Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður:
Hugtakið og hugmyndin um þjóðaröryggi hefur jafnan verið sveipað neikvæðri merkingu vegna hugrenningatengsla við hernaðaruppbyggingu, varnir gegn hryðjuverkum og hvers kyns vernd gegn hernaðarárásum á ríki. Hugtakið er um leið nátengt hugtakinu um fullveldi ríkja, þ.e. rétt þeirra til að halda uppi stjórn á tilteknu landsvæði og viðurkenningu annarra ríkja á þessu valdi. Ísland hefur sem þátttakandi í alþjóðasamfélagi rétt til þess að tryggja öryggi og efla varnir sínar gagnvart ógnunum sem hugsanlega gætu steðjað að borgurunum, efnahagslífi og lykilstofnunum. Á síðustu árum hefur orðið viss stefnubreyting í skýringu á hugtakinu „þjóðaröryggi“. Í stað hugleiðinga um hernaðarbrölt snýr hugtakið nú fremur að rétti ríkja til þess að tryggja borgurunum öryggi, sjálfbærni og hagsæld til uppbyggingar og framfara í landinu.
Hvernig verður það gert?
Veturinn hefur verið erfiður fyrir marga íbúa landsbyggðarinnar. Langvarandi rafmagnsleysi sem skall á í fárviðrinu 10. og 11. desember var fordæmalaust. Í langvarandi rafmagnsleysi reynir á varaafl og eftir að varaafl þrýtur stöðvast almenn fjarskiptaþjónusta. Viðbrögð íbúa á þeim svæðum sem urðu hvað verst úti, forsvarsmanna lykilstofnana og stjórnmálamanna staðfesta að fjölmargir þættir í öryggiskerfi okkar brugðust. Veikleikar raforkuflutningskerfisins okkar hafa verið afhjúpaðir, veikleikar sem Landsnet hefur reyndar bent á árum saman.
Hlutverk Landsnets er að tryggja hagkvæma uppbyggingu og rekstur raforkukerfisins. Landsnet hefur hins vegar ekki getað fylgt eftir áætlunum sínum um uppbyggingu flutningskerfisins í mörg ár, m.a. vegna þess að regluverkið er flókið og óskilvirkt og vegna margslunginna deilna sem einungis lögmenn virðast hagnast á. Ekki er þó lausnin á þeim vanda að líta einungis til lagningar jarðstrengja, þar sem einungis má koma um 10% af rúmlega 1.000 km af 132 kV núverandi loftlínu í jörðu. Þá er einungis sá möguleiki að koma 5% af heildarlengd nýrrar 220 kV byggðalínu í jörðu.
Skyldur ríkja að tryggja þjóðaröryggi
Í kjölfar óveðursins 10. og 11. desember 2019 skipaði ríkisstjórnin sérstakan átakshóp um úrbætur á innviðum. Hópnum er ætlað að meta hvaða aðgerðir séu færar til að efla innviði í flutnings- og dreifikerfi raforku og fjarskiptum svo hægt sé að takast á við öfgafullar aðstæður, s.s. ofsaveður eða aðrar náttúruhamfarir. Það verður því áhugavert að sjá hvers konar tillögum átakshópurinn skilar.
Brýnt er þó að hafa í huga að það er skylda ríkisins að tryggja þjóðaröryggi. Þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem samþykkt var á Alþingi 13. apríl 2016 er að mínu mati ekki nógu ítarleg hvað varðar grunninnviði okkar, þ.e. samgöngur, raforku- og fjarskiptakerfi. Ég hef því óskað eftir skýrslu stjórnvalda um stöðu þessara mála en nágrannar okkar, t.d. Norðmenn, Svíar og Finnar, hafa mótað yfirgripsmiklar stefnur um alla þætti þjóðfélaga sinna með tilliti til öryggis, viðbúnaðar og viðbragðsgetu.
Forgangsraða þarf í kerfinu þannig að þjóðaröryggi og öryggi fjöldans vegi þyngra en hagsmunir fárra. Það gerum við með styrkingu flutnings- og dreifkerfis raforku á landinu öllu, öryggi fjarskipta og greiningu samfélagslegra innviða út frá þjóðaröryggi landsins og samfélagsins alls með það að markmiði að tryggja öryggi, sjálfbærni og hagsæld Íslands.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. febrúar 2020.