða Suður-Evr­ópu, raun­ar flestra annarra þjóða inn­an evru­lands.

Regl­um pakkað ofan í skúffu

Líkt og í fjár­málakrepp­unni fyr­ir liðlega ára­tug reyn­ir mjög á sam­starfið inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins. Ströng­um regl­um um rík­is­styrki hef­ur verið pakkað ofan í skúffu og aðild­ar­rík­in dæla út pen­ing­um til að styðja við fyr­ir­tæki og koma í veg fyr­ir fjölda­gjaldþrot. Sam­kvæmt The Econom­ist hafa rík­is­sjóðir evru­ríkj­anna pumpað um tveim­ur trilljón­um evra til fyr­ir­tækja. Þýski rík­is­sjóður­inn er með yfir helm­ing fjár­hæðar­inn­ar. Vef­ritið Politico bend­ir á að hlut­deild Þýska­lands í hag­kerfi evrulanda sé um 28%. Ríki í suður­hluta Evr­ópu hafa ekki sömu burði til að styðja við at­vinnu­lífið og þannig hef­ur gjá­in breikkað milli norðurs og suðurs. Viðspyrn­an í Þýskalandi er öfl­ug, ólíkt því sem ger­ist í suður­hluta evru­lands.

Af­leiðing­in er sú að bilið milli Norður- og Suður-Evr­ópu breikk­ar. Efna­hags­legt ójafn­vægi, sem var inn­an evru­svæðis­ins fyr­ir kór­ónu­veiruna, er að aukast. Póli­tísk­ar og fé­lags­leg­ar af­leiðing­ar eru ófyr­ir­séðar.

Klofn­ing­ur eykst

Skort­ur á sam­hæfðum viðbrögðum Evr­ópu­sam­bands­ins við efna­hags­leg­um hörm­ung­um veirufar­ald­urs­ins er lík­leg­ur til að auka klofn­ing meðal evruland­anna. Fram til þessa hef­ur hvert land glímt við krepp­una í gegn­um eig­in rík­is­fjár­mál en Seðlabanki Evr­ópu hef­ur reynt að koma til aðstoðar með kaup­um á rík­is­skulda­bréf­um. Þýski stjórn­laga­dóm­stóll­inn hef­ur hins veg­ar gert al­var­leg­ar at­huga­semd­ir við stór­felld kaup bank­ans. Um leið bannaði dóm­stóll­inn seðlabanka Þýska­lands að taka þátt í kaup­um rík­is­skulda­bréfa evrulanda nema lagðar væru fram sönn­ur fyr­ir því að meðal­hófs væri gætt við kaup­in.

Evr­ópu­dóm­stóll­inn tel­ur úr­sk­urð stjórn­laga­dóm­stóls­ins mark­laus­an og Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, er á sama máli. Þannig dýpk­ar póli­tísk og stjórn­laga­leg kreppa Evr­ópu­sam­bands­ins, á sama tíma og glímt er við al­var­leg­ar efna­hags­leg­ar af­leiðing­ar veirufar­ald­urs­ins. Aðild­ar­rík­in virðast ófær um að sam­ein­ast um hvað þurfi að gera.

Evru­lönd­in eru ekki ein um að glíma við al­var­leg­an efna­hags­sam­drátt og hækk­andi skuld­ir. Fá lönd sleppa við efna­hags­leg­ar af­leiðing­ar far­ald­urs­ins. En sam­eig­in­leg­ur gjald­miðill – evr­an – án sam­eig­in­legra rík­is­fjár­mála er orðinn líkt og myllu­steinn um háls þeirra þjóða sem verst hafa orðið úti í efna­hagsþreng­ing­um. Mynt­banda­lagið stefn­ir í aðra skuldakreppu rík­is­sjóða aðild­ar­ríkj­anna. Eng­in póli­tísk samstaða hef­ur náðst um um að „dreifa“ byrðunum á milli norður- og suður­hluta.

Fyr­ir okk­ur Íslend­inga er það ekki gleðiefni að horfa upp á gjána milli norðurs og suðurs breikka. Póli­tísk og stjórn­skipu­leg kreppa Evr­ópu­sam­bands­ins og efna­hags­legt mis­gengi í evrulandi get­ur haft nei­kvæðar af­leiðing­ar fyr­ir ís­lensk­an efna­hag.

Við Íslend­ing­ar, líkt og aðrar þjóðir, eig­um eft­ir að draga lær­dóm af bar­átt­unni við skæða veiru og með hvaða hætti skyn­sam­legt er að bregðast við efna­hags­leg­um áföll­um vegna veirufar­ald­urs sem lam­ar dag­legt líf. Sumt vit­um við þegar. Öflugt og skil­virkt heil­brigðis­kerfi er for­senda þess að hægt sé að bregðast við heil­brigðisvá. Við höf­um fengið staðfest­ingu á því hversu mik­il­vægt það er að fylgja aðhalds­samri stefnu í op­in­ber­um fjár­mál­um á tím­um góðæris, þannig að ríki og sveit­ar­fé­lög séu í stakk búin til að tak­ast á við efna­hags­leg­an erfiðleika. Og við höf­um enn einu sinni verið áminnt um hversu dýr­mælt full­veldi í pen­inga­mál­um er.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. maí 2020.