Færri lögbrot – aukið öryggi
'}}

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Í mörgum hverfum borgarinnar hafa íbúar sýnt því áhuga að auka öryggi sitt og nágranna sinna með eftirlitsmyndavélum sem borgaryfirvöld kæmu fyrir við helstu aðkomuleiðir hverfanna.

Myndavélar auka öryggi 

Mörg nágrannasveitarfélög okkar hafa sett upp slíkar vélar í samstarfi við lögreglu og Neyðarlínu. Þær hafa óumdeilanlega skapað fælingarmátt gegn afbrotum og skipta oft sköpum við að upplýsa afbrot og auka öryggi borgaranna á margvíslegan annan hátt. Í ljósi þessarar reynslu hyggst Borgarbyggð nú setja upp slíkar myndavélar við alla sína helstu þéttbýliskjarna. Uppsetning þeirra hefur nú verið samþykkt á Akranesi, í Borganesi og  Stykkishólmi og nú kemur til álita að koma slíkum vélum fyrir víðar á Vesturlandi. Þessar vélar hafa reynst feikilega mikilvægar og hagkvæmar við almenna löggæslu. Þær spara skattgreiðendum fé, auka öryggi og bæta þjónustu.

Einstaklingsfrelsi 

Til er fámennur og veruleikafirrtur hópur fólks sem virðist illa haldinn af því ofsóknaræði að svona vélar verði notaðar til þess að fylgjast með okkur öllum, alltaf og alls staðar og koma á alræði á Íslandi. Þetta eru yfirleitt einstaklingar sem hafa einhvern tíma heyrt minnst á skáldsöguna 1984, eftir Georg Orwell, hafa líklega aldrei lesið hana, telja  sig hafa áhyggjur af frelsi einstaklingsins en bera, samkvæmt skrifum sínum  á samfélagsmiðlum, ekkert skynbragð á einstaklingsfrelsi og hafa augljóslega aldrei lesið John Lock, Adam Smith, John Stuart Mill, Isaiah Berlin, F.A. Hayek, Karl R. Popper né Milton Friedman.

Tækniþróun skapar ekki alræðisríki. En hún getur dregið úr kostnaði skattgreiðenda, aukið öryggi þeirra og bætt löggæslu. Vörnin gegn alræði felst ekki í útópísku ofstæki, heldur í upplýstu samfélagi og skynsamlegri, lýðræðislegri löggjöf. Slík löggjöf hefur á undanförnum árum aukið mjög vörn fyrir frelsi einstaklingsins og friðhelgi einkalífsins hér á landi. Slík lög og reglugerðir hafa m.a. sett nýtingu á eftirlitsmyndavélum, ekki síst opinberum, afar strangar skorður sem útiloka með öllu njósnir um heiðvirða borgara.

Andvaraleysi borgaryfirvalda

Í kosningu meðal íbúa í Grafarvogi um „Betri hverfi“ árið 2018, sem sjálf borgaryfirvöld stóðu fyrir, fékk tillagan, Rafræn vöktun, afgerandi kosningu. Tillagan kvað á um að inn- og útleiðir hverfisins yrðu vaktaðar með öryggismyndavélum. Nú, tveimur árum síðar, hefur ekkert verið aðhafst til að uppfylla þessar ótvíræðu óskir íbúanna.

Ég flutti tillögu í borgarráði í ágústmánuði í fyrra um að gerð yrði tilraun með að koma upp eftirlitsmyndavélum í tilteknum hverfum sem eru afskekkt eða í útjaðri borgarinnar. Áhugi meirihlutans á þessu málefni er ekki meiri en svo að nú eru sjö mánuðir liðnir án þess að tillagan hafi verið tekin til afgreiðslu.

Ég fæ því ekki betur séð en að borgaryfirvöld séu annað hvort í hópi þessara fyrrgreinda, veruleikafirrta fólks, eða hafi einfaldlega aldrei ætlað að taka mark á eigin könnunum um hagsmuni og hugðarefni borgarbúa. Það er eftir öðru hjá þessum borgarstjórnarmeirihluta.

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu í mars 2020.