Við ætlum að ná okkur aftur upp úr þessu
'}}

„Við verðum að standa saman um ábyrga og skynsamlega hegðun. Þetta er í fyrsta sæti hjá okkur til þess að hlífa hreinlega lífi fólks hérna á Íslandi,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun - sem hlusta má á hér.

Þar ræddi Bjarni m.a. ferðabann Bandaríkjaforseta á ferðamenn frá Schengen-svæðinu sem nær m.a. til Íslands vegna COVID-19 veirunnar. Bjarni sagði ferðabannið reiðarslag og að ákvörðunin hafi verið tekin fyrirvaralaust og einhliða.

„Maður snöggreiðist innan í sér þegar maður heyrir svona ákvarðanir sem manni finnst að eigi ekki að geta komið upp í alþjóðasamskiptum, án fyrirvara og einhliða. Ég lít þannig á að við ættum frekar að efla samstarf ríkja um að lágmarka útbreiðsluna og efnahagsleg áhrif af henni,“ sagði Bjarni.

„Það er ekki boðleg nálgun að segja að stjórnvöld hafi verið kærulaus í öðrum ríkjum. Veiran hefur komið upp í Bandaríkjunum, veiran varð ekki til í Evrópu,“ sagði Bjarni.

Hann sagðist skilja allar ríkisstjórnir sem grípi til umfangsmikilla aðgerða til að tefja útbreiðsluna, það verði einnig gert hér á landi. Okkar færasta fólk sé að meta stöðuna oft á dag á hverjum degi.

„Það er reiðarslag […] að svona afdrifaríkar ákvarðanir séu teknar án aðdaganda og án samtals með þessum hætti,“ sagði Bjarni.

Góð staða þjóðarbúsins hjálpar til

„Góðu fréttirnar eru þær að við höfum nýtt góðu árin undanfarið til að koma okkur í sterka stöðu. Við höfum, eins og Seðlabankinn benti á í gær, líklega aldrei verið í sterkari stöðu til að fást við áföll. Við höfum greitt upp það mikið af skuldum, við höfum notið góðra lánskjara að undanförnu og við höfum einfaldlega getuna til að taka áfall í fangið. Við vorum að vonast til að komast út úr hægara hagkerfi á tiltölulega skömmu tíma og tryggilega, en þetta setur hlutina í alveg nýtt samhengi," segir Bjarni.

Ræddi hann aðgerðir sem stjórnvöld kynntu í vikunni og að þær miði að því að bjarga sem flestum störfum og valda sem minnstri röskun hjá heimilum. Sagði hann að ákveðið hafi verið að styrkja stuðningskerfin okkar og smíða leiðir til þess að þeir sem lendi í áföllum fái stuðning „því við ætlum að ná okkur aftur upp úr þessu.“

Í því samhengi ræddi hann markaðsátak fyrir ferðaþjónustuna.

„Það sem við getum gert er að vera tilbúin með markaðsátak, þó svo að það kunni að hljóma einkennilega í dag, samhliða öðrum aðgerðum til að vera reiðubúin að lágmarka tjónið og fjölga störfum í þessari atvinnugrein sem á sér bjarta framtíð. Þetta er tímabundið ástand,“ sagði Bjarni.