Margt er skrýtið, annað forvitnilegt
'}}

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Ok, það skal viður­kennt: Ég bíð alltaf spennt­ur eft­ir að Tí­und, tíma­rit Rík­is­skatt­stjóra, komi út. Margt er þar at­hygl­is­vert en ít­ar­leg grein­ing Páls Kol­beins rekstr­ar­hag­fræðings á álagn­ingu ein­stak­linga hvers árs fang­ar hug­ann. Mér er til efs að betri ár­leg grein­ing sé gerð á tekj­um, eign­um, skuld­um, skött­um og gjöld­um ein­stak­linga.

Nýj­asta tölu­blað Tí­und­ar, sem kom út fyr­ir skömmu, sveik ekki. Grein­ing Páls Kol­beins er á sín­um stað; álagn­ing ein­stak­linga 2019 vegna tekna árs­ins 2018. Páll bend­ir í upp­hafi á að skatt­fram­töl beri vitni um mik­inn upp­gang á ár­inu 2018. „Útlend­ing­ar flykkt­ust til lands­ins, laun og tekj­ur hækkuðu og verðmæti eigna jókst. Skuld­ir juk­ust en þó í minna mæli en eign­ir og eigið fé. Þó að nokkuð hafi dregið úr hinum mikla vexti sem var hér á ár­un­um 2016 og 2017 þá er engu að síður óhætt að segja að það hafi blásið byrlega fyr­ir lands­mönn­um á ár­inu 2018.“

29 þúsund í skatt af einni krónu

Í haf­sjó upp­lýs­inga finnst margt sem er skrítið og sumt kann að særa rétt­lætis­kennd. Eins og Páll Kol­beins bend­ir á, þá leggj­ast svo­kallaðir nefskatt­ar – ákveðin fjár­hæð sem er lögð jafnt á alla – þyngst á þá sem lægstu tekj­urn­ar hafa. Eft­ir því sem tekj­urn­ar eru hærri er bagg­inn létt­ari. Útvarps­gjald og gjald í Fram­kvæmda­sjóð aldraðra eru nefskatt­ar. All­ir ein­stak­ling­ar 16-70 ára með tekj­ur yfir skatt­leys­is­mörk­um verða að standa skil á þess­um skött­um. Öryrkj­ar sem dvelja á dval­ar- og hjúkr­un­ar­heim­il­um eru und­anþegn­ir. Árið 2018 var út­varps­gjaldið 17.100 krón­ur og gjald í Fram­kvæmda­sjóð var 11.454 krón­ur. Alls 28.954 krón­ur.

Þetta sama ár voru skatt­leys­is­mörk­in 1.750.782 krón­ur – tæp­lega 146 þúsund á mánuði. Ein­stak­ling­ur sem hafði einni krónu hærri tekj­ur varð því að greiða nær 29 þúsund krón­ur í nefskatta. Varla er hægt að finna dæmi um þyngri skatt­heimtu. Dæmi um órétt­læti skatt­kerf­is­ins? Auðvitað.

Gjald í Fram­kvæmda­sjóð aldraðra nam tæp­um 2,6 millj­örðum króna og var lagt á 225.660 ein­stak­linga, 8.067 fleiri en árið á und­an.

Pakkað í bóm­ull

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um í grein Páls Kol­beins voru rúm­ir 3,9 millj­arðar lagðir á ein­stak­linga í út­varps­gjald vegna árs­ins 2018. Gjaldið var lagt á 225.468 gjald­end­ur og fjölgaði þeim um liðlega átta þúsund. Rík­is­út­varpið er eini fjöl­miðill lands­ins sem býr við þær kjöraðstæður að „áskrif­end­um“ fjölg­ar sjálf­virkt ár eft­ir ár, án þess að nokkuð sé fyr­ir því haft.

Á fimm árum frá 2015 hef­ur þeim ein­stak­ling­um sem greiða út­varps­gjald fjölgað um liðlega 36 þúsund.

En þar með er ekki sag­an öll sögð því all­ir lögaðilar þurfa að greiða út­varps­gjald. Rétt tæp­lega 42 þúsund lögaðilar greiddu alls um 735 millj­ón­ir. Á fimm árum hef­ur þeim fjölgað um rétt tæp­lega sex þúsund.

