Margar áhrifamiklar konur í flokknum
'}}

Vala Pálsdóttir er formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna og situr sem slík í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Vala var kjörin formaður árið 2017. Hún sat í kosningastjórn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir Alþingiskosningar 2016 og hún var kosningastjóri Ólafar Nordal í prófkjöri 2016. Eftirfarandi viðtal við Völu er úr blaðinu Á réttri leið sem Sjálfstæðisflokkurinn gaf út í febrúar 2020, en blaðið í heild má nálgast hér.

Hvernig hitti ég á þig, get ég átt nokkur orð við þig um starfið hjá Landssambandinu?

Já, auðvitað.

Hvernig hefur þú það?

„Mér líður vel, nýtt ár lofar góðu í upphafi. Árið sem leið var ágætt en það var fínt að fá frí frá kosningum. Ég hef trú að það verði kraftur í þessu ári.“

Þetta hefur verið kröftugt starf hjá ykkur, manni er efst í huga blaðið sem þið gáfuð út í haust sem fór víða, hvernig kom það til að þið fóruð í þessa útgáfu?

„Blaðið var gefið út í tilefni af 90 ára afmæli flokksins. Afmælisnefndin leitaði til okkar og við fórum af stað að vinna efni. Blaðið vatt upp á sig og varð bæði stærra og efnismeira því af nógu var að taka. Það var gaman að geta sýnt hve margar frambærilegar og áhrifamiklar konur eru í flokknum. Enginn annar flokkur getur státað af því að hafa yfir 60 konur sem kjörna fulltrúa flokksins í sveitarstjórnar- og landsmálunum líkt og við. Flestum þessum foringjum sem og þeim konum sem ruddu brautina voru gerð góð skil í blaðinu. Blaðinu var dreift til meirihluta heimila á landinu og fékk gríðarlegar góðar móttökur. Fyrir þá sem hafa ekki lesið það þá má enn nálgast rafrænu útgáfuna á vef Sjálfstæðisflokksins.“

Hvaða aðra starfsemi hafiði verið með?

„Við höfum verið með fundaraðir að hausti, við tókum fyrst fyrir heilbrigðismál og síðastliðið haust voru það umhverfismálin. Báðar fundarraðirnar voru vel sóttar en sú um heilbrigðismálin var þó sérstaklega vel sótt. Við héldum fjóra fundi í þeirri fundarröð þar sem efnið á fyrsta fundi var heildaryfirlit yfir málaflokkinn og tryggingarkerfið, á næstu fundum einbeittum við okkur að geðheilbrigðismálum, öldrunarmálum og að lokum lífstílssjúkdómum sem má rekja yfir 70% dauðfalla til. Við fengum sérfræðinga í málaflokknum á hvern fund og höfðum jafnan einn alþingismann úr flokknum á fundinum til að geta bæði leitað eftir svörum um stefnu og þrýst á aðgerðir. Fundarherferðin um umhverfismálin var með svipuðum hætti þar sem við byrjuðum með almennum hætti um umhverfismál, síðan á næstu fundum einbeittum við okkur að hvernig umhverfismál snúa að neytendum, atvinnulífinu og sveitarfélögum. Við vorum með einn fund þar sem við veltum fyrir okkur ólík áhrif hagrænna hvata og skatta og fengum til dæmis Hannes Hólmstein Gissurarson til að koma með vangaveltur um hvort umhverfisvernd krefjist umhverfisverndara.“

Eru þið utan þessa með mikla starfsemi?

„Já, starfið er fjölbreytt með blöndu af fræðslu og skemmtun. Við létum til okkar taka á Landsfundi, vorum með #metoo fund sem var vel sóttur og vel tekið. Við höfum farið í heimsókn til nokkurra ráðherra og á Alþingi sem og verið með fundi um landið vítt og breitt. Svo líka mikilvægt að hafa gaman af lífinu af og til og erum við m.a. með árlegt golfmót. Í fyrra var reyndar uppselt þannig að við þyrftum kannski að hugsa fyrir því að flokksskráðar konur hafi forgang? Sólveig Pétursdóttir fer fyrir golfnefndinni og þær eru duglegar að safna glæsilegum vinningum sem dregur að og svo þarf gott skipulag.“

Er Sólveig Pétursdóttir góð í golfi?

„Já og þeir sem til hennar þekkja vita að hún er mikil keppnismaður. Sólveig er kona sem getur flutt fjöll og við erum lánssamar að njóta krafta hennar.“