Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Ekkert hagkerfi fær staðist til lengri tíma ef komið er í veg fyrir efnahagslega starfsemi borgaranna. Skiptir engu hversu öflugt og stórt hagkerfið er. Hægt og bítandi byrja undirstöðurnar að molna – velsæld breytist í fátækt og örbirgð, öflugt heilbrigðiskerfi brotnar niður, almannatryggingar komast í þrot. Pólitískur órói og sundrung þjóðar eru fylgifiskar efnahagslegra þrenginga. Þetta vita kjörnir leiðtogar lýðræðisríkja.
Í baráttunni við kórónuveiruna, sem ógnar lífi og heilsu almennings um allan heim, hefur í raun verið slökkt á vélum efnahagslífsins. Víða hefur fólki verið skipað að halda sig heima, einangra sig frá öðrum. Útgöngubanni verið komið á. Stræti stórborga eru mannlaus, kaffihús, barir og veitingahús lokuð, verslanir hafa læst dyrum sínum. Þeir sem geta hafa komið sér upp vinnuaðstöðu heima. Í mörgum löndum hafa börn og unglingar verið send heim úr skóla en háskólastúdentar reyna að sinna námi í fjarkennslu. Vélar í verksmiðum hafa þagnað. Flestir skilja mikilvægi tveggja-metra-reglunnar og eru hættir að heilsa með handabandi. Enginn hleypur til og faðmar gamlan vin. Ferðalög milli landa eru aðeins til í minningum og draumum fólks.
Allt þetta hefur reynst nauðsynlegt til að ná tökum á Covid-19 faraldrinum. En fyrr eða síðar verða stjórnvöld að slaka á ströngum reglum, bæði af efnahagslegum og félagslegum ástæðum. Forsenda þess að hægt sé að byggja upp og reka sterkt heilbrigðiskerfi er öflugt efnahagslíf. Það er ein af skyldum viðskiptahagkerfisins að búa til verðmæti sem standa undir velsæld þjóða. Félagslega kemst maðurinn illa af án opinna samskipta við annað fólk. Sálarheill þjóða byggist ekki síst á því að geta átt beint samneyti við aðra, á götum úti, á kaffihúsum, á vinnustað. Við getum í skamman tíma komist af með fjarfundi og tryggt að sambandið við fjölskyldu og vini rofni ekki með því að nýta spjallforrit og samfélagsmiðla. En tæknin leysir aldrei af hólmi persónuleg samskipti og nánd. Siðmenning byggist á opnum samskiptum og samvinnu einstaklinga.
Hagkerfi endurræst
Á komandi mánuðum og árum munu vísindamenn átta sig betur á því hvaða mistök hafa verið gerð í einstökum löndum og í samstarfi (eða samstarfsleysi) þjóða í baráttunni við illvígan vírus. Hagfræðingar eiga eftir að meta efnahagslegan skaða sem vírusinn hefur valdið heiminum en ekki síður skrifa nýjar kennslu- og fræðibækur um hvernig best sé að beita ríkisfjármálum og peningastjórnun þegar tekist er á við heilbrigðisógn í framtíðinni.
Stjórnvöld um allan heim standa hins vegar frammi fyrir miklum áskorunum. Það verður að endurræsa hagkerfið en um leið tryggja að faraldurinn nái sér ekki á strik aftur með skelfilegum afleiðingum. Ekki er hægt að búast við öðru en stigin verði varfærin skref í þá átt að koma samfélögum í eðlilegt horf.
Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, hefur þegar kynnt áætlanir um að aflétta takmörkunum á viðskiptalífinu. Í opnu bréfi á laugardag sagðist hann vilja „koma út úr kreppunni eins fljótt og auðið er og verja hvert einasta starf í Austurríki“. Verslanir sem eru undir 400 fm að stærð, sem og byggingavöruverslanir og blómabúðir hafa fengið að opna að nýju. Endurræsing austurríska hagkerfisins byggist á skref-fyrir-skref áætlun. Leyft verður að öllu óbreyttu að opna stærri verslanir, verslunarmiðstöðvar og hárgreiðslustofur að nýju 1. maí en veitingastaði og hótel um miðjan maí. Enn verða í gildi strangar reglur um félagslega fjarlægð og fólk er hvatt til að vera heima eins mikið og mögulegt er. Í matvöruverslunum og lyfjabúðum verður enn skylda að vera með andlitsgrímu.
Önnur lönd eru einnig að feta sig í átt að því sem hægt er að segja að sé eðlilegt ástand. Skrefin eru ekki stór en eru hluti af varfærnum áætlunum um að koma hjólum efnahagslífsins af stað. Spánn hefur m.a. leyft byggingaverktökum og verksmiðjum að hefja aftur starfsemi og í Danmörku geta yngri börn snúið aftur í skóla. Jafnvel á Ítalíu er víða verið að slaka á takmörkunum.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur hins vegar tilkynnt að útgöngubann verði framlengt til 11. maí. Frá þeim tíma verði slakað á kvöðum og reynt að tryggja að hægt og bítandi komist daglegt líf í eðlilegt horf. Forsetinn, sem sagði í sjónvarpsávarpi að enn hefði ekki tekist að ná tökum á faraldrinum, tilkynnti að nánari áætlun yrði kynnt í lok apríl.
Fyrstu skrefin í maí
Flest bendir til að heilbrigðisyfirvöldum hafi tekist vel upp í baráttunni við kórónuveiruna. Erlendir vísindamenn og fjölmiðlar hafa vakið athygli á árangrinum. Í hádeginu í gær kynntu íslensk stjórnvöld áætlun um hvernig hægt og bítandi höftum verði lyft af þjóðarfélaginu frá og með 4. maí. Þar er fylgt tillögum sóttvarnalæknis.
Hefðbundið skólahald í leik- og grunnskólum hefst og með nokkrum takmörkunum verður unnt að opna framhalds- og háskóla. Fjöldamörk samkomubanns hækka úr 20 í 50. Ýmis þjónusta getur hafist, s.s. hárgreiðslustofur, nuddstofur, sjúkraþjálfun, snyrtistofur. Tannlæknar fá að taka til starfa og öll heilbrigðisstarfsemi sem ekki felur í sér valkvæðar skurðaðgerðir verður heimil. Söfn verða að nýju aðgengileg almenningi. Með takmörkunum hefst íþróttastarf barna og unglinga. Enn verða ferðatakmarkanir milli landa a.m.k. fram til 15. maí.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að vel takist til við að lyfta íþyngjandi takmörkunum á daglegt líf almennings. Þau skref sem stíga á 4. maí skipta máli en ráða því miður ekki úrslitum um efnahagslega afkomu þjóðarinnar. Við munum enn þurfa að glíma við efnahagslegar þrengingar. Efnahagslegar aðgerðir stjórnvalda, – ríkis, sveitarfélaga og Seðlabanka – hafa verið nauðsynlegar til að verja fyrirtæki og heimili. En þær voru til að koma okkur í gegnum fyrsta leikhluta af nokkrum. Annar leikhluti er að hefjast og ekki verður hjá því komist að beita jafnt ríkisfjármálum og peningamálum með róttækum hætti á komandi mánuðum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. apríl 2020.