Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
Gott samfélag byggist á trausti. Borgarstjórn sem nýtur trausts hefur gott umboð til verka. Aðeins 17% treysta núverandi borgarstjórn ef marka má kannanir Gallup. Traust á milli aðila er oft gagnkvæmt. Núverandi borgarmeirihluti hefur á köflum lokað sig af. Ekki hlustað á raddir borgarbúa. Kjaradeilur hafa verið illvígar og mikið verið um deilur og kærur. Rekstraraðilar við Laugaveginn hafa upplifað sig afskipta. Þar hafa borgaryfirvöld ekki skirrst við að hækka gjöld á rekstraraðila. Þyngst vega fasteignagjöldin sem hafa lagst af miklum þunga á þjónustu í borginni. Gildir þá einu hvort menn eiga húsnæðið eða ekki. Þeir sem leigja húsnæði fá reikninginn með hærri húsaleigu. Aðgengi að verslunum og veitingastöðum í miðborginni hefur vísvitandi verið skert af borgaryfirvöldum. Þvert á vilja þeirra sem reka verslanirnar. Lokanir vegna framkvæmda og ekki síður lokanir vegna misráðinna skipulagsákvarðana. Vantraust hefur aukist milli þeirra sem vinna eiga saman. Utanaðkomandi náttúruvá er eitt. Mannanna verk annað.
Léttum byrðarnar
Það væri við hæfi þegar við glímum við nýjan kórónuvírus að borgin létti byrðunum af þeim sem berjast nú í bökkum. Lækki gjöldin og auki sveigjanleika. Öll plön eru í uppnámi og þá ber borginni að bregðast við. En ekki að bregðast. Nú er rétti tíminn að lækka fasteignaskatta. Treysta fólki og fyrirtækjum. Ríkið hefur riðið á vaðið og boðar lækkun gjalda og skatta. Ríkisstjórnin og Seðlabankinn sjá hvaða þýðingu stærsti útflutningsatvinnuvegurinn hefur fyrir okkur öll. Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, kallaði í Kastljósi eftir frekari aðgerðum. Það er vonandi að fulltrúar Viðreisnar í borgarstjórn svari því kalli. Ferðaþjónustan hefur verið stærsti búhnykkur borgarinnar frá bankahruni. Umsvif ferðaþjónustunnar hafa lyft útsvarstekjum, fasteignagjöldum og sölu byggingarréttar í milljarðavís. Ef rétt væri að ferðaþjónustan væri baggi í rekstri borgarinnar ætti borgin að búast við miklum hagnaði af niðursveiflunni. Allir vita að það verður ekki. Í „meirihlutasáttmála“ segir: „Sérstaklega verður hugað að góðum tengingum, samráði og samstarfi við atvinnulíf borgarinnar.“ Nú er tilefni til að efna þessi heit. Nú er tími til að treysta undirstöður atvinnulífsins. Án atvinnulífsins er engin borg. Treystum fólkinu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. mars 2020.