Jón Gunnarsson ritari Sjálfstæðisflokksins og alþingismaður:
Það má með sanni segja að með samblandi af réttum ákvörðunum, ótrúlegum vexti ferðaþjónustunnar og almennri velgengi útflutningsgreina okkar hefur tekist að ná ótrúlegum árangri í endurreisn íslensks samfélags á nokkrum árum. Það er ekki tilviljun, því grunnurinn er að mestu leyti skynsamlegar ákvarðanir sem teknar hafa verið á hinum pólitíska vettvangi. Gróskan hefur verið skynsamlega notuð bæði af fyrirtækjum og hinu opinbera, m.a. með lækkun skulda og uppbyggingu hagkvæmra innviða og fjárfestinga sem aukið hafa hagkvæmni rekstrar. Þetta gerir okkur mögulegt að bregðast við þeim samdrætti sem birtist okkur nú um stundir.
Við þessar aðstæður er mikilvægt að taka réttar ákvarðanir og í raun nauðsynlegt, því ef við misstígum okkur getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir heimili og fyrirtæki sem birtast munu í vaxandi erfiðleikum.
Kjaramál eru ákveðinn grunnur og við verðum að byggja á þeirri víðtæku sátt sem náðst hefur með lífskjarasamningum. Ábyrgð allra aðila er mikil í þeim efnum og stóryrtar herskáar yfirlýsingar þjóna engum tilgangi í þeirri umræðu. Ef taka á ákveðna hópa út fyrir sviga í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir verður það að gerast í sátt við heildina. Aðstæður bjóða ekki upp á að hver berjist í sínu horni. Hagsmuni heildarinnar verður að setja í forgang og þeir sem bera hér mesta ábyrgð eru aðilar vinnumarkaðarins.
Á vettvangi stjórnmálanna verður að stíga fast en jafnframt varlega til jarðar. Við þessar aðstæður er mikilvægt að send séu skýr skilaboð sem auka munu traust og von þannig að fjárfestingar á almennum markaði taki duglega við sér. Við erum í einstökum færum í þeim efnum vegna þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið með hallalausum rekstri ríkisins og uppgreiðslu skulda á undanförnum árum. Til eru stjórnmálamenn sem við þessar aðstæður vilja steypa ríkinu í nýjar skuldir og má skilja af orðum þeirra að þeir gleymi því að skuldir þarf að borga til baka. Slíkt tal er ábyrgðarlaust, sem er svo sem ekki óþekkt á vettvangi stjórnmálanna.
Tillaga formanns Sjálfstæðisflokksins um að selja lítinn hluta af eignum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og nota það fjármagn til uppbyggingar í verðmætum innviðum er skynsamleg og áhættulaus leið í anda þess sem hann hefur haft að leiðarljósi í störfum sínum sem fjármálaráðherra. En banki er ekki vara þar sem kaupendur bíða í röðum. Slík sala krefst yfirvegunar og opinnar umræðu til að skapa traust á þeirri leið sem farin verður. Á sama tíma verða fjárfestingar að hefjast á þessu ári og skila sér af fullum þunga á því næsta.
Til að auka traust á þeim aðgerðum sem gripið verður til er nauðsynlegt að grípa til tímabundinnar skuldsetningar á grunni þeirra eigna sem settar verða í söluferli. Að mínu mati gerist það best með því að sett verði á laggirnar opinbert fyrirtæki sem fái afsalað hlutabréfum í Íslandsbanka sem á sama tíma verði sett í söluferli. Því fyrirtæki verði gert að fjármagna þær milljarðaframkvæmdir, til viðbótar þeim sem þegar liggja fyrir og nauðsynlegt er að farið verði í strax. Jafnframt verði fyrirtækinu heimilað að efna til lántöku meðan á söluferli stendur.
Þau verkefni sem verður að horfa til við þessa viðbótarfjármögnun eiga fyrst og fremst að vera verkefni sem augljóslega skila sem mestum arði fyrir samfélagið. Þar eru verkefni tengd samgönguáætlun augljós, verkefni við vegakerfi, hafnarbætur og flugvelli. Sama hvernig á það er litið, þá eru fá ef nokkur verkefni sem stuðla eins mikið að auknum hagvexti til skemmri og lengri tíma litið.
Nú á að sýna kjark, áræði og frumkvæði. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur kynnt ábyrga og örugga leið í þeim efnum. Grundvallaratriði er að söluferli á fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins sé opið og leiðin vörðuð þeim markmiðum að um það náist víðtæk samstaða. Það er hægt.
Nú er kominn tími til aðgerða.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. mars 2020.