Jón Gunnarsson ritari Sjálfstæðisflokksins og alþingismaður:
Það er fátt mikilvægara og meira gefandi í starfi þingmannsins en að heimsækja kjósendur á þeirra heimavelli hvort sem er á vinnustöðum eða á fundum.
Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur nú lokið fyrstu lotu ferðar sinnar um allt land með heimsóknum á yfir 30 staði og í meira en 100 lítil og meðalstór fyrirtæki. Framundan eru heimsóknir á höfuðborgarsvæðinu og til nokkurra annarra staða á landinu til að loka hringnum.
Slíkar heimsóknir krefjast mikils undirbúnings og á þessum árstíma verður einnig að treysta á að veðurguðirnir séu hliðhollir svo að ströng dagskrá gangi upp. Þetta gekk ótrúlega vel að þessu sinni.
En það er til lítils að leggja þennan undirbúning og vinnu á félaga okkar um land allt, nema fólk finni að slíkt beri árangur. Að það veganesti og þau skilaboð sem þingmenn fá frá mismunandi hópum samfélagsins í öllum landshlutum komi að notum.
Það sem mér finnst standa upp úr eftir þennan fyrsta áfanga ferðarinnar er að fólki finnst að of mikið sé talað og of lítið áþreifanlegt gerist. Áherslur eru mismunandi, eins og gefur að skilja, þó að vissulega standi ákveðnir málaflokkar upp úr, og er þá sama við hvern þú talar eða á hvaða svæði þú ert.
Uppbygging innviða er öllum ofarlega í huga. Stórir landshlutar hafa ekki tækifæri til að efla og bæta búsetuskilyrði, fyrst og fremst vegna ófullnægjandi samgangna og veikleika í dreifikerfi raforku. Það mega sín lítils fögur orð um aukna verðmætasköpun og fjölgun fjölbreyttari atvinnutækifæra, þegar grunnurinn er eins veikur og raun ber vitni.
Þessi ríkisstjórn hefur nú setið við völd í á þriðja ár og skilaboðin til okkar eru skýr: Nú er kominn tími til að hefjast handa. Vissulega hefur margt unnist vel og miklum árangri verið skilað í hús. En samt eru áþreifanlegar breytingar á framangreindum meginþáttum ekki nægilega sýnilegar. Flókið regluverk og langur undirbúningstími er líka gagnrýnt harkalega. Krafan á okkur stjórnmálamenn er að einfalda þessa hluti og gera gangverkið skilvirkara. Staðan í því máli er því miður þannig að slíkt virðist þurfa að taka langan tíma, sérstaklega þegar að ljóst er að erfitt er að fá stjórnmálamenn og embættismenn til að ganga í takt. Sú staðreynd er örugglega að kosta samfélag okkar milljarða á ári.
Nú er tímabært að þau verkefni sem að þessu lúta og fullyrða má að mörg hver snerti þjóðaröryggi, fái flýtimeðferð í stjórnkerfinu. Alþingi getur sett um það lög að ákveðin verk og framkvæmdir vegna þeirra, fái lagalega umgjörð og skuli njóta forgangs og undþága frá því flókna regluverki sem um þær gildir. Þetta á sérstaklega við aðgerðir sem mikilvægar eru til að tryggja aðgang að raforku og öruggum greiðum samgöngum. Þessi verkefni eru um allt land og eiga það sammerkt að mynda grunn að eflingu samfélagsins. Það er ekki síður mikilvægt, við þær aðstæður sem nú hafa skapast og um hægist í hagkerfinu, að hið opinbera svari því með háu framkvæmdastigi og það strax. Slíkar ráðstafir yrðu til að auka á bjartsýni manna og gefa atvinnulífinu það súrefni sem það þarf á þessum tímamótum. Nú er tími til að láta hendur standa fram úr ermum, tími aðgerða er runninn upp og þess verður að sjá stað strax á þessu ári og þeim næstu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. febrúar 2020.