Ekki verður annað sagt en að lög­gjaf­inn hafi hugað vel að Rík­is­út­varp­inu – í raun pakkað fyr­ir­tæk­inu í eins kon­ar bóm­ull og tryggt að í hvert ein­asta skipti sem ein­hver held­ur upp á 16 ára af­mælið og/​eða afl­ar sér einni krónu meira en skatt­leys­is­mörk­in, þá bæt­ist í hóp „áskrif­enda“. Og það sem meira er. Þegar ein­hver fram­taksmaður­inn stofn­ar fyr­ir­tæki fjölg­ar „áskrif­end­un­um“.

Til að gull­tryggja þetta allt hef­ur Rík­is­út­varpið frjáls­ar hend­ur á aug­lýs­inga­markaði í sam­keppni við sjálf­stæða fjöl­miðla.

Útsvarið skipt­ir máli

Þvert á það sem marg­ir halda þá er hlut­ur sveit­ar­fé­lag­anna í staðgreiðslu stærri en rík­is­sjóðs. Þetta er vegna þess að ríkið trygg­ir sveit­ar­fé­lög­un­um út­svar af tekj­um þeirra sem eru und­ir skatt­leys­is­mörk­um og greiða þeir eng­an skatt af tekj­um, hvorki tekju­skatt né út­svar. Útsvar var lagt á liðlega 298 þúsund ein­stak­linga vegna tekna 2018, rúm­lega 63 þúsund fleiri en greiddu tekju­skatt. Útsvar­s­tekj­ur námu 232 millj­örðum króna á móti 190 millj­örðum sem runnu í rík­is­sjóð í formi al­menns tekju­skatts.

Í grein­ingu Páls Kol­beins kem­ur þannig skýrt fram að út­svar leggst þyngra á herðar launa­fólks en tekju­skatt­ur. Ein­mitt þess vegna skipt­ir það skatt­greiðend­ur miklu að sveit­ar­fé­lög­in gæti hóf­semi þegar kem­ur að því að ákv­arða út­svars­pró­sent­una. Sam­kvæmt lög­um er há­markið 14,52% (eins og Reykja­vík legg­ur á borg­ar­búa), en sveit­ar­fé­lög geta ekki lagt á lægra út­svar en 12,44%.

Mun­ur­inn á hæsta og lægsta út­svari er 2,08%. Páll Kol­beins dreg­ur fram at­hygl­is­verða staðreynd: Þeir sem búa í sveit­ar­fé­lagi þar sem út­svar er í há­marki greiða 20.800 krón­um meira í út­svar af hverri millj­ón sem þeir afla en þeir sem eiga heima í sveit­ar­fé­lagi sem legg­ur á lág­marks­út­svar.

Ein­stak­ling­ur sem er að jafnaði með 450 þúsund krón­ur í mánaðar­tekj­ur greiðir um 112 þúsund meira í út­svar á ári fyr­ir að búa í sveit­ar­fé­lagi þar sem álagn­ing­in er í há­marki en hann gerði ef hann væri bú­sett­ur í einu af þeim þrem­ur sveit­ar­fé­lög­um sem gæta mestu hóf­sem­inn­ar. Þetta er um 25% af mánaðarlaun­um.

Þegar þessi ein­földu sann­indi eru höfð í huga er erfitt að skilja hvers vegna augu al­menn­ings og þá ekki síst for­ystu launa­fólks bein­ast ekki í rík­ara mæli að háskatta­stefnu margra sveit­ar­fé­laga. Útsvar leggst þyngra á lág­launa­mann­inn en tekju­skatt­ur rík­is­ins, al­veg með sama hætti og nefskatt­ur­inn sem renn­ur til Rík­is­út­varps­ins.

Og að lok­um er for­vitni­leg staðreynd frá Páli Kol­beins. Tekj­ur lands­manna námu alls 1.863 millj­örðum króna árið 2018 og hækkuðu um rúm­lega 43 millj­arða króna. Laun, hlunn­indi og líf­eyr­ir hækkuðu um 76,9 millj­arða en fjár­magn­s­tekj­ur lækkuðu um 33,8 millj­arða. Lækk­un fjár­magn­stekna veld­ur hins veg­ar fáum áhyggj­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. febrúar 2020.