Sjálfbærni Íslands með garðyrkjuafurðir og olíu
'}}

Ásmundur Friðriksson alþingismaður:

Ég fór ný­verið fyr­ir hópi fólks á Íslandi sem hef­ur sérþekk­ingu á ýmsu sem snýr að sjálf­bærni Íslands í fram­leiðslu græn­metisaf­urða. Margt at­hygl­is­vert kom fram í starfi okk­ar og var hóp­ur­inn kallaður fyr­ir ráðherra­nefnd um mat­væla­stefnu sem for­sæt­is­ráðherra leiðir.

Sam­keppn­is­for­skot í gæðum

Víða í Evr­ópu eru gróður­hús á mörg­um hekt­ur­um lands sem brenna gasi, olíu eða jafn­vel kjarn­orku til að kynda og lýsa gróður­hús. All­ir val­kost­irn­ir losa mikið kol­efni. Á ökr­un­um við Vikt­oríu­vatn í Afr­íku keppa ís­lensk­ir blóma­bænd­ur við sól­ar­ljósið og mánaðarlaun verka­manns á akr­in­um eru um 2.500 kr. eða sem nem­ur tíma­kaupi á Íslandi. Kol­efn­is­spor afurða sem eru ræktuð við þessi skil­yrði eru marg­föld á við ís­lenska fram­leiðslu, þar sem hún stend­ur í hill­um versl­ana um land allt. Stærðar­hag­kvæmn­in og ýms­ar nátt­úru­leg­ar ytri aðstæður gefa er­lendri fram­leiðslu vissu­lega nokk­urt for­skot en að öðru leyti er fram­leiðsla þeirra varla með tærn­ar þar sem Ísland er með hæl­ana þegar kem­ur að heil­næmi um­hverf­is­ins og kol­efn­is­spori vör­unn­ar.

Þess­um áskor­un­um verður ís­lensk fram­leiðsla að mæta með stór­sókn í fram­leiðslu hágæða afurða úr frjó­um sverði sem hreint landið býr yfir. Græn ódýr orka, ný­sköp­un og efl­ing hefðbund­inn­ar garðyrkju get­ur gert landið sjálf­bært á eig­in fram­leiðslu og gefið sam­keppn­is­for­skot þegar horft er til gæða. Tæki­færið ligg­ur í ódýrri end­ur­nýj­an­legri orku og stöðug­leika í flutn­ings­kostnaði raf­orku til garðyrkj­unn­ar.

Frjór jarðveg­ur

Við höf­um stuðlað að fram­leiðslu á vist­vænu áli og næsta stóra skref í upp­bygg­ingu á Íslandi er græna stóriðjan sem nýt­ir ódýra orku til lýs­ing­ar í gróður­hús­um sem fram­leiða ein­staka vöru á heims­mæli­kv­arða. Stefn­um að sjálf­bæru Íslandi í allri fram­leiðslu garðyrkju­af­urða, korni og höfr­um, þar sem gæði lands­ins, sjálf­bær orka, frjór jarðveg­ur og hreint vatn er sérstaðan. Tæki­færið er núna og fram­lag stjórn­valda á að vera að tryggja samn­inga um ódýra orku til langs tíma og lán á litl­um eða eng­um vöxt­um gæti tryggt af­kom­una enn frek­ar.

Garðyrkju­landið Ísland á að mínu mati að taka for­ystu í rækt­un heil­næmra afurða sem full­nægja eft­ir­spurn á inn­an­lands­markaði. Til þess að svo megi verða þarf áræði, framtíðar­sýn og stöðug­leika í rekstr­ar­um­hverfi. Íslensk fram­leiðsla skil­ar fimm sinn­um minna kol­efn­is­spori en inn­flutt­ar afurðir, og hlut­ur garðyrkj­unn­ar í mat­væla­fram­leiðslu lands­ins í dag er 7,6% en kol­efn­is­sporið er 1% af los­un­inni. Þessi staða er dauðafæri fyr­ir þátt­töku og fram­lag Íslands í minni los­un kol­efn­is. Opin gróður­hús þar sem fólk kem­ur og sér mat­inn verða til og fær að taka þátt í fram­leiðsluæv­in­týr­inu, bók­staf­lega heyra plönt­urn­ar vaxa, eru hluti af framtíðar­sýn­inni.

Olía fyr­ir all­an flot­ann

Fleira get­um við gert. Með því að rækta 160.000 hekt­ara af repju, sem er álíka stórt svæði og Sól­heimas­and­ur og Mýr­dalss­and­ur, er hægt að fram­leiða 160.000 tonn af repju­olíu. Til sam­an­b­urðar not­ar all­ur fiski­skipa­flot­inn okk­ar 130.000 tonn. Hver hekt­ari skil­ar því einu tonni af olíu, sem er ótrú­lega hátt afurðar­gildi. Hver hekt­ari dreg­ur sex tonn af kolt­ví­sýr­ingi úr and­rúms­loft­inu á vaxt­ar­tíma plantn­anna og við brennslu ol­í­unn­ar kem­ur helm­ing­ur til baka. Ávinn­ing­ur­inn er veru­leg­ur. Við gæt­um nær hætt inn­flutn­ingi á olíu.

Hefj­umst handa með aðgerðaáætl­un um rækt­un ol­íu­jurta til fram­leiðslu eldsneyt­is sem gæti tekið okk­ur 5-10 ár. Við vinnslu repj­unn­ar eru fræ henn­ar skil­in frá strá­um, sem eru helm­ing­ur líf­mass­ans. Í raun verður repju­olí­an auka­af­urð í þess­ari fram­leiðslu því 320.000 tonn af fóður­mjöli eru mestu verðmæt­in sem nota má við svína-, nauta- og lax­eldi. Þá gefa pressuð repju­fræ­in 160.000 tonn af repju­olíu. Ávinn­ing­ur­inn gæti hlaupið á millj­arðasparnaði í inn­fluttri olíu og stór­felldri minnk­un á kol­efn­is­spori lands­ins.

Þessi vinna og vitn­eskja er til staðar og við get­um hjólað í verk­efnið nú þegar. Sér­fræðihóp­ur­inn sem ég fór fyr­ir er í start­hol­un­um en því miður hef­ur eng­inn haft sam­band eft­ir fund­inn með ráðherra­nefnd­inni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. febrúar 2020.