„Þessi samningur markar tímamót fyrir íslenska garðyrkju. Stærsta breytingin er sú að við erum að stórauka framlög til að niðurgreiða kostnað við flutnings- og dreifingakostnað rafmagns og auka við jarðræktarstyrki til að stuðla að fjölbreyttari ræktun á grænmeti hér á landi. Með því erum við að skapa forsendur til að auka framleiðslu á íslensku grænmeti um 25% á næstu þremur árum og auka þannig markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu,“ segir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í tilefni af undirritun samkomulags um endurskoðun á samningu um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða frá í dag.
„Til viðbótar eru í samkomulaginu fjölmörg atriði sem munu styrkja íslenska garðyrkju og allan íslenskan landbúnað til lengri tíma, m.a. með því að setja á fót mælaborð fyrir landbúnaðinn. Samantekið er ég afskaplega stoltur og ánægður með þetta samkomulag. Við erum að fjárfesta í framtíðinni og fanga þau tækifæri sem við okkur blasa í íslenskri garðyrkju,“ segir Kristján Þór.
Vilja auka framleiðsluna um 25% á þremur árum
Það voru fulltrúar Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda sem undirrituðu samkomulagið í fjármálaráðuneytinu kl. 10 í morgun. Samningurinn er einn hinna fjögurra búvörusamninga. Markmið samkomulagsins er meðal annars að stuðla að framþróun og nýsköpun í garðyrkjunni með áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum. Við næstu endurskoðun samningsins árið 2023 er markmiðið að framleiðsla á íslensku grænmeti hafi aukist um 25%, miðað við meðalframleiðslu áranna 2017 til 2019, til að auka markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu .
Auknir fjármunir verða lagðir í garðyrkjusamninginn sem nema 200 milljónum króna á ári. Þeir nýtast m.a. til beingreiðslna vegna raforkukaupa, aðgerða í loftslagsmálum og til fjölbreyttari ræktunar á grænmeti hér á landi.
Beingreiðslur í stað niðurgreiðslu
Að auki felur samkomulagið í sér að íslensk garðyrkja verði að fullu kolefnisjöfnuð eigi síðar en árið 2040. Að fyrirkomulagi á niðurgreiðslum á raforku verði breytt með þeim hætti að ylræktendum verða tryggðar beingreiðslur vegna lýsingar í stað niðurgreiðslu kostnaðar. Við samninginn bætist nýr flokkur beingreiðslna vegna ræktunar á öðrum grænmetistegundum en gúrkum, papríkum og tómötum að heildarfjárhæð 37 milljónir á ári. Veittir verða jarðræktarstyrkir til útiræktunar á grænmeti og garðávöxtum til manneldis á landi yfir einum hektara frá og með árinu 2021.
Sjá nánar í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hér.