Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Ok, það skal viðurkennt: Ég bíð alltaf spenntur eftir að Tíund, tímarit Ríkisskattstjóra, komi út. Margt er þar athyglisvert en ítarleg greining Páls Kolbeins rekstrarhagfræðings á álagningu einstaklinga hvers árs fangar hugann. Mér er til efs að betri árleg greining sé gerð á tekjum, eignum, skuldum, sköttum og gjöldum einstaklinga.
Nýjasta tölublað Tíundar, sem kom út fyrir skömmu, sveik ekki. Greining Páls Kolbeins er á sínum stað; álagning einstaklinga 2019 vegna tekna ársins 2018. Páll bendir í upphafi á að skattframtöl beri vitni um mikinn uppgang á árinu 2018. „Útlendingar flykktust til landsins, laun og tekjur hækkuðu og verðmæti eigna jókst. Skuldir jukust en þó í minna mæli en eignir og eigið fé. Þó að nokkuð hafi dregið úr hinum mikla vexti sem var hér á árunum 2016 og 2017 þá er engu að síður óhætt að segja að það hafi blásið byrlega fyrir landsmönnum á árinu 2018.“
29 þúsund í skatt af einni krónu
Í hafsjó upplýsinga finnst margt sem er skrítið og sumt kann að særa réttlætiskennd. Eins og Páll Kolbeins bendir á, þá leggjast svokallaðir nefskattar – ákveðin fjárhæð sem er lögð jafnt á alla – þyngst á þá sem lægstu tekjurnar hafa. Eftir því sem tekjurnar eru hærri er bagginn léttari. Útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra eru nefskattar. Allir einstaklingar 16-70 ára með tekjur yfir skattleysismörkum verða að standa skil á þessum sköttum. Öryrkjar sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarheimilum eru undanþegnir. Árið 2018 var útvarpsgjaldið 17.100 krónur og gjald í Framkvæmdasjóð var 11.454 krónur. Alls 28.954 krónur.
Þetta sama ár voru skattleysismörkin 1.750.782 krónur – tæplega 146 þúsund á mánuði. Einstaklingur sem hafði einni krónu hærri tekjur varð því að greiða nær 29 þúsund krónur í nefskatta. Varla er hægt að finna dæmi um þyngri skattheimtu. Dæmi um óréttlæti skattkerfisins? Auðvitað.
Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra nam tæpum 2,6 milljörðum króna og var lagt á 225.660 einstaklinga, 8.067 fleiri en árið á undan.
Pakkað í bómull
Samkvæmt upplýsingum í grein Páls Kolbeins voru rúmir 3,9 milljarðar lagðir á einstaklinga í útvarpsgjald vegna ársins 2018. Gjaldið var lagt á 225.468 gjaldendur og fjölgaði þeim um liðlega átta þúsund. Ríkisútvarpið er eini fjölmiðill landsins sem býr við þær kjöraðstæður að „áskrifendum“ fjölgar sjálfvirkt ár eftir ár, án þess að nokkuð sé fyrir því haft.
Á fimm árum frá 2015 hefur þeim einstaklingum sem greiða útvarpsgjald fjölgað um liðlega 36 þúsund.
En þar með er ekki sagan öll sögð því allir lögaðilar þurfa að greiða útvarpsgjald. Rétt tæplega 42 þúsund lögaðilar greiddu alls um 735 milljónir. Á fimm árum hefur þeim fjölgað um rétt tæplega sex þúsund.
Ekki verður annað sagt en að löggjafinn hafi hugað vel að Ríkisútvarpinu – í raun pakkað fyrirtækinu í eins konar bómull og tryggt að í hvert einasta skipti sem einhver heldur upp á 16 ára afmælið og/eða aflar sér einni krónu meira en skattleysismörkin, þá bætist í hóp „áskrifenda“. Og það sem meira er. Þegar einhver framtaksmaðurinn stofnar fyrirtæki fjölgar „áskrifendunum“.
Til að gulltryggja þetta allt hefur Ríkisútvarpið frjálsar hendur á auglýsingamarkaði í samkeppni við sjálfstæða fjölmiðla.
Útsvarið skiptir máli
Þvert á það sem margir halda þá er hlutur sveitarfélaganna í staðgreiðslu stærri en ríkissjóðs. Þetta er vegna þess að ríkið tryggir sveitarfélögunum útsvar af tekjum þeirra sem eru undir skattleysismörkum og greiða þeir engan skatt af tekjum, hvorki tekjuskatt né útsvar. Útsvar var lagt á liðlega 298 þúsund einstaklinga vegna tekna 2018, rúmlega 63 þúsund fleiri en greiddu tekjuskatt. Útsvarstekjur námu 232 milljörðum króna á móti 190 milljörðum sem runnu í ríkissjóð í formi almenns tekjuskatts.
Í greiningu Páls Kolbeins kemur þannig skýrt fram að útsvar leggst þyngra á herðar launafólks en tekjuskattur. Einmitt þess vegna skiptir það skattgreiðendur miklu að sveitarfélögin gæti hófsemi þegar kemur að því að ákvarða útsvarsprósentuna. Samkvæmt lögum er hámarkið 14,52% (eins og Reykjavík leggur á borgarbúa), en sveitarfélög geta ekki lagt á lægra útsvar en 12,44%.
Munurinn á hæsta og lægsta útsvari er 2,08%. Páll Kolbeins dregur fram athyglisverða staðreynd: Þeir sem búa í sveitarfélagi þar sem útsvar er í hámarki greiða 20.800 krónum meira í útsvar af hverri milljón sem þeir afla en þeir sem eiga heima í sveitarfélagi sem leggur á lágmarksútsvar.
Einstaklingur sem er að jafnaði með 450 þúsund krónur í mánaðartekjur greiðir um 112 þúsund meira í útsvar á ári fyrir að búa í sveitarfélagi þar sem álagningin er í hámarki en hann gerði ef hann væri búsettur í einu af þeim þremur sveitarfélögum sem gæta mestu hófseminnar. Þetta er um 25% af mánaðarlaunum.
Þegar þessi einföldu sannindi eru höfð í huga er erfitt að skilja hvers vegna augu almennings og þá ekki síst forystu launafólks beinast ekki í ríkara mæli að háskattastefnu margra sveitarfélaga. Útsvar leggst þyngra á láglaunamanninn en tekjuskattur ríkisins, alveg með sama hætti og nefskatturinn sem rennur til Ríkisútvarpsins.
Og að lokum er forvitnileg staðreynd frá Páli Kolbeins. Tekjur landsmanna námu alls 1.863 milljörðum króna árið 2018 og hækkuðu um rúmlega 43 milljarða króna. Laun, hlunnindi og lífeyrir hækkuðu um 76,9 milljarða en fjármagnstekjur lækkuðu um 33,8 milljarða. Lækkun fjármagnstekna veldur hins vegar fáum áhyggjum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. febrúar 2020.