Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:
Flestir kannast við þá fleygu setningu „að fjórðungi bregði til föður, fjórðungi til móður, fjórðungi til fósturs og fjórðungi til nafns“. Þarna kemur fram sú sýn að nöfn skipti miklu máli. Það sé heillavænlegt að skíra barnið í höfuðið á einhverri ákveðinni fyrirmynd. Þetta geta verið afar eða ömmur, frændur eða frænkur eða einhverjir allt aðrir sem búa yfir einhverjum þeim kostum sem prýða viðkomandi einstakling í huga þeirra sem velja nafn fyrir barnið.
Ég nefni þetta til að undirstrika að engum sé betur treystandi til að velja barni nafn en einmitt þeim sem bera ábyrgð á uppvexti og öllu atlæti þess. Rétturinn til nafns er mjög ríkur og einnig rétturinn til að velja og ákveða nafn viðkomandi einstaklings.
Í samráðsgátt stjórnvalda er frumvarp sem ég hyggst leggja fram um ný mannanafnalög. Með frumvarpinu er stefnt að því að draga úr afskiptum opinberra aðila af nafngiftum með hliðsjón af friðhelgi einkalífs. Frelsi við nafngjöf verður aukið og takmarkanir afnumdar varðandi skráningu nafna, bæði eiginnafna og kenninafna.
Núgildandi lög um mannanöfn hafa verið í gildi í tæpan aldarfjórðung. Lögin hafa sætt töluverðri gagnrýni og hafa þótt helst til ströng. Snýr gagnrýnin ekki síst að erfiðleikum við að fá nöfn skráð hér á landi ef þau eru ekki fyllilega í samræmi við íslenska málhefð og rithátt. Mörg ákvæði í lögunum þykja ekki hafa fylgt þeim miklu breytingum sem orðið hafa á síðustu árum á samsetningu þjóðfélagsins.
Í frumvarpinu er lagt til að ekki verði takmörk á fjölda eiginnafna og kenninafna. Þeim sem eru 15 ára og eldri er tryggður sjálfsákvörðunarréttur þegar kemur að nafnbreytingum, auk þess sem leitast er við að tryggja betur rétt yngri barna til að taka þátt í slíkri ákvörðun. Felldar verða niður reglur um að eiginnöfn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Einnig er fellt brott ákvæði um að nafn megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og að það skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur. Takmarkanir á notkun erlendra nafna falla niður og ættarnöfn verða leyfð að nýju. Loks er lagt til í frumvarpinu að mannanafnanefnd verði lögð niður.
Ef við treystum fólki til að ala upp börn sín verðum við líka að treysta því til að gefa þeim nafn. Fjölmörg dæmi eru um nöfn sem ekki hafa fengist samþykkt og dæmi um nöfn sem þegar eru leyfð, eins og vísað er í hér í fyrirsögn. Enn verður þó ákvæði í lögunum um að nafn barns megi ekki vera því til ama.
Íslensk mannanafnahefð varð ekki til og verður ekki viðhaldið með lagasetningu. Réttur einstaklings til nafns er ríkari en réttur ríkisvaldsins til að takmarka hann.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 2020.