Brynjar Níelsson alþingismaður:
Sigurður Már Jónsson hefur skrifað áhugaverða bók um afnám hafta, sem ástæða er til að hvetja sem flesta til að lesa. Bókin er afrakstur umfangsmikillar heimildarvinnu sem varpar ljósi á ýmsa þætti sem hafa hugsanlega ekki fengið þá umfjöllun sem þeir eiga skilið.
Vinstristjórnin
Það eru engin sérstök tíðindi að vinstristjórnin 2009-2013 var komin að fótum fram og rúin trausti í lok kjörtímabilsins. Flosnað hafði upp úr stjórnarsamstarfinu þegar á leið og erfiðara að smala köttunum saman svo vísað sé beint til orða þáverandi forsætisráðherra. Sitt sýnist hverjum um gerðir og árangur ríkisstjórnarinnar á þessum tíma en lítið hefur farið fyrir umræðu um nálgun hennar við kröfuhafa föllnu bankanna. Eins og kunnugt er voru þessar kröfur að mestu leyti komnar í eigu vogunarsjóða, sem höfðu gífurlega hagsmuni af því að löggjöf svo sem varðandi skattlagningu og gjaldeyrishöft yrði þeim hagstæð. Þessir kröfuhafar réðu sér eðlilega ráðgjafa úr hópi lögmanna og fjölmiðlamanna, auk þess sem slitastjórnir á háum launum önnuðust hagsmuni þeirra. Við því er ekkert að segja. Það er ekkert óeðlilegt að vogunarsjóðir gæti sinna hagsmuna og ráði sér innlenda ráðgjafa í því skyni. Það er hins vegar mikilvægt að þeir sem fara með hagsmuni þjóðarinnar horfi til annarra sjónarmiða og eins að sjálfstæðir fjölmiðlar láti ekki misnota sig í þessu skyni.
Sökudólgar
Þegar þjóðir verða fyrir áfalli er nauðsynlegt að finna sökudólga og bankamennirnir sem hafði verið lyft upp á stall og margverðlaunaðir lágu vel við höggi. Þessi aðferð hentar sérstaklega vel stjórnmálaflokkum þar sem málefnastaðan er fátækleg. Umræðan var á þann veg að alþjóðleg bankakreppa væri í raun eingöngu hér á landi og stafaði af óheiðarlegum bankamönnum sem bæru alfarið sök á ástandinu. Einn ráðherra vinstristjórnarinnar orðaði það svo að íslenskir bankamenn væru þeir verstu í heimi. Þessi aðferð að leita sökudólga hér á landi við alþjóðlegum kreppum er ekki einungis röng, heldur beinlínis heimskuleg. Þetta hljómaði að sjálfsögðu vel í eyrum erlendra kröfuhafa, sem komu skipulega á framfæri upplýsingum til fjölmiðla. Þeir væru fórnarlömb óprúttinna bankamanna og eðlilegt að löggjöfin tæki mið af því. Hér gegndu fjölmiðlamenn eins og Þórður Snær hjá Kjarnanum og Sigrún Davíðsdóttir hjá Ríkisútvarpinu lykilhlutverki. Þessi vænisýki náði hámarki í Icesave-málinu, en þar komst trommuleikarinn Vilhjálmur Þorsteinsson, eigandi Kjarnans og þáverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar, að þeirri niðurstöðu að okkur bæri siðferðisleg skylda til að greiða erlendum kröfuhöfum bankainnistæðurnar óháð því hver niðurstaða innlendra sem alþjóðlegra dómstóla yrði.
Samningamenn Íslands
Umræða um sökudólga hafði augljós áhrif á nálgun vinstristjórnarinnar enda stuðluðu ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar sjálfir að henni. Sendur var fyrrverandi stjórnmálamaður og embættismaður á eftirlaunum til að semja við þrautreynda viðskiptamenn í Icesave-málinu. Niðurstaðan, sem þeir nenntu ekki að hanga of lengi yfir, skipti ekki öllu máli, enda í raun við bankamennina að sakast og Sjálfstæðisflokkinn. Þegar greiðslurnar kæmu til útborgunar eftir valdatíma vinstristjórnarinnar var auðvelt að benda á pólitíska andstæðinga sem bæru í raun ábyrgðina. Sama mátti í raun segja um erlendu kröfuhafana – þeir væru fórnarlömb þessara óheiðarlegu bankamanna og stjórnmálastefnu Sjálfstæðisflokksins.
Gerbreytt stefna
Ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem tók við 2013 nálgaðist þessi mál á gerólíkan hátt. Oft var reitt hátt til höggs og ekki endilega víst að allar þær hugmyndir sem fram komu hefðu staðist ef á þær hefði reynt fyrir dómstólum. Þetta var hins vegar gerbreytt staða fyrir vogunarsjóðina og nokkuð sem þeir voru vanir að glíma við í öðrum löndum. Fengnir voru samningamenn úr fjármála- og viðskiptaumhverfi til að leiða viðræður við erlenda kröfuhafa. Í þeim viðræðum var reynt að spila á ólíka hagsmuni bankanna varðandi stöðugleikaframlög og löggjafarvaldinu óspart hótað ef ekki næðist ásættanleg niðurstaða.
Blessað hrunið sem gerði syni mína ríka
Niðurstaðan var sú að erlendir kröfuhafar voru þvingaðir til þess að greiða umtalsverðar greiðslur í ríkissjóð, sem nefnt hefur verið stöðugleikaframlag, og skýrir ásamt aukningu ferðamanna að stórum hluta öflugan gjaldeyrisforða og lágt skuldahlutfall þjóðarinnar. Í bók Sigurðar Más er þessi tala sögð vera 657 milljarðar sem svarar til ábata af ferðamannaiðnaði í 30 ár. Að auki hefur ríkissjóður notið góðs af arðgreiðslum bankanna og vonandi söluandvirði þeirra þegar þeir verða seldir að nýju. Þrátt fyrir stöðugleikaframlagið högnuðust vogunarsjóðirnir gríðarlega enda keypt kröfurnar á hrakvirði.
Lánveitingar
Þótt ótrúlegt megi virðast má ætla að efnahagsáföll vegna kórónuveirunnar verði umfangsmeiri en í þeirri alþjóðlegu fjármálakreppu sem reið yfir haustið 2008. Við þessar aðstæður er krafa til þess að ríkisvaldið rétti atvinnulífinu hjálparhönd og fjármálafyrirtæki aðstoði sína viðskiptavini á meðan þessar hörmungar ganga yfir. Auðvitað erum við öll sammála um að bankarnir standi við bakið á viðskiptavinum sínum þegar í harðbakkann slær, eða er það ekki annars? Forsenda þessa er auðvitað að atvinnulífið verði fljótt á fæturna aftur þegar kreppunni lýkur, okkur öllum, þ.m.t. ríkissjóði og fjármálafyrirtækjum, til hagsbóta. Getur verið að íslensku bankamennirnir hafi haft þetta í huga á árinu 2008?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. maí 2020.