„Ég fagna því að hér höfum við vandaða greiningu á því hvaða þættir hafa verið að valda mestum töfum og raunhæfar tillögur til úrbóta,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra orkumála í gær þegar kynnt var að til stæði að einfalda ferli leyfisveitinga vegna framkvæmda á flutningskerfi raforku og kerfið vert skilvirkara en nú er.
„Þetta snýst ekki um að draga úr kröfum eða samráði, þetta snýst um að auka skilvirkni. Þetta eru góðar tillögur sem ég tel að við eigum að ganga hratt í að útfæra og innleiða,“ sagði Þórdís Kolbrún.
Um er að ræða tillögur átakshóps ríkisstjórnar sem settur var á laggirnar í kjölfar fárviðrisins sem gekk yfir landið í desember sl.
Helstu tillögur hópsins eru:
- Bættur verði málsmeðferðarhraði hjá lykilstofnunum og mál sett í forgang er varða stjórnsýslu framkvæmda við flutningskerfi raforku
- Heimilt verði að taka eina sameiginlega aðalskipulagsákvörðun um línulagnir þvert á sveitarfélagamörk
- Heimilt verði að skipa sérstaka sjálfstæða stjórnsýslunefnd vegna framkvæmda við flutningskerfi raforku til að undirbúa og samþykkja skipulagsákvörðun, gefa út framkvæmdaleyfi og hafa eftirlit með framkvæmdinni
- Vinna við mat á umhverfisáhrifum annars vegar og skipulagsákvörðun hins vegar verði keyrð samhliða
Jarðstrengjavæðingu flýtt um áratug
Samhliða þessu verður jarðstrengjavæðingu dreifikerfis raforku flýtt um áratug. Samkvæmt núverandi áætlunum lýkur jarðstrengjavæðingunni eftir 15 ár eða árið 2035. Lagt er til að verkið verði unnið þrefalt hraðar eða á 5 árum. Því verði þannig að mestu lokið 2025. Þrífösun verður innleidd samhliða jarðstrengjavæðingunni. Áætlað er að jarðstrengjavæðingin muni fækka truflunum í dreifikerfinu um 85% og að þær verði að mestu óháðar veðri.
Framkvæmdirnar lúta nær alfarið að dreifbýlishluta dreifikerfa RARIK og Orkubús Vestfjarða. Tillagan kallar á að ríkissjóður leggi fram flýtigjald, um 500-600 milljónir króna.
„Ávinningurinn af þessu er mikill, bæði hvað varðar aukið afhendingaröryggi og innleiðingu þrífösunar,“ sagði Þórdís Kolbrún og einni: „Ég hef þegar beitt mér fyrir hliðstæðri flýtingu framkvæmda á tveimur svæðum þar sem þörfin var óvenju brýn, í Skaftárhreppi og á Mýrum. Við eigum að halda áfram á þeirri braut.“
Á vef atvinnuvegaráðuneytisins segir að tillögurnar og viðbótarupplýsingar megi nálgast á vefnum innvidir2020.is. Tillögurnar verða til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda til loka mars.
Sjá nánar á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hér og hér.