Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Á síðasta borgarstjórnarfundi lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu í fimm liðum til að styðja við atvinnulífið á gríðarlega erfiðum tímum COVID-19. Hún var atvinnumiðuð. Niðursveiflan er gríðardjúp og hörð. Fyrstu tölur um atvinnuskerðingu og uppsagnir eru gríðarlega háar. Það er hlutverk okkar að niðursveiflan verði sem styst. Án fyrirtækjanna í borginni eru ekki störf. Án atvinnu er ekki útsvar. Aðaláherslur okkar eru að styðja fyrirtækin með því að skattar og gjöld lækki. Ríkið hefur lagt fram öflugar mótvægisaðgerðir. Seðlabankinn aukið inngrip sín. Sveitarfélögin mega ekki skorast undan. Á síðasta borgarráðsfundi var samþykktur aðgerðapakki sem gerir ráð fyrir fyrstu skattalækkunum borgarinnar í langan tíma. Það eru ákveðin tímamót. Þá eru greiðslufrestir fasteignagjalda samþykktir til að létta róðurinn í gegnum niðursveifluna. Viðhaldsframkvæmdum og öðrum verkefnum flýtt. Dótturfélög borgarinnar hvött til að gera slíkt hið sama. Þetta eru fyrstu aðgerðir borgarinnar og er mikilvægt að staðan sé endurmetin jafnt og þétt. Í maí ættum við að sjá betur hversu djúp niðursveiflan verður. Það er hlutverk okkar að milda hana og stuðla að viðspyrnu í ferðamálum þegar aðstæður skapast á ný.
Stöndum saman um störfin
Með þessum nú samþykktu tillögum er verið að gefa nokkurn slaka. Og það er líka verið að gefa von. Samstaða um sóttvarnir skiptir miklu máli. Fyrir okkur öll. Samstaða um að létta á álögum atvinnulífið skiptir ekki síður máli. Við munum fylgja þessu eftir með frekari tillögum sem vonandi fá brautargengi. Þó að sumt kosti talsverða fjármuni er enn dýrara að gera ekki neitt. Borgin þarf nú að forgangsraða upp á nýtt. Gera verulegar breytingar á fyrirliggjandi fjárhagsáætlun. Lægri skattar og gjöld eru skjótasta leiðin til að létta greiðslubyrðina og hjálpa lífvænlegum fyrirtækjum í gegnum brimskaflinn. Við fjárfestum best í framtíðinni með því að treysta fyrirtækin í borginni.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. mars 2020.